150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni, formanni fjárlaganefndar, fyrir andsvarið. Ég tek undir það og hef sagt að það hefur verið skynsamlegt að lækka skuldastöðu ríkissjóðs og gefa ríkissjóði meira svigrúm í niðursveiflunni. Það sem skiptir kannski mestu máli í þessu er að vinna á móti niðursveiflunni og þar höfum við í Miðflokknum t.d. komið með tillögu um að lækka enn frekar tryggingagjaldið til að reyna að örva atvinnulífið. Við teljum vera svigrúm til þess að lækka það enn frekar, um 0,25%. Það geri fyrirtækjunum kleift að treysta rekstrargrundvöll sinn og nú þegar atvinnuleysi eykst hafi fyrirtækin burði til þess að reyna að fjölga störfum og gera betur við þá starfsmenn sem þegar eru til staðar. Ég verð að fara nánar í þetta í síðara andsvari þar sem tíminn er afar naumur.