150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:42]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður misskilur þetta gjörsamlega. Í fyrsta lagi fáum við úthlutað nýjum losunarheimildum á hverju ári. Við erum ekkert að safna þeim. Í öðru lagi er þetta allsendis óskylt grænum sköttum hér heima. Það er ekkert samhengi þar á milli. Ég held að hann þurfi bara að fræðast um hvað losunarheimildir eru og til hvers þær eru notaðar.

Ég ætla að spyrja um annað. Það er talað um há gjöld á ferðamenn þegar þeir koma til Íslands. Hvaða gjöld eru það sem eru há af okkar hálfu þegar ferðamenn koma til Íslands? Ég vil svo sem viðurkenna að verðlag á Íslandi er mjög hátt í ferðaþjónustu en að sérstök gjöld á ferðamenn komandi til Íslands séu há — segjum að við bættum við 1.000 kr. í einhvers konar innkomugjald þegar við erum að tala um kannski 200.000–300.000 kr. meðaleyðslu ferðamanna á Íslandi á einum til tveim vikum. En hvaða gjöld eru þetta?