150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:43]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði það í ræðu minni að ég teldi að það væri mjög mikilvægt að varast að setja svokallað komugjald á ferðamenn eins og staða greinarinnar er í dag. Hún er í mikilli óvissu. Þetta er okkur afar mikilvæg grein og starfar á alþjóðlegum samkeppnisgrundvelli þar sem veður geta skipast mjög hratt. Ef hv. þingmaður er að spyrja um það hvaða gjöld eru há þá átti ég við það að það er dýrt fyrir ferðamenn að koma hingað, Ísland er dýrt ferðamannaland. Það var það sem ég sagði fyrst og fremst og lagði áherslu á. Að bæta síðan gjaldi ofan á það tel ég bara vera óskynsamlegt. Þannig hef ég útskýrt þetta mál og ef hv. þingmaður hefur misskilið mig hvað það varðar þá er það fyrst og fremst þetta sem ég átti við. Við verðum að stíga mjög varlega til jarðar þegar kemur að þeim hugmyndum um skatta sem ríkisstjórnin hafði hugsað sér að leggja á en varð hins vegar að falla frá, m.a. vegna þess að undirbúningur var mjög lélegur (Forseti hringir.) og ljóst að það hefði getað haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þessa grein sem skiptir verulegu máli í stöðu efnahagsmála fyrir þjóðina.