150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og áhuga hans á þessu máli vegna þess að við höfum áður rætt það hér og ég hef rætt það í þessum ræðustól að ég tel afar óskynsamlegt að Landsbankinn, sem er að 98% hluta í eigu ríkissjóðs, skuli vera að fara í slíka stórframkvæmd á einni dýrustu lóð landsins. Ég minni á að það eru miklar breytingar í bankaþjónustu fram undan og hafa verið að eiga sér stað. Starfsmönnum hefur fækkað mjög mikið þannig að rökstuðningur fyrir því að byggja 17.000 m² byggingu á þessum stað er afar hæpinn að mínu mati, auk þess sem áform Landsbankans eru að leigja stóran hluta byggingarinnar út til annarrar starfsemi. Ég tel þetta ekki vera hlutverk Landsbankans. Hv. þingmaður spurði með hvaða hætti þessi greiðsla kæmi þá inn í ríkissjóð. Landsbankanum yrði einfaldlega gert í krafti eigandans, eigendastefnu, að selja þessa lóð og (Forseti hringir.) andvirði hennar myndi síðan renna í ríkissjóð í gegnum arðgreiðslu í gegnum Landsbankann.