150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og ágætt að hann kom inn á urðunarskattinn vegna þess að hér var á ferðinni enn ein skattheimtan af hálfu ríkisstjórnarinnar sem lagt var upp með, sem var afar illa undirbúin og ríkisstjórnin var síðan gerð afturreka með vegna þess að það var með engum hætti hægt að skilja hvernig ætti að innheimta þennan skatt og fyrirvarinn var afar skammur. Þessi skattur kemur sérstaklega til með að hafa slæm áhrif á fyrirtækin í landinu. Það er ábyrgðarleysi að ætla að bæta enn einni skattlagningu á fyrirtækin í landinu í þessu árferði þegar niðursveifla og atvinnuleysi eykst (Gripið fram í: … fyrirtækin.) og við þurfum að styrkja fyrirtækin.

Hv. þingmaður spurði um aðrar leiðir og við í Miðflokknum höfum t.d. lagt fram þingsályktunartillögu um hágæðasorpbrennslu, þannig að það er ein leiðin. Ég verð að segja við hv. þingmann að það er afar slæmt þegar lagt er af stað með (Forseti hringir.) svona illa undirbúin verkefni og illa undirbúnar hugmyndir um skattlagningu. Þetta hefur auðvitað áhrif á alla (Forseti hringir.) áætlunargerð fyrirtækja o.s.frv. og síðan sjáum við að ríkisstjórnin er gerð afturreka með þetta. (Forseti hringir.) En ég óttast því miður að það standi til að leggja þennan skatt á.

(Forseti (ÞorS): Enn minnir forseti á tímamörk.)