150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:50]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög svo ítarlega ræðu og sorglegt að heyra að hann hafi ekki einu sinni komið öllu að á þeim 60 mínútum heldur fáum við aðra ræðu. Mig langar einmitt að spyrja hv. þingmann aðeins meira út í umhverfismálin. Urðunarskatturinn var eitt sem var rætt áðan. Ég velti fyrir mér hverjar tillögur Miðflokksins eru í þeim efnum. Hv. þingmaður nefndi tillögu um hágæðabrennslustöð sem er gott og gilt, við þurfum örugglega brennslustöð, en ég trúi því varla og vona að það sé ekki þannig að það séu í rauninni einu lausnir Miðflokksins þegar kemur að úrgangsmálum okkar.

Það er mjög gott að sjá það í nefndarálitinu hjá hv. þingmanni að náttúruvernd og önnur umhverfisvernd séu á meðal mikilvægustu viðfangsefna samtímans. Svo er því haldið fram að viðbrögð stjórnvalda séu einhvers konar sýndarmennska. Ég velti fyrir mér: Hver eru markmið Miðflokksins og hver eru svör Miðflokksins í þeim efnum? Ég hef heyrt því fleygt hérna að það að finna olíu í íslenskri landhelgi sé með því umhverfisvænasta sem við gætum gert (Forseti hringir.) og gasvinnsla með því allra umhverfisvænasta sem hægt væri að fara í (Forseti hringir.) og svo er talað um svokölluð græn skuldabréf. Hverjar eru lausnir Miðflokksins, hv. þingmaður?