150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:51]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það er skammur tími að svara þessu á einni mínútu eða svo en kjarni málsins lýtur að fjárlagafrumvarpinu. Þá hef ég rakið það sérstaklega í ræðu með kolefnisgjaldið að ég tel það vera dæmi um skattlagningu sem mætti í raun og veru segja að sé ákveðin sýndarmennska að því leytinu til að í fyrsta lagi er innkoman, sem á nú að vera 6,3 milljarðar á næsta ári, ekki öll eyrnamerkt aðgerðum í loftslagsmálum, svo dæmi sé tekið. Auk þess er þeirri skattheimtu ekki jafnað niður á landsmenn með sanngjörnum hætti og ég rakti það mjög vel í ræðu minni. Ég held að í fyrsta lagi sé krafan sú að ríkisstjórnin haldi nokkurs konar bókhald um það í hvað þau gjöld fara. Það er fyrsta skrefið í því að almenningur sjái að verið sé að vinna markvisst að þeim málum. En það er ekki svo, því miður, í þessum stefnumálum ríkisstjórnarinnar.