150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:52]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við hv. þingmaður getum alla vega verið sammála um að það væri mjög gott að halda gott bókhald utan um loftslagsmálin, enda er það hluti af stefnunni. En mig vantar í rauninni enn þá svör. Það er þó gott að vita til þess að í 2. umr. fjárlaga er hægt að halda fleiri ræður og kannski getur hv. þingmaður splæst því inn í næstu ræðu hjá sér hverjar raunverulegar tillögur Miðflokksins eru þegar kemur að loftslagsmálum, sem þeir viðurkenna oft í aðra röndina að sé stórt og mikið mál. Ég hef stundum hreinlega velt því fyrir mér hvort Miðflokkurinn styðji Parísarsáttmálann, hvort Miðflokkurinn styðji heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og að Íslendingar séu þátttakendur í því með þeim markmiðum sem við höfum sett okkur. Ef svo er væri mjög áhugavert að fá fram einhverjar raunverulegar lausnir um það hvernig við eigum að ná því fram.

Ég get alveg tekið undir að það þarf alltaf að fara mjög varlega í skattheimtu og frekari skattheimtu en það er þó viðurkennt að hækkandi verð hefur áhrif á eftirspurn. Sambland lausna sem annars vegar eru með einhverju kolefnisgjaldi eða skattlagningu og hins vegar einhverri ívilnun hafa oft virkað mjög vel. (Forseti hringir.) Við sjáum mörg dæmi um það í kringum okkur. Ég kalla eftir afstöðu Miðflokksins. Styður Miðflokkurinn Parísarsáttmálann og þátttöku Íslands í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna?