150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:54]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Við getum farið í sérstaka umræðu um Parísarsáttmálann en við erum að ræða fjárlög. Ég vil benda á að ég tel ekki og við í Miðflokknum teljum ekki eðlilegt að t.d. bifreiðaeigendur skuli greiða um rúmlega 80% allra þeirra gjalda sem lúta að umhverfismálunum en menga einungis á bilinu 6–8%. Það er ekki verið að jafna því niður með sanngjörnum hætti. Það er kjarni málsins. Gleymum því ekki að verið er að tala um að Ísland þurfi að taka sig á o.s.frv. Hvaða þjóðir menga mest? Eru það ekki Kína, Bandaríkin og Indland (BHar: … Parísarsáttmálann.) með 50% af allri mengun í heiminum? Við erum einhvers staðar þarna með 0,00-eitthvað prósent. Við erum t.d. með hitaveitu á 90% heimila. Eigum við ekki að tala um það sem er gott, það sem við gerum vel? Við framleiðum rafmagn á umhverfisvænan hátt. Eigum við ekki að tala um það? (Gripið fram í.) Eigum við ekki líka að tala um að þessar þjóðir, Bandaríkin, Kína og Indland, eigi að taka sig á og gera betur? (Gripið fram í: Parísarsáttmálann …) Á þá bara landsbyggðarfólk að borga sérstakan skatt sem er ósanngjarn (Forseti hringir.) og er jafnað niður á landsmenn á ósanngarnan hátt? Tölum um það sem Bandaríkin, Kína og Indland eiga að gera. (Forseti hringir.) Tölum um það.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir enn á ræðutíma og biður hv. þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð.)