150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:46]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég las með athygli nefndarálit hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar og hlustaði á ræðu hans og verð að segja að mér finnst eiginlega ekkert vera að frétta. (Gripið fram í.) Ég átta mig ekki á hvaða pólitísku stefnu Píratar leggja hér fram þegar við fjöllum um efnahagsmál og ríkisfjármál. Hvert er t.d. viðhorf Pírata til þess hvernig við erum að takast á við niðursveiflu í efnahagslífinu núna?

Síðan koma jú í ræðu hv. þingmanns einhverjar breytingartillögur sem endurspegla vissulega ákveðna pólitík. Ég ætla ekki að gera lítið úr því og við berum virðingu fyrir pólitískum áherslum hvert annars í þessum sal, en við lestur þessa nefndarálits verð ég fyrir miklum vonbrigðum því að ég upplifi vinnu við gerð fjárlaga og störf Alþingis með allt öðrum hætti en birtist í þessum texta.

Ég get bara ekki orða bundist í andsvari við hv. þingmann og get ekki annað sagt en að við sem störfum í fjárlaganefnd fáum þær bestu upplýsingar á hverjum tíma sem mögulegt er að veita okkur. Ég vil að það komi fram í andsvari mínu við hv. þingmann að ég deili ekki þeim sjónarmiðum sem hann hefur talað fyrir og mér finnst skína svolítið út úr nefndarálitinu. Við getum hins vegar alveg verið pólitískt ósammála og hann kemur inn á títtnefnt kirkjujarðasamkomulag við þjóðkirkjuna sem ég vil í seinna andsvari við hv. þingmann fara nánar út í, en byrja á því að spyrja hv. þingmann: Hver er efnahagspólitík Pírata?