150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:50]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Í þessu stutta andsvari skildi ég meira í pólitík Pírata í efnahagsmálum en í ræðunni áðan. En nóg um það. Hv. þingmaður hefur gagnrýnt samkomulag við þjóðkirkjuna og hann, ásamt mér og hv. þm. Birgi Þórarinssyni, hefur fengið það verkefni innan fjárlaganefndar að rýna það samkomulag. Ég ætla að byrja á því að mótmæla því sem hv. þingmaður hélt fram í framsöguræðu sinni áðan, að það hefðu ekki komið skýr svör. Við fengum gesti frá dómsmálaráðuneyti og svör þeirra voru afar skýr. Þau sneru einkum að þremur atriðum: Að breytingu sem varð vegna þess að við breyttum lögum um kjararáð, að starfskjörum starfsmanna þjóðkirkjunnar og að gildi samningsins vegna samspils við opinber fjármál — þetta var kjarninn í þessari gagnrýni — og síðan er endurskoðunarákvæði.

Ég vil bara segja að ég tók undir álit hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar í þessum starfshópi og ég tel að það hafi borist mjög greinargóð svör (Forseti hringir.) sem ég samþykki algerlega. Ég skil það eftir hjá hv. þingmanni, í seinna andsvari: Telur hann að fullnægjandi svör hafi ekki borist? (Forseti hringir.) Ég er ekki á þeim stað.