150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:59]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þá ætti hv. þingmaður að hlusta á ræðu mína aftur. Ég tók það alveg gríðarlega skýrt fram. (SÞÁ: Nei.) Jú, ég tók það gríðarlega skýrt fram í kaflanum um umhverfismál hversu gríðarlega erfitt og stórt verkefni þetta er sem við stöndum frammi fyrir og við þurfum að einbeita okkur vel að því. Ég sagði það mjög skýrt og greinilega að það væri kolefnisaukning af völdum manna og að hlýnunin sem því tengdist væri líka af völdum manna. Það er enginn vafi um það. Ég gaf gaum þeim gagnrýnisröddum sem heyrast úti í samfélaginu og efasemdarraddir eru góðra gjalda verðar en þær eru byggðar á mjög miklum misskilningi og ég reyndi að útskýra af hverju þær eru byggðar á miklum misskilningi.

Varðandi borgarlínu og loftslagsbreytingar þá höfum við heyrt gagnrýni um að fara í borgarlínu o.s.frv., það er fullt af slíkri gagnrýni, en það er einmitt kostnaðar- og ábatagreining sem sýnir svart á hvítu að það er lausnin, ekki einhver önnur, ekki að fjölga akreinum fyrir einkabílinn o.s.frv. Þá erum við ekki lengur að (Forseti hringir.) byggja ákvarðanatöku á ágiskun um það hvað sé best heldur á upplýsingum og gögnum um hvað er best.