150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir ræðuna. Ég get ekki sagt að ég geti verið sammála mjög mörgu í þetta skipti í ræðu hv. þingmanns. Ég gæti tínt ýmislegt til. Það er ekki laust við, sérstaklega framan af í ræðunni og í nefndaráliti, að lesa megi litla virðingu fyrir þeim störfum sem þingmenn og starfsmenn hv. fjárlaganefndar leggja á sig. Í öllu falli finnst mér hv. þingmaður í vissum tilvikum, bæði í ræðu og í nefndaráliti, dansa á ansi fínni línu þegar kemur að því.

Ég er auðvitað með öllu ósammála því að við séum í fjárlagaferlinu ekki að vinna í samræmi við ramma opinberra fjármála. Þetta er stefnumótandi ferli. Hv. þingmaður talar svo hátíðlega um kostnaðar- og ábatagreiningar. Ég get tekið það undir með hv. þingmanni að það skipti máli að kostnaðarmeta og ábatagreina og það sé lykiltæki í allri ákvarðanatöku. Þá er ég um leið að segja að hv. þingmaður er ekki að velja besta dæmið þegar hann tekur 3.500 milljónir á Landspítalanum vegna þess að það er hliðrun á verkefnum. Það er einmitt skynsamleg fjárstýring að vera ekki að henda — vegna þess að það er kostnaðarmat á bak við tiltekin verkefni og verkhluta. En varla ætlast hv. þingmaður til þess, þegar það er hliðrun á verkefnum frá þeim sem halda utan um verkefnið, frá fjármálaráðuneyti og inn til þingsins, að fjárlaganefnd setji bara opna heimild? Stundum hefur sjálfur hv. þingmaður notaði þetta orðalag, opinn tékki. Varla á hún að setja opna heimild þegar ekki er þörf á að nýta hana af því að þetta er bara eitt ár í senn og hefur ekkert með kostnaðar- og ábatagreiningu að gera.