150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:06]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get svo sem sagt ýmislegt fínt um það og breytingartillögur mínar snúast t.d. um það einmitt líka, hækkun persónuafsláttar og endurgreiðsla persónuafsláttar er skattalækkun af svipuðum meiði. Það sem maður getur kannski helst gagnrýnt er að það er ákveðið ógagnsæi varðandi það hvaða þensla er þar á bak við. Sem sagt: Hversu mikið er í raun hægt að sveigja til þegar efnahagsástandið breytist? Erum við að þenja okkur of mikið í óafturkræfum útgjaldaskuldbindingum? Ýmsar svoleiðis greiningar vantar. Frá mínum bæjardyrum séð virkar þetta aftur eins og ákveðin ágiskun. Já, það er gott að lækka skatta í þessu árferði og það er gott að auka útgjöld í þessu árferði. En það er ekki alveg sjálfsögð og augljós lausn. Hún þarf að vera markmiðuð á ákveðinn hátt. Þar þarf (Forseti hringir.) kostnaðar- og ábatagreiningu um það sem við veljum að leggja útgjöld í. Fjármálaráðherra talaði mjög skýrt um það. Það má alveg auka útgjöld ef fyrir liggur ábatagreining hvað það varðar.