150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:07]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2020 endurspeglar enn og aftur raunverulegan vilja ríkisstjórnarinnar til að bæta ekki kjör þeirra sem lakast standa í samfélaginu. Ekki er fyrirhugað að ráðast í nauðsynlegar úrbætur í þágu aukinnar velferðar. Lífeyrisþegum Tryggingastofnunar verður áfram haldið úti í kuldanum. Fjármálaráðherra boðar víðtækar breytingar á skattkerfinu en þegar betur er að gáð skila þær skammarlega fáum krónum í vasa láglaunamannsins. Hækka á neysluskatta og vörugjöld en ekki á að breyta álagningu veiðigjalda og fyrirhugað er að lækka bankaskattinn á næstu árum. Þetta er ekki forgangsröðun fjármuna í þágu fólksins.

Í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands er því spáð að hagvöxtur verði 1,7% á árinu 2020. Það er 0,9% minni hagvöxtur en í þeirri spá sem frumvarp til fjárlaga byggðist á. Vegna þessa er útlit fyrir að tekjur ríkissjóðs verði talsvert lægri en gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt til breytingar á frumvarpi til fjárlaga vegna breyttra forsendna. Taka á 4,2 milljarða kr. út úr sjóðum Lánasjóðs íslenskra námsmanna, fjármuni sem átti að nýta í Menntasjóð en verða þess í stað nýttir til að draga úr hallarekstri ríkissjóðs. Í staðinn verður í fjárlögum veitt heimild til að lána Menntasjóði allt að 5 milljarða kr. á árinu. Þannig á ekki að taka á vandanum með því að auka tekjur eða draga saman útgjöld heldur á að stinga hendi ofan í sparibaukinn.

Þá fegrar það bókhald ríkissjóðs enn frekar að framkvæmdir við nýjan Landspítala hafa tafist. Því verða útgjöld vegna framkvæmdanna 3,5 milljörðum kr. lægri en áætlað var í frumvarpi til fjárlaga.

Áætlað framlag ríkissjóðs til rammaáætlana ESB um menntun, rannsóknir og tækniþróun lækkar um 700 millj. kr. Það er vegna ofmats á fjárþörf í fyrri áætlunum. Í frumvarpi til fjárlaga var áætlað að framlag ríkisins til þessara verkefna myndi aukast um ríflega 1,1 milljarð. Því hefur umtalsverð breyting orðið á áætluðum fjárframlögum til málaflokksins. Ástæðuna má rekja til reikniskekkju sem lýsir fordæmalausu kæruleysi við meðferð á almannafé. Mig langar í þessu samhengi til að benda á að þær 700 millj. kr. sem voru þarna ofreiknaðar eru ekkert að fara í nýsköpun eða nokkuð annað. Þær eru bara horfnar, en það má þakka okkar ágæta hæstv. menntamálaráðherra að þessi reikniskekkja skyldi þó verða ljós í tíma því að hún var gerð úti í Brussel. Það þótti skjóta svolítið skökku við þegar allt í einu virtist vera hækkun um nánast 300% í málaflokkinn á milli ára.

Fresta á áformum um breytta skattlagningu ökutækja og sérstakur skattur vegna urðunar úrgangs verður tekinn til frekari skoðunar. 4. minni hluti er sammála þeim tillögum. Skattar á bifreiðaeigendur eru nú þegar í hæstu hæðum og ekki á þá bætandi. Sömuleiðis er ljóst að skattur á urðun úrgangs myndi leiða til aukinna sorphirðugjalda og þau gjöld kæmu harðast niður á þeim sem fátækastir eru í samfélaginu.

Það er áhyggjuefni að áætlaðar tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum verði 2,1 milljarði kr. lægri á næsta ári en ráð var fyrir gert þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram í haust. Er það enn eitt dæmið um brostnar forsendur fjárlagafrumvarpsins. Fiskstofnar á Íslandsmiðum eru ein helsta auðlind þjóðarinnar og fyrir afnot af henni skal greiða sanngjarnt endurgjald. 4. minni hluti bendir á að ástæða er til að vera á varðbergi gagnvart niðursveiflu í sjávarútvegi á næsta ári með tilheyrandi tekjutapi og jafnvel útgjöldum fyrir ríkissjóð. Allar líkur eru á að engar loðnuveiðar verði stundaðar á næsta ári og það er þá annað árið í röð sem engar slíkar veiðar verða á þessum lengst af næstverðmætasta fiskstofni þjóðarinnar. Slíkt ástand er verulega slæmt. Djúp og viðvarandi niðursveifla loðnustofnsins gæti síðan haft neikvæð áhrif á vöxt og viðgang annarra fiskstofna, svo sem þorsks. Efnahagsleg áhrif af slíku fyrir afkomu ríkissjóðs gætu orðið slæm. Um þetta allt ríkir þó mikil óvissa sem stendur.

Þrátt fyrir breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar er áætlað að ríkissjóður verði rekinn með halla. Þegar ríkisstjórnin lagði fram fjármálaáætlun og endurskoðaða fjármálastefnu í vor lýstu margir yfir áhyggjum af því að stjórnvöldum væri sniðinn of þröngur stakkur. Nú hafa þær áhyggjur raungerst. Hallinn er til staðar og vonandi verður hann ekki meiri en efni standa til í því fjárlagafrumvarpi sem hér liggur fyrir.

Áður en lengra er haldið, fyrst ég er byrjuð á öllu því sem ég er að tína hér til sem er kannski bara partur af því þar sem mér finnst ekki vera nóg að gert, vil ég þakka hv. fjárlaganefnd fyrir góða samvinnu við meðferð á frumvarpinu. Þetta hefur verið mikil vinna og við leggjum okkur fram um að hafa hana sem besta. Þótt kannski sé hægt að breyta einhverju gerum við það bara í fyllingu tímans. Ég vil líka benda á að margt í fjárlagafrumvarpinu er þakkarvert. Eitt sem sérstaklega kemur fram núna mun akkúrat nýtast þeim samfélagshópi sem höllustum fæti stendur og ég vil kalla það jólagjöf. Þó að hún sé ekki stór er það samt jólagjöf og kostar ríkissjóð sennilega ríflega 200 milljónir að gefa þá gjöf. Það verður eingreiðsla til þeirra sem þiggja laun frá almannatryggingum upp á 10.000 kr. um jólin viðbót við desemberuppbótina skatta- og skerðingarlaust. Þetta ber að virða og þetta ber að þakka.

Það er ýmislegt annað sem líka hefur gengið vel. Þar á meðal verð ég að tala um að við erum búin að vera dugleg að greiða niður skatta og það skilar sér sannarlega til okkar. Það sem Flokkur fólksins hefur gjarnan talað um, mun gera áfram og var stofnaður út af er að setja fólkið í fyrsta sæti og berjast gegn fátækt, að reyna að halda því á lofti að það þarf að forgangsraða fjármunum í þágu fólksins. Flokkur fólksins er með breytingartillögur í minnihlutaáliti sínu. Enginn kostnaður sem breytingartillögurnar hafa í för með sér er til þess fallinn að kalla á skattahækkanir. Við erum alltaf að tala um breytta forgangsröðun fjármuna og það má alltaf, ef vilji er fyrir hendi, sækja fjármunina annað en beint í vasa launþeganna og borgaranna. Ég nefni fyrirhugaða lækkun bankaskatts upp á tæpa 8 milljarða kr. Er þetta rétti tíminn, virðulegi forseti? (Gripið fram í.) Ég sagði — fyrir þig, hv. þingmaður sem ert að gaula hérna á hliðarkantinum, sagði ég: Fyrirhugaða. Ef þú vilt koma í andsvör, gjörðu svo vel, en að þessu sinni hef ég orðið, með fullri virðingu.

Samhliða frumvarpi til fjárlaga kynnti fjármálaráðherra breytingar á skattkerfinu. Á undanförnum árum hefur skattbyrði lágtekjuhópa aukist til muna. Þetta er ástand sem ráða þarf bót á með því að endurskipuleggja tekjuskattskerfið.

Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu þess efnis að skattleysismörk verði hækkuð og að tekinn verði upp svokallaður fallandi persónuafsláttur. Þannig mætti hækka ráðstöfunartekjur lágtekjuhópa til muna. Það felur það í sér að þegar einstaklingur er kominn yfir ákveðin launamörk sem við teljum að séu þegar hann dettur yfir í hærri skattþrepin, hæsta þrepið, hátekjuþrepið, hafi hann ekkert með persónuafslátt að gera heldur eigi skilyrðislaust að flytja afsláttinn niður til þeirra sem þurfa á honum að halda.

Fjármálaráðherra leggur hins vegar til lítils háttar breytingar á skattþrepum. Þær breytingar ganga ekki nógu langt. Samkvæmt upplýsingum úr frumvarpi fjármálaráðherra munu ráðstöfunartekjur t.d. einstaklings með 300.000 kr. mánaðarlaun einungis hækka um 2.470 kr. á mánuði árið 2020. Hann þarf sem sagt að safna í tvo mánuði til að geta pantað pitsu. Mikið svakalega hlýtur hinn helmingurinn að líta illa út ef hann ætlar að reyna að skeyta ávinningnum saman í alveg heila pitsu þegar skattalækkunin færir þessum einstaklingi ekki meira en raun ber vitni, ekki 2.500-kall á mánuði, árið 2020. Það er haft hátt um að búið sé að flýta framkvæmdinni við þriðja skattþrepið þannig að það komi inn að fullu árið 2021 í stað ársins 2022. Það verður gaman að sjá í hversu miklu þetta mun skila sér til þeirra sem eiga nú helst að fá að njóta þess, þegar ríkisstjórnin verður búin að leggja á alla þá skatta og allar þær álögur sem fyrirhugað er að leggja á landsmenn á næstunni. Það verður athyglinnar virði, virðulegi forseti, að sjá niðurstöðuna úr því.

Fjórði minni hluti telur að fyrirhugaðar breytingar á tekjuskattskerfinu dugi engan veginn til þess að leiðrétta aukna skattbyrði lágtekjufólks og tryggja því viðunandi lífskjör.

Ég ætla að snúa mér að vanda heilbrigðiskerfisins. Það þarf að ráðast í átak til þess að efla mönnun og rekstur heilbrigðiskerfisins. Bráðamóttaka Landspítalans ræður ekki við það álag sem á henni hvílir. Við þurfum að stórefla starfsemi hennar. Daglega dvelur þar fjöldi sjúklinga sem ekki er hægt að vísa í viðeigandi úrræði vegna plássleysis eða manneklu. Vandi á bráðamóttöku er þó aðeins alvarlegasta birtingarmynd þess víðtæka vanda sem heilbrigðiskerfið glímir nú við. Það þarf að endurnýja tækjabúnað, fjölga starfsmönnum, bæta húsnæði og auka þjónustu á öllum sviðum heilbrigðiskerfisins. Þá þarf að efla sjúkraflutninga til muna. Það á að vera sjúkrabíll ásamt fagmenntuðum sjúkraliðum í hverri byggð.

Það á ekki að mismuna okkur eftir búsetu. Það á ekki að láta okkur bíða lengur bara af því að við kjósum með fótunum að búa einhvers staðar í litlu sveitarfélagi úti á landi, bíða eftir fyrstu hjálp og læknisþjónustu. Þá verður í það minnsta að búa svo um hnútana að það séu fagaðilar á staðnum sem geta veitt fyrstu hjálp og fyrstu þjónustu áður en að læknir kemur á staðinn eða sjúkrabíll. Það er sárara en tárum taki hvernig ástandið er að verða í þessum efnum úti um allt.

Framkvæmdir vegna byggingar nýs Landspítala ganga hægt. Það kemur ekki á óvart, enda kusu stjórnvöld að byggja nýtt sjúkrahús þar sem umferð er hvað þyngst á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit ekki hvernig það er frá degi til dags en akkúrat í dag er nánast ómögulegt að finna bílastæði eða komast til læknis ef maður þarf að fara á Landspítala – háskólasjúkrahúss við Hringbraut. Það er nánast ómögulegt því að auðvitað eru bílastæðin frátekin fyrir starfsmennina þegar þeir koma til vinnu á morgnana. Þá eru engin stæði eftir fyrir sjúklingana, a.m.k. ekki eins og staðan er í dag.

Enginn velkist í vafa um að framkvæmdirnar hafi gengið mun hægar en þær hefðu gengið mun betur fyrir sig ef byggður hefði verið nýr spítali á nýjum stað. Í sambandi við verktaka og aðila sem standa að því að byggja og annað slíkt segja þeir: Við erum mun lengur vegna þess að allt sem frá okkur fer þarf að keyra jafnóðum burt. Sprengingar, allt, alveg sama hvað það er, er dýrara, óskilvirkara og seinvirkara og kannski væri ástæða til þess að ríkisstjórnin færi að líta í kringum sig áður en hún verður búin að losa okkur við allar eignir sem við eigum í kringum höfuðborgarsvæðið til að byggja mögulega spítalann á nýjum stað skömmu síðar og tjalda þá kannski til fleiri ára en fimm eða eitthvað. Það væri ástæða til að eyrnamerkja einhvern vel valinn stað fyrir nýjan spítala í fyllingu tímans og það fyrr en seinna.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að fjárheimildir til sjúkrahúsþjónustu verði auknar um 600 millj. króna. 4. minni hluti telur að auka þurfi fjárheimildir til málefnasviðsins miklu frekar svo að efla megi heilbrigðiskerfið með viðhlítandi hætti. Það er nokkuð ljóst og hefur komið fram að nú er krafist aðhaldsaðgerða á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Samtal mitt við sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga bendir til að nú sé bannað að ráða fleiri, það er bara stopp. Það er mannekla en um leið er ekki til fjármagn. Það er bara sagt: Nei, það má ekki ráða fleiri. Það heitir að spara aurinn og fleygja krónunni ef mannskapurinn er svo meira og minna á aukavöktum af því að það þarf alltaf að kalla út fólk á mun hærri launum en ef fólkið væri einfaldlega ráðið þangað inn.

Það er áætlað að skera niður núna, það eru aðhaldsaðgerðir á Landspítala – háskólasjúkrahúsi upp á ríflega 3,5 milljarða og þykir ekki nóg að gert. Á hverjum bitnar það? Rekstraraðilarnir á spítalanum eru að gera það sjálfir, náttúrlega samkvæmt kröfum héðan af því að þar hafa þeir farið langt fram úr þeim fjármunum sem þeim voru ætlaðir. Dettur nokkrum í hug að ef við skerum niður um 3,5 milljarða út af aðhaldskröfunni sem þeir gera á sjálfa sig bitni það ekki á sjúklingunum? Í það minnsta dettur mér það ekki í hug. Til að efla þetta verðum við einfaldlega að taka saman höndum og við leggjum til að inn á málefnasviðið verði aukið um 5 milljarða kr. Einnig leggjum við í 4. minni hluta til að 400 millj. kr. fari til að efla sjúkraflutninga og tryggja lífsgæði og öryggi fólksins úti á landsbyggðinni.

Ég ætla nú að tala um málefni öryrkja. Það er sá málefnahópur sem við í Flokki fólksins höfum talað hvað hæst fyrir. Það eru aldraðir, öryrkjar, lágtekjufólk, þeir sem eiga um sárt að binda. Það er alveg ljóst að lífeyrir almannatrygginga hefur ekki fylgt launaþróun í landinu undanfarin ár. Ef tekið er mið af síðasta áratug er uppsöfnuð kjaragliðnun vegna þessa 30%. Enn og aftur má beygja bognu bökin meira, enn og aftur er það þangað sem er farið og samt er talað hér um að sennilega hafi aldrei orðið aðrar eins kjarabætur til öryrkja og þeirra sem þiggja laun frá almannatryggingum og akkúrat núna.

Ágætur þingmaður talaði hér um 11% frekar en 17% hækkun frá því árið 2017 en staðreyndin er sú að á árinu 2009 voru þeir skertir eins og allir aðrir í samfélaginu eftir hrun. Þeir voru líka látnir taka á sig ábyrgð á því fordæmalausa erfiða ástandi sem var í samfélaginu þá. Svo einkennilega hefur samt sem áður viljað til að þrátt fyrir gefin loforð um að auðvitað yrði þetta leiðrétt, lagað og endurgreitt þegar létti á dalnum og færi að blómstra á ný hefur ekkert slíkt verið gert. Það var 2017 sem öryrkjar og þeir sem þiggja laun frá almannatryggingum fengu 7,5% hækkun. Allar götur síðan hafa þeir bara fylgt svokallaðri neysluvísitölu í landinu þannig að núna er áætlað að þeir hækki um 3,5% um næstu áramót.

Þegar verið er að tala um að sennilega muni vísitalan lækka niður í 3,2% velti ég fyrir mér hvort þeir ætli þá kannski að lækka þessa lúsarhækkun líka niður í 3,2% og sniðganga þann hluta 69. gr. almannatryggingalaga sem felur í sér að laun og kjör þeirra sem þiggja laun frá almannatryggingum eigi að fylgja almennri launaþróun í landinu númer eitt.

Það eru engin áform um það í fjárlagafrumvarpinu að leiðrétta þetta bersýnilega óréttlæti sem 30% kjaragliðnun er í sambandi við þá sem þiggja laun frá almannatryggingum.

Ég er ekki vön að hafa ræðuna á prenti en þarf að gera það núna svo að ég vaði ekki úr einu í annað en mér tekst það samt einhvern veginn alltaf. Það á að hækka þennan lífeyri almannatrygginga, eins og ég benti á áðan, um 3,5% um næstu áramót. Það er hækkun sem er lægri en þróun launavísitölunnar sem var eins og ég bendi á — ég bendi ekki á hvað hún var mikil en samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar var hún 4,2% þannig að enn á að auka á þessa kjaragliðnun í stað þess að reyna að leiðrétta hana. Öryrkjabandalagið hefur undanfarin ár gagnrýnt þetta fyrirkomulag ítrekað.

Aðeins kemur fram í frumvarpi til fjárlaga hve mikið lífeyrisgreiðslur almannatrygginga eigi að hækka en ekki hvers vegna. Umboðsmaður Alþingis hefur bent stjórnvöldum á að huga þurfi betur að því hvaða tilgangi ákvæði í lögum um almannatryggingar er varðar viðmið um launaþróun sé ætlað að þjóna og hvort gera megi það skýrara. Jafnframt bendir umboðsmaður Alþingis á að það væri í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að ítarlegri skýringar væru í fjárlagafrumvarpi á forsendum breytinga á fjárhæðum lífeyrisgreiðslna. Þessi tilmæli þarf að virða í fjárlagafrumvörpum komandi ára svo að lífeyrisþegar geti áttað sig á því á hvaða grundvelli stjórnvöld taka ákvörðun um að víkja frá kröfum laga um að lífeyrir almannatrygginga fylgi launaþróun.

Það er ekki óeðlilegt að í þessu virðulega ræðupúlti skuli maður nefna vandaða stjórnsýsluhætti. Ríkisvaldið er nýbúið að þurfa að punga út 5,4 milljörðum kr. út af töpuðu dómsmáli þar sem Flokkur fólksins gekk fram fyrir skjöldu fyrir hönd eldri borgara til að láta reyna á það meinta lögmæti sem talið var vera þegar þeir voru skertir í janúar og febrúar 2017 vegna greiðslna úr lífeyrissjóði. Það var ólögmætt. Það er með ólíkindum að nokkrum skuli detta í hug að réttlæta það að gera lítið úr því að löggjafinn skyldi í gegnum þrjár umræður á hinu háa Alþingi horfa fram hjá þeim galla, þeim meinbugi sem var á reglunni þar sem hreinlega skorti hugtakið um að skerða mætti vegna greiðslna úr lífeyrissjóði. Það var bara farið út. Á hinu háa Alþingi tók hins vegar enginn eftir því nema Píratar reyndu að berjast á móti þessu og benda á að þetta gæti ekki verið rétt. Staðreyndin er sú að það skiptir engu máli hverjir fá greitt. Það voru 29.000 eldri borgarar sem fengu greitt samkvæmt dómsorðinu, meðalgreiðsla um 190.000 kr. Staðreyndin er sú að lög voru brotin, það skiptir ekki öllu hversu mikið hver fékk og hvort helmingurinn var einhverjir milljónamæringar. Það vita allir sem vita vilja að einstaklingur sem er með yfir 570.000 kr. úr lífeyrissjóði fær ekki krónu frá Tryggingastofnun ríkisins. Mjög margir eldri borgarar sækja ekki einu sinni um ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins af því að þeir telja að þeir séu í það góðum álnum.

Það er sannarlega þess virði og þörf á því að við sýnum hér vandaða stjórnsýsluhætti, vöndum okkur við að smíða löggjöfina okkar svo við verðum ekki ítrekað skaðabótaskyld og þurfum að borga til baka alls konar peninga sem við hefðum viljað eyða í eitthvað annað.

Öryrkjabandalag Íslands bendir í umsögn sinni um fjárlagafrumvarpið á að frítekjumark vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega hafi ekki hækkað frá árinu 2009. Það er rétt. Þá var það hækkað í 109.600 kr. og það er þar enn. Tíu árum seinna er það enn 109.600 kr. Ef frítekjumarkið hefði hins vegar fylgt launaþróun væri það núna tæplega tvisvar sinnum hærra, þ.e. 207.000 kr. á mánuði.

Skyldi einstaklingur finna hvata til að reyna fyrir sér á vinnumarkaði ef hann mögulega getur ef hann áttar sig á því að hann er ekki skertur við það eitt að fara út úr íbúðinni og hnerra í áttina að vinnu? Það er nákvæmlega þannig núna. Lágt frítekjumark dregur úr hvata lífeyrisþega til atvinnuþátttöku, það er bara staðreynd. Það er sama hvert litið er þegar kemur að málefnum öryrkja, málefni þeirra eru fótumtroðin og hafa verið í áraraðir, enda eru það þeir sem eru hvað verst settir, samanber skýrslu sem við fengum að sjá hjá Öryrkjabandalaginu. Öryrkjabandalagið lét Kolbein Stefánsson vinna fyrir sig skýrslu um stöðu öryrkja og í henni kemur berlega í ljós hvernig raunveruleg staða þeirra er. Hverjir skyldu eiga 10–15% barnanna hér sem líða mismikinn skort? Það þarf engan skarpan heila til að ímynda sér hvaðan sá meiri hluti kemur.

Fyrirhugað er að ráðast í breytingar á almannatryggingakerfinu til að einfalda það og auka skilvirkni. Frábært. Mikilvægt er að við þá vinnu verði þess gætt að samspil réttinda sé ekki eins mikið og flókið og það er í dag. Það er ólíðandi að fólk þurfi að reiða sig á greiðslur úr óhóflegum fjölda réttindaflokka sem allir hafa að geyma mismunandi skerðingarreglur og mismunandi skilyrði. Þetta kerfi er einfaldlega þannig að það er ekki á færi nema færustu sérfræðinga að átta sig á því inni í þessu kerfi hvort þeir eru að koma eða fara. Það er alveg með ólíkindum að við skulum bjóða fólki upp á þetta, að við getum ekki tekið þetta kerfi og einfaldað það almennilega þannig að a.m.k. löggjafinn sjálfur skilji hvernig lög hann er að setja þegar kemur að því að tjasla saman þessu handónýta og stagbætta almannatryggingakerfi. Við leggjum til að undir eins verði settir 10 milljarðar kr. í almannatryggingakerfið. Þá reynum við að sýna í verki að við meinum það, að við séum tilbúin að reyna að slá á þá kjaragliðnun sem við höfum vísvitandi lagt á þennan þjóðfélagshóp. Hvort væri nær að gera þetta á næstu árum eða lækka bankaskattinn um 8 milljarða og bara alveg taka hann út eða lækka veiðigjöldin á útgerðina? Hvernig dettur nokkrum í hug að löggjafinn hefði ekki getað búið til þannig löggjöf í sambandi við veiðigjöldin að við værum ekki núna að horfa upp á það milli 1. og 2. umr. um fjárlagafrumvarpið að forsendurnar eru pínulítið öðruvísi? Útgerðin hefur það svo gott að hún er búin að vera í nýsmíði og annað slíkt. Alveg er það frábært en kerfið býður upp á það að því meira sem maður kaupir, því meira sem maður gerir, því minni afkomu sem maður sýnir, því lægri veiðigjöld eru borguð. Við gerðum gott betur en það með nýju lögunum, við aðskildum veiðar og vinnslu. Og hver varð niðurstaðan? Jú, í stað þess að vera með eintóma frystitogara og annað slíkt, að fullvinna aflann um borð og frysta hann þar, eru komnir ísfiskar, mokað upp í vinnsluna sem sami útgerðaraðili á. Hann rekur bæði veiðarnar og vinnsluna en það eru bara verðmæti í því sem hann tekur upp úr sjónum beint. Um leið og hann er búinn að koma því í land og breyta því í eitthvað allt annað kemur okkur það ekki lengur við. Að halda því fram að við eigum ekki að fá frekari hlutdeild í því sem kemur upp úr sjónum er sárara en tárum taki. Við höfum á síðustu árum horft upp á útgerðarmenn greiða sér tugi milljarða í arð. Ég ætla ekki að nefna einn útgerðarmann á nafn, mjög flottan útgerðarmann, sem tók 3,5 milljarða kr. í vasann í fyrra og er búinn að kaupa í flestöllum fyrirtækjum. Hvar hagnaðist þessi útgerðarmaður svona mikið? Hvar skyldi þessi ágæti einstaklingur hafa fengið alla peningana? Jú, úr okkar sameiginlegu auðlind, sjávarauðlindinni. Við horfum upp á að það eru greiddir yfir 110 milljarðar í arðgreiðslur á síðustu árum. Hvers vegna getum við þá ekki sagt að það hljóti eðli málsins samkvæmt að vera eðlilegt að við sem eigum auðlindina fáum eitthvað sambærilegt fyrir hana, fyrir afnot af henni líka? Það er meira að segja búið að skerða okkur almennt frá því að sækja í hana. Það er verið að passa hana. Við megum ekki ofveiða í henni. Við erum með kvóta, við segjumst vera til fyrirmyndar, með besta kerfið í öllum heiminum. Þótt við höfum atvinnuréttindi og annað slíkt varið í stjórnarskrá er eins gott fyrir fólk að hafa leyfi. Hver sem er fer ekki út að veiða, það eru hreinar línur. Það eru bara ákveðnir útvaldir einstaklinga sem fá að veiða. Þeir taka til sín úr auðlindinni miklu meira en sanngjarnt og eðlilegt er miðað við það sem við fáum fyrir að hleypa þeim að auðlindinni eins og við gerum.

Þegar ég segi að ég vildi 10 milljarða til almannatrygginga undir eins er ég að segja: Ég vil forgangsraða fjármunum fyrir fólkið fyrst og síðast, fyrir það fólk sem sérstaklega þarf á því að halda.

Tölum um NPA-aðstoð. Við vorum glöð, við vorum öll sammála um að hún væri góð og nauðsynleg. Við komum til móts við fólk sem virkilega þarf á þjónustu og hjálp að halda, fólk sem er svo fatlað, sem á svo bágt að það getur ekki hjálpað sér sjálft. Það er okkar að hjálpa því fólki. Frábært. Við settum kvóta á kerfið. Það fá ekki allir sem þurfa, þeir fá sem eru valdir. Þegar þjónusta við fatlað fólk var flutt til sveitarfélaganna fékk það aukna hlutdeild í skatttekjum ríkisins í formi hækkaðs útsvars. Markmiðið var að hækkunin stæði undir viðbótarkostnaði sveitarfélaganna vegna þessarar þörfu þjónustu. Raunin varð önnur. Reynslan sýnir að kostnaður við þjónustuna er mun meiri en þær auknu tekjur sem áttu að tryggja rekstur hennar. Fram kemur í umsögn Reykjavíkurborgar við frumvarp til fjárlaga að uppsafnað tap borgarinnar vegna þjónustunnar frá árinu 2011 er nú komið í 11 milljarða kr. og fer vaxandi ár frá ári.

Sveitarfélög hafa ekki sömu tækifæri til tekjuöflunar og hið opinbera. Því verður að tryggja fjármögnun með lögum þegar verkefni eru færð frá ríki til sveitarfélaga. Lagðar voru auknar skyldur á sveitarfélögin þegar ný lög um notendastýrða persónulega aðstoð voru samþykkt á síðasta ári. Samhliða þessari lagasetningu tryggði ríkið ekki viðhlítandi fjármögnun heldur færði ábyrgðina yfir á sveitarfélögin. Það fer gegn þeirri meginreglu að þjónusta við fatlað fólk skuli vera fjárhagslega tryggð.

Öryrkjabandalagið leggur áherslu á það í umsögn sinni við fjárlagafrumvarpið að NPA-aðstoð sé mikilvæg þjónusta sem hafi valdið byltingu í lífsgæðum fatlaðs fólks. Tryggja þarf fjármögnun þjónustunnar með viðhlítandi hætti. 4. minni hluti tekur heils hugar undir þetta og við leggjum til að fjárheimildir til málefnasviðsins verði auknar um 150 millj. kr. Þeim fjármunum verði varið til að auka hlut ríkissjóðs í fjármögnun NPA-samninga. Okkur ber að tryggja öllum sem þess þurfa aðgang að þjónustunni án þess að við mismunum. Mig minnir að það séu um 130, frekar en 140, einstaklingar sem þurfa á NPA-þjónustu að halda. Kvótinn segir 90 þannig að eftir sitja 40–50 einstaklingar sem þurfa þjónustunnar með en fá hana ekki. Þetta heitir á mínu tungumáli algjör mismunun og hún er í boði stjórnvalda.

Hættum að skattleggja fötlun. Flokkur fólksins hefur lagt fram frumvarp sem felur í sér afnám á virðisaukaskatti á hjálpartækjum vegna fötlunar. Undir þetta tekur Öryrkjabandalag Íslands í umsögn sinni um fjárlagafrumvarpið. Það er sannarlega nóg að þurfa að lifa við fötlun þótt ríkisvaldið skattleggi hana ekki líka. Með afnámi á virðisaukaskatti vegna hjálpartækja munu lífsgæði fjölda fólks batna til muna. Flokkur fólksins segir: Fólkið fyrst, við setjum fólkið í fyrsta sæti. Því fyrr sem fólkið áttar sig á því, því betra.

Ég segi líka að í fíkniefnavá þurfi að efla SÁÁ. Hver hefur ekki heyrt mig tala um þær hörmungar sem eiga sér stað núna úti í samfélaginu? Það er hreinlega fíkniefnafaraldur í landinu. Fimmta hvern dag deyr Íslendingur ýmist af völdum lyfjaeitrunar eða vegna þess að hann hefur tekið sitt eigið líf. Er þetta ásættanlegt? Er ekki möguleiki að við getum gert betur en þetta? Þurfum við að horfa upp á þetta? Við hljótum að geta gert eitthvað. Það er búið að taka yfir 240 kíló af dópi fyrstu átta mánuði ársins. Á fyrstu átta mánuðum ársins var meira dóp gert upptækt, fíkniefni, en allt árið í fyrra. Það virðist flæða haftalaust inn í landið. Það er talið að lögreglan og löggæslan geti ekki gert upptækt nema u.þ.b. 10% efnanna sem eru í umferð. Hvað þýðir það? Það þýðir að við horfum upp á 2,4 tonn af dópi flæða um stræti og torg. Á hverjum lendir það? Unga fólkinu, viðkvæmasta fólkinu, börnunum okkar. Við erum að missa mannauðinn okkar, fólkið okkar deyr ótímabærum dauða í kringum okkur. Það er löngu orðið tímabært að við horfumst í augu við þetta og það er það sem við ættum að tala um alla daga. Ástandið er fordæmalaust. Aldrei í íslenskri sögu hafa fleiri dáið ótímabærum dauða vegna lyfjaeitrunar en akkúrat núna. Hvergi í heiminum er önnur eins notkun þunglyndislyfja og hér. Fíkn er sjúkdómur sem við þurfum að viðurkenna fordómalaust. Allir þeir sem haldnir eru sjúkdómnum eiga rétt á heilbrigðisþjónustu strax. Það er því óverjandi með öllu að fárveikir sjúklingar skuli hundruðum saman þurfa að bíða eftir læknisþjónustu

Undanfarin ár hefur SÁÁ þurft að greiða fyrir stóran hluta starfsemi sinnar með sjálfsaflafé. Af hverju? Vegna þess að með þjónustusamningi ríkisins við samtökin er verið að greiða fyrir 1.530 innlagnir á ári. SÁÁ hefur tekið á móti 2.200 sjúklingum á ári. Sjálfsaflaféð greiðir fyrir mismuninn. Hjá SÁÁ segja þau að þau gætu tekið á móti 2.700 sjúklingum á ári ef þau hefðu bolmagn og stuðning til þess og um leið tæki það ekki nema tæplega hálft annað ár að eyða biðlistanum inn á Vog sem telur orðið hátt í 800 sjúklinga.

Fjórði minni hluti leggur til að fjárheimildir til málefnasviðs 25.20, um endurhæfingarþjónustu, þar á meðal Reykjalund og endurhæfingu almennt, verði auknar um 400 millj. kr. og að framlög til SÁÁ verði einnig aukin. Við erum þakklát fyrir að vera komin inn á fjárlög með þá hækkun sem við fengum í aukafjárlögunum í fyrra en við héldum, löggjafinn, að við værum að koma til móts við biðlistana inn á Vog. Við trúðum í alvörunni að við værum virkilega að setja þetta fjármagn til að fækka á biðlistanum inn á Vog, en raunin varð einhvern veginn önnur. Það nýtist samt sem áður í baráttunni við fíknisjúkdóminn en núna er ástæða til að horfa heildstætt á málin, horfa á alvarleikann í samfélaginu, horfa á mannauðinn sem við erum að missa. Við þurfum að hjálpa unga fólkinu okkar, fíklunum okkar, alkóhólistunum. Við verðum að reyna að koma strax inn í, hafa snemmtæka íhlutun. Því yngri sem við grípum þau, því betra, því meiri möguleiki að koma þeim út í lífið, út í samfélagið. Við þurfum að veita þeim von. Við eigum að sýna að við séum með þeim í liði. Við eigum að sýna að við séum ekki fordómafull. Við eigum að viðurkenna sjúkdóminn sem þau eru að glíma við. Við eigum að efla þau til dáða, það er það sem við eigum að gera.

Það er löng bið og vandi á hjúkrunarheimilunum.

(Forseti (BrH): Fyrirgefðu, hv. þingmaður, forseta er smávandi á höndum. Við erum aðeins komin út af dagskrá. Má forseti spyrja hvort hv. þingmaður eigi mikið eftir af ræðu sinni? Við erum að velta fyrir okkur hvort það væri í lagi að gera hlé. Ræðumaður á 20 mínútur eftir af tímanum.)

Virðulegi forseti. Ég á eftir svolítið, já, en þú mátt alveg gera hlé.

(Forseti (BrH): Er hv. þingmanni nokkuð á móti skapi að við myndum gera kvöldmatarhlé og halda svo áfram með ræðuna og andsvör eftir hálftíma?)

Nei, nei. Ég róast kannski aðeins við það. Að vísu fer ég þó svolítið úr sambandi. Ég er búin að vinna mig í mikið stuð, en það er allt í lagi, það er bara alveg sjálfsagt.

(Forseti (BrH): Takk fyrir það. Þá gerum við hlé á þessum þingfundi til kl. 20.30 og höldum þá áfram með ræðu hv. þingmanns sem á 20 mínútur eftir.)

Þær verða kannski bara fimm. Ég er nefnilega eiginlega alveg að verða búin.