Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég get ekki verið sammála henni. Já, ég er að tala um bættan hag einstaklinga. Hv. þingmaður segir: Fólkið fyrst. Ég held að fyrir einstakling sem er með 325.000 kr. á mánuði, sem enginn verður ofsæll af, skipti 70.000 kr. máli.

Mig langar í seinna andsvari að víkja að bankaskattinum. Við erum dugleg við að skattleggja fjármálakerfið. Við erum með bankaskatt, fjársýsluskatt og sérstakan fjársýsluskatt. Ég held að mjög fáar þjóðir, a.m.k. af þeim sem við berum okkur saman við, skattleggi fjármálakerfið jafn mikið og við. Það er ágætt í leiðinni að halda því til haga að engin lækkun verður á bankaskatti á næsta ári heldur er lækkun áformuð frá 2021. Hv. þingmaður talar um að sækja auknar tekjur og vill skattleggja fjármálakerfið með þessum hætti. Um leið og við þurfum að auka framleiðni í hagkerfinu til lengri tíma í öllum atvinnugreinum erum við með, eins og komið hefur fram víða, svolítið stórt, kostnaðarsamt og óskilvirkt fjármálakerfi og ég spyr: Hver er skoðun Flokks fólksins á sölu bankanna? Trúir hv. þingmaður því ekki að lægri bankaskattur skili sér til fólksins? (Forseti hringir.) Hver er skoðun Flokks fólksins á því að losa um fé með sölu á bönkum?