Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:48]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Sú skoðun sem Flokkur fólksins hefur á sölu bankanna er alveg skýr. Það er alveg sjálfsagt að selja annan bankann. Við höfum alltaf sagt að við vildum sjá Landsbankann verða að samfélagsbanka. Við vildum virkilega að við ættum banka sem væri fyrir fólkið. Fólkið fyrst, akkúrat.

Ég ætla svo að benda á þessa skattalækkun. Hv. þingmaður talar um 70.000 kr. fyrir einstakling sem er með 325.000 kr. á mánuði. 70.000 á ári eru rúmlega 5.800 kr. á mánuði. Að setja 21 milljarð í að koma þessum einstaklingi upp í það að geta fengið sér eina pitsu og sennilega hálfan lítra af kóki með á mánuði þarf svo sem ekki að vanvirða en ég er að horfa á þann mikla fjölda úti í samfélaginu sem fær, eins og stúlkan sem ég nefndi áðan, 240.000 kr. útborgaðar fyrir fulla vinnu. Ég er að tala um að þessum 21 milljarði hefði hugsanlega verið hægt að forgangsraða á þann veg að hann nýttist enn betur þeim sem enn meira þurfa á honum að halda. Það er ekkert annað sem ég er að segja.

Ég er ekki að vanþakka það að skattar séu lækkaðir á fólk sem er með 325.000–600.000 kr. á mánuði. Ég er bara allan tímann að tala um að mín hugsjón sé sú að setja fólkið í 1. sæti á þann hátt að þegar fjármunum er forgangsraðað sé það allra fyrst gert í þágu þeirra sem mest þurfa á því að halda. Ég vil selja annan bankann, alveg sjálfsagt, og ég hef ekki hingað til getað séð það, hv. þm. Willum Þór Þórsson, að þó að einhverjir skattar og vextir hafi verið lækkaðir hafi það skilað sér til okkar, almennings í landinu, því miður. Það virðist oft vera ansi djúpt á því.