Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:54]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrist hv. þingmaður ekki eiga nein skýr svör önnur en að þetta myndi skila tekjum. Auðvitað skilar það tekjum hér og nú en miðað við það sem ASÍ bendir á myndi þetta hins vegar verða til þess að þeir sem hafa lægri lífeyrisgreiðslur, sem er yfirleitt tekjulægra fólk, borguðu meira í breyttu kerfi. Það finnst mér ekki boða gott.

Hitt sem mig langar að ræða við hv. þingmann tengist einnig þessu máli. Það snýr að því að fjöldi fólks á vinnumarkaði á hvern lífeyrisþega fer ört fækkandi, þ.e. í dag eru sex vinnandi á hvern eftirlaunaþega en eftir 25 ár má ætla að hlutfallið verði komið niður í einn á móti þremur. Með núverandi fyrirkomulagi er tryggt að lífeyrisþegar greiði skatt af eftirlaunum sínum og leggi þannig sitt af mörkum við að fjármagna t.d. heilbrigðis- og velferðarkerfið. En ef það verður búið að taka þann skatt við inngreiðsluna mun vinnandi fólk í framtíðinni þurfa að bera þyngri skatta vegna þess að það er varla hugmynd hv. þingmanns að skattleggja þetta aftur við útgreiðslu, eða hvað? Ég spyr: Eiga þá komandi kynslóðir að standa straum af því að fjármagna velferðarkerfið okkar núna? Hvernig ætlar hv. þingmaður þá að fara að því að reka velferðarsamfélagið fyrir þá sem eru á barnsaldri í dag og verða þeir sem búa í þessu samfélagi í framtíðinni?