150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[21:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir ræðuna og samstarfið í hv. fjárlaganefnd. Hv. þingmaður segir ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta stæra sig af ráðdeild og skýrri forgangsröðun. Í það minnsta get ég sagt að það skipti alltaf máli að forgangsröðun sé skýr og ráðdeild getur jú oftast átt við.

Hv. þingmaður var í miklu stuði og bætti um betur og talaði um met í aukningu ríkisútgjalda og mikla útgjaldagleði. Staðreyndin er hins vegar sú að aukning ríkisútgjalda var miklu meiri á toppi hagsveiflunnar þegar hv. þingmaður var ráðherra í ríkisstjórn. Þess vegna átta ég mig ekki alveg á því af hverju hv. þingmaður talar með þessum hætti. Eins og það komi sér afar vel núna að það sé niðursveifla í hagkerfinu og því sé skynsamlegt að fara í auknar fjárfestingar. Það er eftir sem áður skynsamlegt. Það sem ég get hins vegar tekið undir er að það hefði verið heppilegra að það hefði ekki orðið hliðrun eða töf á þessum 3.500 milljónum sem áttu að fara inn á þetta ár í Landspítalann. Það er eitthvað sem byggingarnefnd Landspítalans heldur utan um. Við veitum ekki útgjaldaheimild fyrir 3.500 milljónum ef fyrirsjáanlegt er að þær verði ekki nýttar.

Ég ætla að skilja eftir spurningu. Hv. þingmaður talaði um fjármálastefnu og peningamálastefnu og að við værum eitthvað að tala um þær ynnu í sömu átt. (Forseti hringir.) Eins og það væri ekki rétt. Þetta er staðfest í peningamálahefti Seðlabanka Íslands. Þetta staðfestir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Þetta staðfestir hækkun á lánshæfismati Moody's. (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður ósammála þessum aðilum um þessa staðreynd?