Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[21:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni prýðissvör að venju, enda hv. þingmaður glöggur á efnahagsmál. Þó veit ég á stundum að hann veit betur, þó að það kunni að hljóma betur í ræðu og í stjórnarandstöðu. Hv. þingmaður fór yfir útgjaldatöflu meiri hlutans á bls. 8 sem er athyglisverð. Þá ætla ég að draga hér fram að Alþingi er auðvitað að hækka hlutfallslega mikið útgjöld vegna þess að það er fjárfesting í nýbyggingum sem mun spara þinginu fram í tíma og æðsta stjórnsýslan af því að það er viðbygging við Stjórnarráðið. Þá er hlutfallsleg aukning mikil. Þar birtist hins vegar í þessum tölum skýr forgangsröðun í heilbrigðiskerfi og í samgöngurnar. Ég er sammála hv. þingmanni um að við vorum allt of lengi að safna þar upp innviðaskuld en við erum að bæta verulega í fjárfestingar og vonandi gerum við meira af því.

Síðan talar hv. þingmaður um skattalækkanir. Ég held að við getum verið alveg sammála því að þær eru mjög æskilegar við þær kringumstæður sem við eigum við nú í hagkerfinu. En hér er verið að lækka tekjuskatt. Það er verið að lækka skatta á atvinnulífið, í tryggingagjaldinu. Ég er sammála hv. þingmanni um bankaskattinn og ég hefði viljað sjá það byrja á þessu ári en það er búið að ákveða og kortleggja skattalækkun, bankaskattinn. Við erum með mikla skatta á fjármálakerfið sem er óskilvirkt fyrir, þannig að ég er sammála hv. þingmanni um það.

Varðandi kvikmyndaendurgreiðslurnar — og nú er ég að tína það til sem við getum reynt að nálgast og kom vel fram í vinnu hv. fjárlaganefndar — þá eru lögin þannig að þau verkefni sem hljóta samþykki um endurgreiðslu fá peningana en þetta er heimild inn á þetta ár, sannarlega. (Forseti hringir.) Svo er skýrsla ríkisendurskoðanda nýkomin út og svo er verið að endurskoða lögin þannig að við þurfum að skoða þetta í því samhengi.