150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[21:38]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni síðara andsvar. Mitt vandamál í umræðunni um forgangsröðun í ríkisfjármálunum er auðvitað bara þetta: Forgangsröðun hlýtur að fela í sér að mesta hlutfallslega aukningin liggi í þeim málaflokkum sem verið er að forgangsraða til. Þar stendur einfaldlega bara skýrt að hlutfallsleg aukning til menntamála og heilbrigðismála er mun minni en hlutfallsleg aukning heildarútgjalda ríkissjóðs á sama tíma. Þetta er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Forgangsröðunin hefur legið í eiginlega öllu öðru en heilbrigðismálum og menntamálum hvað þetta varðar. En það er alla vega augljóst í mínum huga að þegar maður eykur útgjöld hlutfallslega hvað minnst til þessara málaflokka en hvað mest til einhverra allt annarra málaflokka hljóta þeir málaflokkar að endurspegla forgangsröðun ríkisstjórnarinnar en ekki þeir sem hvað minnsta hlutfallslega aukningu hljóta. En ríkisstjórnin heldur því samt alltaf á lofti og segir: Hér er forgangsröðun okkar. Þetta þykir mér gagnrýnivert. Þetta þykir mér sýna að það er engin forgangsröðun. Það er einfaldlega bara gegndarlaus útgjaldaaukning. Það veldur þeim skaða sem ég benti á í máli mínu að það hefur ekki verið svigrúm til skattalækkana sem hefðu verið mjög mikilvægar við þessar kringumstæður og það er ekki svigrúm til þeirrar mikilvægu innviðauppbyggingar sem allt of lengi hefur setið á hakanum og svo sannarlega skapaðist einmitt gott svigrúm til á undanförnum tveimur til þremur árum í fordæmalausri tekjuaukningu ríkissjóðs vegna þessa mikla efnahagslega uppgangs. Það þykir mér gagnrýnivert og þar þykir mér vont að við höfum misst af tækifærinu. Við erum enn eina ferðina að fara í niðursveiflu eftir heilan áratug án þess að hafa getað komist almennilega í nauðsynlegra innviðauppbyggingu sem var einmitt látin líða fyrir niðurskurðaraðgerðir eftir hrun.