Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[21:41]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu hans, hún var um margt athyglisverð. En ég verð þó að segja í andsvari við hv. þingmann að þær ræður sem hann hefur flutt áður í tengslum við fjármál ríkisins, eða þá stöðu sem við erum að fást við hér, er miklu mýkri lending en hann hefur teiknað upp á undanförnum mánuðum og ég held að við ættum að fagna þeirri stöðu. Sú svartsýni sem hv. þingmaður flutti í ræðum um fjármálaáætlun í vor er ekki að ganga eftir. Ég vildi bara hnykkja á þessu.

Í öðru lagi langar mig, rétt eins og hv. formaður fjárlaganefndar rifjaði upp í andsvari sínu, að geta þess að við erum að lækka skatta. Við erum að lækka tekjuskatt. Mér fannst þingmaðurinn skauta léttilega fram hjá því í sinni ræðu. Við erum að halda áfram að lækka tryggingagjald. Mér finnst merkilegt að heyra andsvar hv. þingmanns áðan, þegar hann verður kannski eftir rökræðuna að kyngja því að hér sé að nást árangur í efnahagsstjórnun segir hann að það sé tilviljun. Það er það ekki. Við höfum undirbyggt þessa stöðu með ábyrgri stjórn ríkisfjármála á undanförnum árum. En deilum ekki um þetta.

Það sem mig langaði að koma inn á, og ég ætla að taka samtal við hv. þingmann um það, af því að mér fannst það athyglisvert og ég er sammála honum í því hvernig við meðhöndlum fjárfestingar í því fjárreiðukerfi sem við erum að fást við og nota við stjórn ríkisfjármála og að gjaldfæra fjárfestingar ríkisins á einu ári. Ég myndi vilja biðja hv. þingmann að fara aðeins nánar inn á þetta, ekki bara af því að við erum að lenda í tímabundnum samdrætti heldur vegna þess að við þurfum að halda áfram að þroska og þróa þá löggjöf sem við erum að vinna eftir.