150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[21:43]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þegar ég segi að það sé tilviljun ein er ég bara að vísa til þess að ríkisstjórnin lagði upp með ákveðna fjármálaáætlun um útgjaldaaukningu sem nokkurn veginn hefur verið fylgt. En það eru efnahagslegar forsendur þeirrar útgjaldaaukningar sem hafa breyst.

Ég tek undir með hv. þingmanni að ég er mjög ánægður að sjá að þessi lending virðist ætla að verða mýkri en ég óttaðist í vor. Ég tek þó fram að þar var ég einfaldlega að draga upp sviðsmynd af mjúkri lendingu í íslenskri hagsögu, þeirri mýkstu fram til þessa. Það endurspeglaði ekki einhverja óþarfa svartsýni af minni hálfu. Ég var einfaldlega að benda á það að ein mýksta lending sem við höfum áður gengið í gegnum, sem var á árunum 2001–2003, var samt umtalsvert harkaleg fyrir afkomu ríkisins, og vil bara rétt árétta að við erum ekki enn þá búin að sjá til lands með niðursveifluna núna. En ánægjulegt er að sjá að flest bendir til þess að hún ætli að verða nokkuð mjúk og jafnvel enn mýkri en við höfum áður upplifað.

Ég er hins vegar ánægður með að eiga orðastað við hv. þingmann af því að hann hefur mjög mikla reynslu og hefur m.a. komið að mótun laga um opinber fjármál og þess ramma sem við erum áfram að vinna með og móta. En ég held að við þurfum að skoða það mjög gaumgæfilega hvernig við meðhöndlum opinberar fjárfestingar. Í hefðbundnum rekstri er það auðvitað svo að fjárfestingar eru eignfærðar og við gjaldfærum afskriftirnar. Það erum við reyndar að gera í öðru uppgjörsformi ríkisfjármálanna um leið. Fjármálaráð hefur ítrekað bent á það í umsögnum sínum um fjármálaáætlanir ríkisstjórnarinnar og fjármálastefnu að þetta þurfi að skoða nánar. Það er einmitt við kringumstæður sem þessar sem væri mjög æskilegt að geta spýtt mjög myndarlega í opinberar fjárfestingar, raunverulegar opinberar fjárfestingar, sem geta bæði örvað hagkerfið en líka verið mjög framleiðniaukandi til lengri tíma litið þó að það kunni að vera með aukinni skuldsetningu tímabundið á meðan gengið er í gegnum þetta. Ég held að við hljótum að þurfa að skoða betur hvort ekki sé ráð að breyta því hvernig við meðhöndlum þetta.