150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[21:47]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er áhugaverð umræða og þessi gagnrýni mín á vinnubrögðin eða vinnulagið í kringum fjárlagagerðina sjálfa á sér ekki bara skýringu í því að menn hafi verið úrillir að kveldi við 2. umr. fjárlaga. En ég velti fyrir mér að þungi umræðunnar og stefnumótandi hlutverk þingsins er að vori við fjármálaáætlun. Þess vegna velti ég því fyrir mér í því samhengi, af því að mörgu leyti erum við að endurtaka leikinn í fjárlagaumræðunni að hausti, hvort það sé ekki bara í góðu lagi að fjárlög séu fjárlög ríkisstjórnar innan þess fjárlagaramma sem Alþingi hefur samþykkt og sett þeirri sömu ríkisstjórn að vori og endurnýjar hvert vor, þannig að við séum ekki hér í þinginu í sömu efnislegu umræðunni um fjármálaáætlun og síðan aftur um fjárlög að hausti, heldur sé það einfaldlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og hlutverk hennar að leggja fram fjárlög sem rúmast innan þess ramma sem henni var settur í fjármálaáætlun og samþykkt var að vori. Fjárlagaumræðan hefur alltaf verið æðifyrirferðarmikil í þinginu að hausti. Hún er í tíma mjög sambærileg áfram og hún var. En við erum búin að bæta við umræðu að vori um fjármálaáætlun. Það er kannski miklu eðlilegra að það sé hlutverk og ábyrgð þingsins. Síðan sé það einfaldlega ábyrgð framkvæmdarvaldsins að skila fjárlögum að teknu tilliti til efnahagsaðstæðna sem rúmast innan þess ramma sem þar hefur verið markaður. Ég held að þetta sé bara áhugavert fyrir okkur og hefur verið rætt heilmikið í fjárlaganefnd, hvernig við getum forðast endurtekningu sömu umræðu að vori og hausti.