Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[22:29]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða fjárlög 2020 og ég ætla í andsvar við hv. þingmann Steinunni Þóru Árnadóttur. Hún minntist á að síðan 2017 hefði verið bætt 13 milljörðum í málefni öryrkja. Við vitum að um næstu áramót eru liðin nákvæmlega þrjú ár frá því að króna á móti krónu skerðingin var afnumin af eldri borgurum. Þær upplýsingar sem lágu fyrir þá voru að það sem kostaði að afnema krónu á móti krónu skerðingar af öryrkjum væri í kringum 12 milljarðar á ári, samtals 36 milljarðar. Ef við höfum bætt við 13 milljörðum frá 2017 sýnist mér öryrkjarnir eiginlega vera að borga þetta sjálfir. Með því að leiðrétta ekki krónu á móti krónu skerðingar eins og hjá eldri borgurum er verið að láta öryrkja borga eigin hækkanir, vegna þess að ekki er útlit fyrir að króna á móti krónu skerðingin hverfi, hún er 65 aurar á móti krónu núna. Því miður, eins og hefur komið í ljós, hefur það bitið líka, valdið keðjuverkandi skerðingum út í kerfið og alla leið til bæjarstjórna, inn í sérstakrar uppbætur, húsaleigubætur. Við erum með alveg stórfurðulegt kerfi og ég lýsi vonbrigðum mínum yfir því að ekki virðist tekið á því í þessu fjárlagafrumvarpi.

Er hv. þingmaður ekki sammála mér um að ekki sé líðandi að láta öryrkja bíða svona lengi eftir því að fá krónu á móti krónu skerðingar að fullu afnumdar og tryggja um leið að það valdi ekki keðjuverkandi skerðingum þannig að það sé bara verið að hirða það annars staðar frá?