150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[22:39]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Nú höfum við rætt fjárlagafrumvarpið í dag og um margt verið ágæt umræða, vil ég segja. Ég vona að forseti fyrirgefi mér myndlíkingu og kannski einhvern galskap þegar ég segi að í dag þegar við hlustuðum á þingmenn stjórnarandstöðunnar draga upp í ræðum sína mynd af þessu fjárlagafrumvarpi sem hér liggur fyrir minnti það mig eilítið á auglýsingu um notaðan bíl sem ég las einhvern tímann. Það sem var þeim bíl helst talið til ágætis var að nýtt loft væri dekkjunum. Mér kom þetta svona í hug en ég vil ekki leggja meira út af því. Mér finnst samt verið að nálgast þessa umræðu og þá stöðu sem ríkissjóður er í og þær aðgerðir sem ríkisstjórnin er að beita sér fyrir svolítið út frá því að hræra í einhverri gamalli skál og reyna að finna höggstað á frumvarpinu og fjármálastjórn ríkisstjórnarinnar með þeim hætti. Ég get vísað í umræðu fyrr í dag í þeim efnum sem ég ætla ekki að fara nánar út í.

Mér líður einfaldlega þannig, virðulegur forseti, með þetta fjárlagafrumvarp og þær breytingartillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar er að gera á þeim að hér kristallist mjög vel styrk stjórn ríkisstjórnarinnar á ríkisfjármálum á undanförnum árum. Rétt eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir sagði svo ágætlega í ræðu áðan eigum við að sjálfsögðu að horfa til þess tíma sem ríkisstjórnin hefur setið og til þeirra verka sem hún hefur unnið á þeim tíma en ekki eingöngu horfa á útgjaldabreytingar og útgjaldatilefni þessa frumvarps.

Þegar við rýnum stöðuna, sem hv. formaður fjárlaganefndar fór mjög vel yfir í dag, sést að ríkisstjórnin er svolítið sérstök, samsetning hennar, frá vinstri og yfir til hægri, mynduð um ákveðin málefni, mynduð í ákveðnum tilgangi við úrslit síðustu kosninga sem einfaldlega kölluðu eftir því að hér yrði stjórnað með óhefðbundnari hætti en oft áður. Það er sá kjarni og sá raunveruleiki sem við byggjum þetta fjárlagafrumvarp á. Skattalækkanir eru staðfestar í þessu fjárlagafrumvarpi og þær eru verulegar. Þær þýða að fólk með tekjur á bilinu 320.000–600.000 kr. er að fá tekjuskattslækkanir á bilinu 70.000–120.000 kr. Lífskjarasamningar sem náðust fyrr á þessu ári og þetta fjárlagafrumvarp með breytingum á fjármálaáætlun sem við ræddum í vor grundvalla þá stöðu. Þess vegna líður mér ekki illa, virðulegur forseti, að ræða um breytingar á fjárlagafrumvarpinu sem þýða 9 milljarða halla á rekstri ríkissjóðs, síður en svo. Ég held að mikilvægt sé að við höfum ákveðnar stærðir í huga þegar við ræðum þá tölu sérstaklega.

Við vinnu við fjármálastefnu fyrr í vor beitti meiri hluti fjárlaganefndar sér fyrir breytingum á fjármálastefnu í kjölfar tillöguflutnings ríkisstjórnarinnar þar sem hún jók svigrúm ríkisstjórnarinnar í 0,8% í opinberum rekstri. Þetta fjárlagafrumvarp og þær breytingar sem við erum að ræða þýða 0,3%.

Það er önnur tala sem ég vil draga sérstaklega fram í því sambandi. Hér er lagður til ríflega 10 milljarða varasjóður. Þegar við vegum 10 milljarða varasjóð á móti 9 milljarða halla á rekstri ríkissjóðs sjáum við að við erum í ágætu jafnvægi í rekstri ríkissjóðs. Við getum nefnt eina tölu til viðbótar sem er 72 milljarðar í opinbera fjárfestingu. Við ræddum það fyrr í kvöld, ég og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson, hvernig við erum að bókfæra fjárfestingar ríkisins í ríkisbókhaldið sem við eigum að sjálfsögðu að skoða í því ljósi að það getur ekki endilega verið rétt að bókfæra virði fjárfestinganna á einu ári. Ég er ekki að tala fyrir bókhaldsfiffi eða bókhaldsæfingum, ég vil bara draga það fram að frumjöfnuður ríkissjóðs er um 38 milljarðar samkvæmt þessu frumvarpi í afgang. Það er 9 milljarða halli eftir 8,7 milljarða tekjusamdrátt vegna nýrrar hagspár. Mér er til efs að nokkurn tímann áður hafi ríkissjóður geta tekið annað eins tekjuhögg á sig og brugðist við með jafn litlum breytingum á útgjöldum eins og hér er. Og það var í öðru bókhaldskerfi, ef við getum rætt það á þann hátt, þ.e. við höfðum aðrar uppgjörsaðferðir fyrir ríkissjóð á þeim tíma. Þetta sýnir fyrst og fremst að við erum að ræða fjárlagafrumvarp í styrkleika, ekki vörn. Við erum miklu frekar í sókn. Við erum að fullnusta mjög mikilvæga samninga sem gerðir voru við aðila á vinnumarkaði. Við erum að halda utan um það merkilega starf sem unnið var í þeim samningum, tryggja lífskjör, komast í gegnum þessa niðursveiflu með ábyrgum hætti og frábærum árangri.

Þetta vildi ég bara segja, þetta er kjarni þessarar umræðu í dag og þess vegna leið mér svolítið þannig að umræðan og gagnrýnin væri eins og auglýsing á notuðum bíl sem aðeins hefði nýtt loft í dekkjunum.

Við getum tínt til fjölmörg atriði í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar og félagar mínir tveir úr meiri hluta sem hafa talað fyrr í dag hafa að sjálfsögðu gert það mjög vel. Mér finnst ekki sérstök ástæða til að við týnum okkur í að endurtaka tuggurnar hvert eftir öðru en það eru nokkur atriði sem ég vil bæta við í þeirri umræðu.

Í fyrsta lagi vil ég vekja athygli á því að við erum að auka framlög á milli umræðna til merkilegs starfs og merkilegrar vinnu sem Stjórnarráðið er að ráðast í sem er að efla rafræna stjórnsýslu, 350 millj. kr. Ég held og veit að þetta er sjálfsagt einhver besta hagræðingaraðgerð sem hið opinbera getur gripið til í rekstri sínum nú á tímum og er algjörlega tímabær. Við höfum stafrænt samfélag. Hið opinbera verður að sjálfsögðu að koma sinni þjónustu þangað. Við höfum núna fjarskiptakerfi í landinu sem ræður við að veita borgurunum þjónustuna á þennan hátt. Ég er ekki sérfræðingur á því sviði en ég vil sérstaklega nefna opinbera stjórnsýslu Eistlands sem mér er sagt að fari meira og minna fram stafrænt; eyðublöð, umsóknir og samskipti við hið opinbera fari fram yfir netið. Þetta grundvallar síðan aðra og mikla breytingu sem við munum horfa framan í og ríkisstjórnin er að vinna að sem eru störf án staðsetningar, sem ég trúi að geti orðið einhver mesta bylting í atvinnuháttum ríkisins til lengri tíma litið og við komumst hratt og vel inn í þá þróun að geta skilgreint störf hjá hinu opinbera og ekki sett endilega fyrir okkur hvar starfsmaðurinn vill búa. Fátt mun breyta samfélaginu meira en stafræn þjónusta. Þess vegna er 350 millj. kr. breytingartillaga meiri hluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið til að efla vinnu á því sviði gríðarlega mikilvæg.

Þó að meiri hluti fjárlaganefndar sé ánægður með ríkisstjórnina sína veitir meiri hlutinn ríkisstjórninni líka aðhald, það er hlutverk okkar. Það sem ég skal draga þá fram sem mér finnst við þurfa að veita aðhald í, og við orðum það og erum reyndar mjög berorð um það í nefndaráliti okkar, eru málefni hjúkrunarheimila. Fjárlaganefnd hefur látið sig varða málefni hjúkrunarheimila verulega og þó svo að við séum ekki með stórar breytingartillögur frá nefndinni að þessu sinni við fjárframlög til hjúkrunarheimila segjum við í nefndaráliti okkar að til þess að ná markmiðum stjórnarsáttmálans um að vel verði tekið utan um þann málaflokk þá verði í undirbúningi næstu fjármálaáætlunar sem kemur fyrir þingið á vordögum að fara fram greiningarvinna og ákveðinn grundvallaruppstokkun á þeim málaflokki þannig að við snúum við þeirri þróun sem hefur verið í rekstri hjúkrunarheimila á undanförnum árum. Við göngum til þess með opin augu. Við þekkjum reikninga slíkra heimila og þau vandræði sem mörg sveitarfélög eru að fást við af þeim sökum og þeim hefur ekki öllum tekist að reka sig réttum megin við strikið. En þetta er miklu stærra mál en svo að hægt sé á nokkrum mánuðum að snúa því við og það hafa margar ríkisstjórnir fengist við. Við ítrekum þess vegna tillögu okkar frá því í fjármálaáætlun í vor að heilbrigðisráðherra gangist fyrir markvissri vinnu á þessu sviði. Við erum líka að tína til leiðir sem geta hjálpað til við að bæta rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila eins og breytingar á kostnaðarþátttöku í lyfjum heimilismanna. Sú tillaga kemur beint upp úr umsögn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, þ.e. að heimilismenn sem búa á hjúkrunarheimilum haldi einfaldlega almennum réttindum sínum um niðurgreiðslu lyfjakostnaðar þannig að það verði ekki þessi munur á milli vistmanna eða heimilismanna eftir því hvaða lyfjakostnað þeir bera og það lendi á fjárhag viðkomandi hjúkrunarheimilis. Ég held að þetta sé ákaflega mikilvægt atriði þótt ekki væri nema bara út frá því að við hugsum um sjálfstæði einstaklinganna og rétt þeirra til að njóta aðstoðar samfélagsins þegar á þarf að halda. Þetta mun jafna aðstöðumun hjúkrunarheimila verulega.

Í annan stað nefnum við önnur búsetuúrræði og endurskoðun á þeim og ræðum hvers vegna ríkið þurfi t.d. alltaf að byggja öll hjúkrunarheimili. Hvers vegna má ekki veita þjónustuna öðruvísi og að eldri borgarar eða þeir sem fá hjúkrunarheimilamat eða vistheimilamat geti einfaldlega lagt fram íbúðir sínar og við mætum þeim með þjónustu sem þeir eiga rétt á? Ég held að það sé engin ein lausn sem við eigum að horfa á. Við eigum ekki einungis að horfa á hækkuð framlög til reksturs hjúkrunarheimila. Við eigum að horfa á miklu víðtækari kerfisbreytingu og miklu fleiri tillögur og miklu fleiri atriði sem bæta rekstur þessa mikilvæga málaflokks. Það er sannarlega tekið utan um það í stjórnarsáttmálanum og það er þess vegna sem meiri hluti fjárlaganefndar sendir nú þá pílu til ríkisstjórnar sinnar að taka sérstaklega utan um þetta í aðdraganda fjármálaáætlunar. Það rímar algjörlega við það vinnulag sem við höfum tekið upp um ríkisfjármálin, þ.e. að láta fjármálaáætlunina leysa fram stefnubreytinguna og áherslubreytingarnar, að við séum ekki að fást við það í fjárlagafrumvarpi að hausti. Fjárlagafrumvarp að hausti er fyrst og fremst úrvinnsla fyrsta árs fjármálaáætlunar og þeirra ramma sem þar eru lagðir.

Til viðbótar þessu ætla ég að nefna að í fjárlagafrumvarpinu og breytingartillögum okkar er nýgerður samningur við kirkjuna og fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju. Raunveruleikinn er þannig að við staðfestingu á þessu fjárlagafrumvarpi erum við að staðfesta þann samning. Það kom fram í umræðum fyrr í dag við hv. þm. Björn Leví Gunnarsson að fjárlaganefnd hafði ákveðnar spurningar um ýmis atriði þess samkomulags. Þetta samkomulag var rofið í hruninu og hefur ekki verið gengið frá lausum endum þess. Við höfum verið að bregðast við á hverju ári í gegnum fjáraukalög, að leiðrétta framlög til kirkjunnar og það eru ekki bara framlög til kirkjunnar heldur er hér líka breytingartillaga um örlitla hækkun á sóknargjöldum. Ég held að það sé stór áfangi þegar við náum að staðfesta þetta nýja samkomulag vegna þess að þjóðkirkjan er ein af stoðstofnunum þessa samfélags og er okkur mikilvæg og það skiptir máli að koma því máli á réttan stað og í eðlileg samskipti.

Við höfðum að sönnu, eins og ég sagði, spurningar um gildissvið samningsins, hvernig hann snertir síðan lög um opinber fjármál um tímalengd samnings. Ég rakti í andsvari í dag að við fengum viðhlítandi svör frá dómsmálaráðuneytinu, afar greinargóð svör sem sneru að áhyggjuefnum okkar, um tímalengd samnings, við hvaða þáttum samkomulagið væri að bregðast, við breyttum aðstæðum vegna ákvarðana um starfskjör starfsmanna kirkjunnar vegna breytinga á lögum um kjararáð og fleiri þáttum sem lúta að þessu mikilvæga sambandi ríkis og kirkju. Við getum síðan í þessum sal verið algerlega ósammála um andlag þess samnings. Ég er ekki þar staddur. Ég er ekki að segja að það sé eitthvert óhæfilegt verk óunnið í þeim efnum, eitthvert uppgjör á kirkjujarðasamkomulagi. Þetta er einfaldlega samningur sem gerður var 1997. Það voru lagðar inn til ríkisins fyrir um 100 árum síðan ákveðnar eignir og ríkið tók að sér að greiða þessi framlög til rekstur þessarar mikilvægu starfsemi í landinu.

Virðulegi forseti. Þetta er það sem ég vildi helst draga fram í innleggi mínu í þessari umræðu, núna þegar klukkan er langt gengin í miðnætti á þessum fyrsta degi 2. umr. um fjármál og fjárlög næsta árs. Ég get þó ekki sleppt því að nefna örstutt tvö atriði til viðbótar af því að það hefur komið upp í umræðunni og ég vil leiðrétta ákveðinn misskilning. Það eru annars vegar framlög til Flugþróunarsjóðs sem eru lækkuð á milli ára sem er einfaldlega vegna þess að það eru uppsafnaðir fjármunir í þeim sjóði. Það er ekkert verið að gefa neitt eftir í því að Flugþróunarsjóður geti rækt hlutverk sitt. Í öðru lagi ætla ég að nefna breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar um heimild til þess að leigja eða kaupa flugstöð eða stækkun flugstöðvar á Akureyri sem ég veit að hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson mun gera nánari skil í ræðu.

Það sem situr eftir eftir þessa umræðu og yfirferð fjárlagafrumvarpsins núna í haust í hv. fjárlaganefnd og ég verð æ meira hugsi yfir eru vaxtagjöld ríkissjóðs. Fyrir mér blasir myndin einhvern veginn þannig að við höfum lítið skuldsettan ríkissjóð. Við höfum raunverulega gjörbreytt skuldastöðu sjóðs á ótrúlega stuttum tíma. Ég ætla ekki að rekja hvernig það var gert. Við höfum frábært lánshæfismat ríkissjóðs sem nýlega var hækkað. Við höfum ríkissjóð í efnahagslega sterku landi sem er samt að greiða gríðarlega háan fjármagnskostnað og þar finnst mér ekki fara saman hljóð og mynd. Hvernig má það vera að jafn sterkur ríkissjóður með jafn litlar skuldir, jafn sterkt lánstrausts eins og hann hefur skuli bera slíkan fjármagnskostnað sem raun ber vitni? Án þess að ég viti endilega svarið við því sem þar gæti komið upp er þetta er sannarlega verkefni fyrir fjárlaganefnd og fyrir fjármálaráðuneytið að rýna á næstu misserum og sjá hvort við séum að færa þessa skuldbindingar eða útgjöld rétt. Ég kann ekki svarið við því, hvort ég sé á villigötum með því að nefna þetta, en það sem situr eftir eftir vinnu fjárlaganefndar á þessu hausti er að við þurfum að ná betur utan um þetta.