150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[23:00]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Þetta var afar sérkennileg útskýring, ef svo má að orði komast, að um viðbótarskattalækkanir sé að ræða þegar ýmis gjöld á vegum ríkisins eru að hækka. Ég held að það sé heiðarlegt að koma þannig fram að segja bara að skattalækkunin sé, að teknu tilliti til gjaldskrárhækkana ríkissjóðs, þetta mikil. Hún er ekki 10.000 kr. Hún er kannski þegar upp er staðið 6.000–7.000 kr. Það væri heiðarlegra að koma þannig fram.

Annað í þessu sambandi sem mig langaði að koma inn á varðandi ræðu hv. þingmanns eru skattkerfisbreytingar, að fjölga um eitt skattþrep. Sjálfstæðisflokkurinn hefur margsinnis boðað í þeim efnum og margsinnis hefur verið komið á framfæri af hans hálfu í ræðu og riti að nauðsynlegt sé að einfalda skattkerfið. Við í Miðflokknum erum talsmenn þess. En þá spyr ég: Er það ekki algjörlega á skjön við stefnu Sjálfstæðisflokksins, hv. þingmaður, að fjölga skattþrepum? Það flækir skattkerfið og býður hugsanlega upp á meiri undanskot. Þetta er á skjön við það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sagt og boðað og væri gott að fá fram hjá hv. þingmanni hvernig það er að standa að svona tillögum sem eru í raun og veru þvert á þá hugmyndafræði sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað.