150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[23:06]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þetta andsvar. Hv. þingmaður spyr hvort ég sé ánægður með þennan texta nefndarálitsins. Ég get bara sagt: Já, ég er það, ég er að stóru leyti höfundur að honum. Ég sagði í ræðu minni áðan og rakti mjög vel að meiri hluti fjárlaganefndar skyldi gæta að því í næstu fjármálavinnu, sem er þá fjármálaáætlun að vori, hvaða skilaboð við sendum Stjórnarráðinu, hvað það eigi að undirbúa. Það er allt saman rétt sem hv. þingmaður les upp úr nefndarálitinu og við tökum undir að það sé óþolandi staða að mörg heimili séu rekin með tapi ár eftir ár. Það eru samt ekki bara aukin framlög til reksturs hjúkrunarheimila sem munu laga þá stöðu. Það er algjörlega ósjálfbært að nálgast þennan málaflokk á þann hátt sem hefur gert verið hingað til. Það er þess vegna sem við leggjum það til aftur og ítrekað og höfum átt samtöl við hæstv. heilbrigðisráðherra um að koma af stað þeirri vinnu að greina og taka utan um þann vanda eða það verkefni með þverpólitískum hætti. Við leysum þetta aldrei, hv. þingmaður, með því að byggja fleiri hjúkrunarheimili og reka þau með framlögum með þeim hætti sem við gerum í dag og ekki heldur þótt við myndum hækka þau. Það verður algjörlega ósjálfbært til lengdar. Við þurfum að leita annarra lausna og það er það sem við nefnum í áliti okkar.

Ég get nefnt til viðbótar að við leggjumst á árarnar með það að við séum líka að nýta það húsnæði sem nú þegar er búið að byggja. Það eru enn ein 210 dvalarrými eftir á íslenskum hjúkrunarheimilum sem fá dvalarrýmisframlög. Þau kjör sem hjúkrunarheimilum hafa verið boðin hingað til, að leggja inn tvö dvalarrými og fá eitt hjúkrunarrýmisframlag, eins og kemur ágætlega fram í áliti frá Flokki fólksins við þetta fjárlagafrumvarp, er akkúrat ekki leiðin til að bæta rekstur hjúkrunarheimila. (Forseti hringir.) Þess vegna er höfuðáhersla okkar á að nýta betur þær fjárfestingar sem þegar eru komnar og takast síðan á við þetta stóra verkefni, sem það sannarlega er, með nýjum vinnubrögðum.