Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[23:09]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og er sammála honum að því leyti til að það verður að gera eitthvað. Það er óásættanlegt fyrir eldri borgara þessa lands að vera á heimilum sem eru rekin með tapi ár eftir ár. Það hlýtur að bitna á þjónustu til viðkomandi einstaklinga og þeir eiga auðvitað rétt á að fá fullkomna þjónustu og eiga ekki að þurfa að búa við að hún sé skorin við nögl.

Annað sem mig langar að spyrja hv. þingmann um og hann var að lofa er lífskjarasamningarnir. Hann var mjög ánægður með að ná þeim og það er ósköp skiljanlegt, en er hann líka sammála því að lífskjarasamningar eigi að gilda um alla nema eldri borgara og öryrkja? Er það stefna hans flokks að skilja þá út undan sem mest þurfa á þessu að halda? Eldri borgarar og öryrkjar fá ekki lífskjarasamninga eða fá ekki launaþróun, þeir fá í mesta lagi vísitöluhækkunina, og það hefur viðgengist allan tímann í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Hv. þingmaður talaði um að í dekkjunum væri nýtt loft. Eftir því sem ég sé, miðað við hvernig komið er fram við öryrkja og eldri borgara í lífskjarasamningum, er gamla góða fjórflokkaloftið komið í dekkin og það er brunað um á þeim. Það á greinilega að nota þetta loft til að valta yfir eldri borgara og öryrkja eins og hefur verið gert undanfarna áratugi með gífurlegum skattahækkunum. Ef við lítum aðeins í baksýnisspegilinn til ársins 1988 þegar staðgreiðslan var tekin upp er það staðreynd að þá var lífeyrir skattlaus og lægstu laun skattlaus. Nú er þetta orðinn 35.000–40.000 kr. skattur á lægstu laun. Skattar hafa því stórhækkað og á sama tíma hefur leiðrétting á kjaragliðnun ekki skilað sér til þessara hópa. Er hv. þingmaður sáttur við það? Finnst honum þetta eðlilegt?