150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[23:11]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka seinna andsvar hv. þingmanns. Hann hóf það á því að segja að hallarekstur hjúkrunarheimilanna gæti mögulega bitnað á þjónustu við þá heimilismenn sem þar búa. Ég ætla að leyfa mér að efast um það. Ég held að stjórnendur heimilanna geri allt sem þeir geta til að veita þá þjónustu sem þeim er ætlað að veita og nauðsynleg er. Ég hef aftur á móti samúð með sveitarfélögum sem hafa þurft að leggja í vaxandi mæli fjármagn af tekjum sínum til að greiða fyrir hallarekstur þessara heimila. Það finnst mér algjörlega ósjálfbært og óþolandi því að þetta er í ákveðnum tilfellum stór hluti af því fjármagni sem viðkomandi sveitarfélag hefur til skiptanna, hvort sem það er til fjárfestinga eða úrbóta í rekstri sínum, sem þarna er orðið klukkað til að reka hjúkrunarheimili sem er ekki sannarlega verkefni þess.

Hv. þingmaður leiðir síðan umræðuna yfir í kjör eldri borgara og öryrkja. Fyrir það fyrsta ætla ég að segja að mér finnst miður hvað þær breytingar sem við gerðum á umhverfi eldri borgara eru hafðar í neikvæðu ljósi því að við vitum og verðum að viðurkenna það, hv. þingmaður, að kjör þeirra allflestra hafa batnað verulega á undanförnum árum. Við látum hins vegar alltaf eins og þeir sem eru allra verst settir liti síðan allan hópinn. Við eigum að ræða fyrst og fremst um þá sem minnstu bæturnar hafa. Við höfum ekki náð fram kerfisbreytingum varðandi öryrkjana sem er miður. Við verjum til þess í þessu fjárlagafrumvarpi 4 milljörðum kr. og ég vona að við komumst áfram í því samtali. Hv. formaður fjárlaganefndar sagði frá því í framsögu sinni í dag hvernig fjárlaganefnd leggur til að brugðist verði við fyrir áramót í fjáraukalögum í þeim efnum. Við þurfum að geta nálgast þessa umræðu af meiri sanngirni en við höfum oft gert því að við höfum sannarlega bætt kjör eldri borgara í þessu landi.