150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:13]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp til fjárlaga fyrir 2020. Í þeirri umræðu sem hefur verið eftir Kveiksþáttinn í gær er ég hálfsleginn og fór að spá í það að í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 2,1 milljarðs lækkun á veiðigjöldum.

Það sló mig svakalega þegar ég skoðaði heimasíðu Rauða kross Íslands þar sem er síða sem heitir Sárafátækt. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Rauði krossinn hefur stofnað sjóð sem veitir neyðarstyrki til þeirra sem búa við sárafátækt. Um tímabundið átaksverkefni er að ræða en með stofnun sjóðsins vill Rauði krossinn efla stuðning og vera málsvari þeirra sem búa við mikinn skort.

„Horft er til tekna og eigna til að meta rétt til styrks. Umsækjendur yngri en 18 ára eiga ekki rétt á styrk né námsmenn í lánshæfu námi hjá LÍN.“

Einstaklingur fær 40.000 kr. í styrk en hjón og sambúðarfólk 50.000 kr. í styrk.

„Styrkur hækkar um 10.000 kr. fyrir hvert barn yngra en 18 ára sem er á forræði umsækjanda og á sama lögheimili og umsækjandi. […]

Að hámarki er hægt að veita styrk til sama umsækjanda tvisvar sinnum á almanaksári. Ekki verður veittur styrkur lengra aftur í tímann en tvo mánuði frá því að umsókn er lögð fram.“

Umsókn er hægt að senda inn í gegnum heimasíðuna. Í sjálfu sér er ágætt fyrir þá sem verst hafa það í þessu þjóðfélagi að vita af því að þarna er smáhjálp. Þar kemur líka fram að það er hægt að leita eftir fataúthlutun Rauða kross Íslands, til Fjölskylduhjálpar Íslands, Mæðrastyrksnefndar, Hjálparstarfs kirkjunnar, safnaðarkirkja, Samhjálpar og Félags einstæðra foreldra. Ekki veitir af því enda fá flestir öryrkjar borgað 214.519 kr. á mánuði eftir skatt. Stór hluti eldri borgara þessa lands fær 212.902 kr. útborgaðar til að lifa af. Það segir sig sjálft að á sama tíma og þetta lítur svona út eru skerðingar gígantískar í þessu kerfi. Lífeyrissjóðir eru skertir um 80% hjá öryrkjum og rúm 60% hjá ellilífeyrisþegum. Munurinn liggur þar eingöngu í því að ellilífeyrisþegar hafa fengið 25.000 kr. frítekjumark á lífeyrissjóðstekjur. Því ber að mörgu leyti að fagna og þakka að í núverandi fjárlagafrumvarpi frá ríkisstjórninni og meiri hluta nefndarinnar er 10.000 kr. eingreiðsla í jólabónus í desember skatta- og skerðingarlaus. Það sem er alvarlegast í þessu máli er að á sama tíma og við erum að setja þessa litlu peninga inn er verið að skerða öryrkja um 80% af lífeyrissjóðstekjum þeirra, 50.000 kr. lífeyrissjóðstekjur skila 10.000 kr. Það er samt ekki nóg, það furðulegasta við þetta kerfi er að þessar lífeyrissjóðsgreiðslur, 50.000 kr., sem skila bara 10.000 kr., eru einnig notaðar til að skerða jólabónus og orlofsuppbót á sama tíma og við þingmenn og aðrir launþegar fáum meira en helmingi hærri jólabónus en öryrkjar og ellilífeyrisþegar án skerðingar.

Ég spyr: Hvernig höfum við getað búið til svo ómannúðlegt kerfi að fyrst sé hægt að skerða 50.000 kr. lífeyrissjóð niður í 10.000-kall og þegar búið er að skerða frá mánuði til mánaðar að nota það líka til að skerða orlofsuppbót og jólabónus? Ég hélt ræðu um það í fyrra, við síðustu fjárlagagerð, og benti líka á að fullt af fólki fengi ekki krónu í jólabónus út af þessum ótrúlegu skerðingum. Núna fá þau þó sem betur fer 10.000 kr. styrk. Því miður held ég að það dugi skammt vegna þess að yfirleitt er búið að taka þessar hækkanir til baka með gjöldum og sköttum. Í umsögn Öryrkjabandalags Íslands um frumvarp til laga um fjárlög 2020 kemur margt fróðlegt í ljós. Með leyfi forseta stendur þar m.a. orðrétt:

„Allir málaflokkar sem varða fatlað fólk og örorkulífeyrisþega eru sveltir, og þrátt fyrir að stjórnvöld tali fjálglega um kaupmáttaraukningu öryrkja og að verulegu fjármagni hafi verið bætt við málaflokka fatlaðs fólks og öryrkja þá vantar enn stórlega upp á að fólk geti lifað með reisn í íslensku samfélagi. Afar brýnt er að litið verði sérstaklega til mannréttinda þessa hóps. Íslenska ríkinu ber að tryggja samfélag án mismununar, samfélag þar sem fatlað og langveikt fólk á rétt til lífs til jafns við aðra. Til þess að svo megi verða þarf að gera ráð fyrir verulegri aukningu fjármagns inn í alla málaflokka er varða fatlað fólk.

[Samningur Sameinuðu þjóðanna] var fullgiltur haustið 2016. Mikilvægt er að tryggja fjármagn sérstaklega til að innleiða samninginn í íslenskan rétt. Samningurinn felur m.a. í sér skyldu ríkisins til þess að huga sérstaklega að stöðu fatlaðs fólks við alla lagagerð, ekki síst í fjárlagagerð. Það veldur því sérstökum vonbrigðum að sjá að ekki er bætt í þrátt fyrir ríka þörf, sá beini niðurskurður sem lagður er til með frumvarpinu er óásættanlegur. Tryggja verður einnig fjármagn til fjölgunar NPA-samninga, sem eru fyrir marga lykillinn að því að þeir geti notið réttar síns til sjálfstæðs lífs, samanber 19. gr. samningsins.“

Örorka og málefni fatlaðs fólks hafa því miður setið eftir og einnig stór hluti ellilífeyrisþega sem lifa við fátæktarmörk.

Í frumvarpi til fjárlaga hefur að litlu leyti verið tekið tillit til þess sem Öryrkjabandalag Íslands hefur farið fram á og m.a. hefur það bent á að það á einungis að hækka um 3,5% til öryrkja og ekki að fara eftir launaþróun eins og ber að gera samkvæmt 69. gr. almannatryggingalaga. Við erum að tala um mjög litlar hækkanir og þar erum við að tala um 8.651 kr. á óskertan lífeyri, þ.e. úr 247.000 kr. í 255.834 kr. fyrir skatt. Ef launavísitalan hefði verið notuð væru það 5,5% og ef núverandi ríkisstjórn hefði farið eftir launaþróun færi mun meira til öryrkjanna en hér er gert ráð fyrir.

Í umsögn Öryrkjabandalagsins til fjárlaganefndar kemur fram orðrétt, með leyfi forseta:

„Aðalfundur Öryrkjabandalagsins skoraði á þjóðina að beita sér fyrir því að biðinni ljúki nú þegar. Það veit enginn hver þarf næst að reiða sig á smánarlegan örorkulífeyri. Á árinu 2008 skildu leiðir lágmarkslauna og óskerts örorkulífeyris. Árið 2019 er örorkulífeyrir 70.000 kr. lægri en lágmarkslaun. Í því fjárlagafrumvarpi sem liggur nú fyrir Alþingi er enga breytingu að sjá og því mun bilið aukast enn eða um 90.000 kr. á mánuði …“

Þarna er að verða gígantískur munur á launum lægst launaðra og þeirra sem þurfa að lifa á örorkulífeyri og einnig þeirra ellilífeyrisþega sem þurfa að lifa á, eins og áður kom fram, 212.000 kr. eftir skatt. Við verðum að átta okkur á því að frá 2009 til 2018, og sem kemur skýrt fram í umsögn Öryrkjabandalagsins, hefur óskertur örorkulífeyrir hækkað um 85.000 kr., lágmarkslaun 143.000 kr., heildarlaun fullvinnandi 256.000 kr. — en heildartekjur öryrkja aðeins um 106.000 kr. Sífellt dregur í sundur og alltaf er það á kostnað öryrkjanna.

Þá verður einnig að hafa það í huga sem kemur skýrt fram í umsögninni, með leyfi forseta:

„Í fjárlagafrumvarpinu er því haldið fram að allt frá árinu 2013 hafi lækkun skatta á einstaklinga verið forgangsmál stjórnvalda og að ráðstöfunartekjur hafi stóraukist. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að lágtekjufólk hefur borið sífellt þyngri skattbyrði síðustu árin og því er þessi staðhæfing röng með tilliti til lágtekjufólks. Í frumvarpinu er því enn fremur haldið fram að nýtt skattkerfi muni létta til muna skattbyrði lág- og millitekjufólks og að lækkun á tekjuskatti einstaklinga sé umfangsmikil í þágu þeirra tekjulægstu.

Hver er upphæð þeirrar skattalækkunar sem örorkulífeyrisþegar geta vænst árið 2020, ef fjárlagafrumvarpið verður að lögum?

Örorkulífeyrisþegi með óskertan örorkulífeyri, 247.183 kr. á mánuði fyrir skatt, greiðir 34.862 kr. í tekjuskatt og útsvar árið 2019 eða 14% tekna sinna. Ef lífeyrir almannatrygginga hækkar um 3,5% (eða í 255.834 kr.), skattprósentan lækkar í 35,04% og persónuafsláttur lækkar í 55.364 kr. í byrjun árs 2020 mun hann greiða 34.280 kr. í skatt eða 13% tekna sinna. Ráðstöfunartekjur hans vegna skattkerfisbreytinganna munu því einungis aukast um 582 kr. á mánuði eða 6.984 kr. á árinu. Í fjárlagafrumvarpinu segir enn fremur að nýtt skattkerfi sé í þágu þeirra tekjulægri og muni létta til muna skattbyrði lágtekju- og millitekjuhópa. Áhrif skattkerfisbreytinganna fyrir örorkulífeyrisþega og aðra með mjög lágar tekjur eru hverfandi, eins og sjá má á töflu …“

Þetta eru sláandi tölur og það er skelfilegt til þess að hugsa að það skuli vera mært og talið alveg frábært að einhver skuli fá hækkun upp á 582 kr.

Eins og ég hef oft bent á hefur skattbyrði á lífeyrisþega og lægstu laun stóraukist frá 1988. Ef rétt væri reiknað væru tekjur undir 300.000 kr. skattlausar og enginn fengi minna. Því miður er það ekki svo gott því að skattbyrðin eykst jafnt og þétt á þá sem síst skyldi og ættu alls ekki að borga skatta. Ef á annað borð væri þörf á að breyta kerfinu höfum við í Flokki fólksins bent á að þá ætti að breyta persónuafslættinum. Þeir sem eru á hæstu laununum hafa ekkert með persónuafslátt að gera. Fyrir þá sem eru komnir í 2–3 milljónir er persónuafsláttur svo lítill hluti af kjörunum að þeir tækju varla eftir því þó að þeir hefðu hann ekki.

Síðan er annað sem kemur líka skýrt fram í umsögn Öryrkjabandalagsins, með leyfi forseta:

„Ef frítekjumark vegna atvinnutekna hefði hækkað í samræmi við hækkun launavísitölu frá árinu 2009, væri frítekjumarkið komið yfir 207.000 kr. á mánuði í stað 109.600 kr.“

Þetta stingur rosalega í stúf miðað við það að ríkisstjórnin er alltaf að tala um starfsgetumatið. Ef það væri einhver vilji og hefði verið til að leyfa öryrkjum að vinna væri búið að hækka frítekjumark nú þegar, þá væri það í þessari tölu sem það ætti að vera, 207.000-kall, en það sýnir sig að ekki er vilji til þess. Í nefndaráliti meiri hlutans kemur það skýrt fram og það er eiginlega eitt af því merkilegasta sem maður hefur séð lengi í þessu kerfi, að það skuli ekki hafa verið rætt meira. Þar kemur fram orðrétt, með leyfi forseta:

„Samkvæmt nýjustu tölum hefur hins vegar hægt mjög á fjölguninni og sem hlutfall af mannfjölda lækkaði hlutfall öryrkja lítillega úr 9,9% í janúar 2018 í 9,8% í janúar á þessu ári.“

Þarna erum við að tala um fækkun öryrkja. Það eru ekki nema nokkrir mánuðir síðan ráðherrar og aðrir komu upp í þennan stól og fullyrtu að ef ekki væri hægt að troða upp á öryrkja starfsgetumati færi allt á annan endann. Það yrði tuga milljarða hækkun sem þyrfti að leggja inn í kerfið til að halda uppi stigfjölgandi öryrkjum. Hverjum átti að fjölga mest? Jú, ungum öryrkjum, þeim hefði átt að fjölga alveg rosalega, en svo kom út skýrsla nýlega sem sló þetta allt út af borðinu. Í henni kemur fram að mesta fjölgunin í hópi öryrkja sé meðal kvenna, 50 ára og upp í 65 ára. Hvers vegna skyldi það nú vera? Jú, þær eru í láglaunastörfum, börnin eru yfirleitt á þeirra herðum og jafnvel tvö, þrjú störf til að standa undir. Þegar er stór hluti kvenna í vaktavinnu og við hljótum líka að spyrja í þessu samhengi: Hvers vegna vilja nálægt þúsund hjúkrunarfræðingar ekki starfa sem hjúkrunarfræðingar? Hversu mikið inni í því er álag? Hversu stór hluti af því er vaktavinna? Hversu stór hluti af því er léleg kjör?

Á sama tíma og þetta kemur fram ætti að vera nóg af peningum miðað við það sem þeir reiknuðu með að þurfa að leggja í þessa gífurlegu fjölgun öryrkja sem átti að skella á okkur, það ættu að vera til peningar til að gera eitthvað í málum þeirra.

Á sama tíma höfum við í Flokki fólksins lagt fram frumvarp um að taka innskatt af greiðslum í lífeyrissjóði, að taka skattinn strax. Sú umræða fór hérna aðeins fram í andsvörum. Hver eru rökin fyrir því að gera þetta? Jú, rökin eru sögð þau að kerfið sé að brotna hjá okkur. Það er fullt af fólki þarna úti sem á ekki til hnífs og skeiðar. Það var hægt að redda því. Sjúkrakerfið okkar er í algjörum lamasessi og við ætlum ekki einu sinni í þessu fjárlagafrumvarpi að sjá til þess að sjúkrahúsin og bráðadeildin geti starfað eðlilega. Álagið eykst og við verðum að finna peninga. Nei, segir ríkisstjórnin, nei, við viljum frekar — og mér er það óskiljanlegt miðað við tíðindi sem eru að berast af spillingu og öðru að við skulum enn þá treysta og trúa ákveðnum öflum fyrir því að vera með stórar fúlgur, ekki 100 milljarða heldur þúsundir milljarða, skattpeninga á markaði og gambla með þá þar. Það sem er merkilegast við þetta er að við erum með á þriðja tug lífeyrissjóða til að gambla með peningana. Það kostar okkur á þriðja tug milljarða að reka þetta fyrirbrigði. Hverjir stjórna þar að stórum hluta? Samtök atvinnulífsins. Svo er annað sem enginn fær að vita og enginn getur komist í og það er hvað umsýsla á þessu fé erlendis kostar. Hversu mikið erum við að borga fyrir umsýslu? Þar eru stórir peningar sem enginn fær einhvern veginn upplýsingar um og þess vegna velti ég fyrir mér öðru í því samhengi. Það á að fara að setja á Þjóðarsjóð og hann á að ávaxta erlendis. Hver á að sjá um hann? Hvað kostar það? Verður það gagnsætt? Ég efast um það.

Annað sem ég hef áður bent á og kemur líka skýrt fram í umsögn frá Öryrkjabandalaginu varðar desember- og orlofsuppbætur. Ég get ekki annað en velt fyrir mér hvað sé að í sál ríkisstjórnar eftir ríkisstjórn sem hafa verið við völd að geta fundið hjá sér hvata til að skerða jólabónus og skerða orlofsuppbót með lífeyrissjóðsgreiðslum sem er þegar búið að skerða. Fyrst er skert, 50.000-kall verður 10.000-kall. Síðan er það aftur notað til að skerða orlofið og jólabónusinn. Hvað er það í okkar kerfi sem leyfir svona hlutum að viðgangast? Mér er brugðið og mér er gjörsamlega misboðið að þetta skuli vera svona. Á sama tíma horfum við á hvað er verið að borga í jólabónus. Lífeyrisþegar fengu 43.103 kr. árið 2018, ríkisstarfsmenn 89.000 kr. og atvinnuleitendur 81.000 kr. Meira að segja atvinnulausir fá nærri helmingi meira en öryrkjar. Er það skert? Já, kannski af tekjum þeirra, ég veit það ekki. En af hverju? Hver reiknaði það út í fyrsta lagi að atvinnulausir þurfi 30.000 kr. meira á mánuði en öryrkjar og í öðru lagi að þeir þurfi helmingi meira jólabónus en öryrkjar? Hvernig í ósköpunum er það varið? Ég skil það ekki og með leyfi forseta ætla ég að hafa orðrétt eftir umsögn Öryrkjabandalagsins:

„Mikilvægt er að hafa í huga að einungis hluti lífeyrisþega fær desember- og orlofsuppbætur óskertar þar sem þær eru reiknaðar sem hlutfall af tekjutryggingu og heimilisuppbót, en einungis um 29% örorkulífeyrisþega fá greidda heimilisuppbót. Lífeyrissjóðir greiða ekki orlofs- eða desemberuppbót. Hluti lífeyrisþega fær því enga eða mjög skerta desember- og orlofsuppbót.“

Þetta er nákvæmlega það sem ég var að segja áðan. Og það er annað í þessu sem er óskiljanlegt fyrirbrigði. Af hverju í ósköpunum reiknum við ekki bætur í rauntíma? Ein af aðalástæðunum sem ég fékk hjá Tryggingastofnun ríkisins var sú að það væri af því að stofnunin fengi ekki rauntímaupplýsingar frá lífeyrissjóðunum. Það er eitt af því sem við þurfum að vinda okkur í. Það gladdi mig mikið þegar fjármálaráðherra lýsti því yfir að hann væri sammála því að það þyrfti að fara út í að reikna þetta á rauntíma. Áður fyrr var talað um að það væri langbest, það væri búið að reikna þetta svo flott að þetta væru svo rosalegar hækkanir, en eins og við vitum gleymist alltaf að taka inn í þær hækkanir allar skerðingarnar sem verða ári seinna, úti um allt kerfið. Það er ekki nóg að við þurfum að reikna út skerðingarnar sem verða innan Tryggingastofnunar, við þurfum líka að reikna skerðingarnar sem verða úti í sveitarfélögunum. Við búum til stórfurðulegt kerfi sem er keðjuverkandi að ofan, að því er virðist í þeim eina tilgangi að skerða bætur öryrkja og lífeyrisþega.

Við höfum líka stórfurðulegt kerfi sem hefur komið mér mikið á óvart og er eiginlega okkur til háborinnar skammar og það eru búsetuskerðingarnar. Sem betur fer tók umboðsmaður Alþingis á því en því miður, eins og segir orðrétt í umsögn Öryrkjabandalagsins, er þar „annað dæmi um mál þar sem einstaklingar hafa verið festir í sárafátækt án þess að slíkt byggi á lagastoðum. Einstaklingarnir hafa þurft að reiða sig á heildartekjur sem eru langt undir öllum tekjuviðmiðum, þar með talið framfærsluviðmiðum samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Á árinu 2017 voru 92 lífeyrisþegar með heildartekjur undir 80.000 kr. á mánuði.“

Hvernig í ósköpunum getum við gert þetta? Hvernig getum við borgað einhverjum og sagt: Heyrðu, nú átt þú að lifa af 80.000 kr. á mánuði? Ég hélt að við værum löngu búin að afnema tekjutengingu við maka. Kannski gæti einhver einstaklingur lifað af þessu ef hann á maka en ég spyr um einstaklingana sem eiga ekki maka. Hvernig lifa þessir 92 lífeyrisþegar af þessu? Þeir þurfa að fara á bæjarfélagið. Spurningin er: Fá þeir þar sína framfærslu? Ég veit það ekki.

Í fjárlagafrumvarpinu er margt skrýtið en eitt af því sem varðar málefni fatlaðs fólks er í 27.30 í umsjón Öryrkjabandalagsins og þar kemur fram að samkvæmt frumvarpinu séu heildarfjárheimildir til málefna fatlaðs fólks fyrir árið 2020 áætlaðar 601 millj. kr. Þær lækka um 9,5 milljarða frá gildandi fjárlögum og það er ólíðandi.

Eitt sem er gleðilegt og ber að þakka — eins og ég segi ber manni að þakka þótt lítið sé og allt skiptir máli — er að hætt var við að skerða símenntun. Hins vegar þarf líka að spýta í og eitt af því sem við þurfum að taka á og setja peninga í er NPA. Því miður er þjónustan þar ekki eins og hún á að vera og margir einstaklingar fá hana ekki. Það er ömurlegt til þess að vita að við skulum vera með þannig kerfi að fatlaðir einstaklingar sem geta enga björg sér veitt séu vistaður á stofnunum í sjálfu sér eða fangar í sínu eigin herbergi. Þetta er andstætt öllum mannréttindum og samningi Sameinuðu þjóðanna og í því máli þarf virkilega að taka til.

Af nógu er að taka í umsögn Öryrkjabandalagsins. Eitt af því sem ég ætla líka að grípa niður í og fara með orðrétt, með leyfi forseta, er úr kaflanum Greiðsluþátttaka í heilbrigðisþjónustu:

„Í stjórnarsáttmála segir: „Ríkisstjórnin ætlar að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og gera það gagnsærra og skilvirkara. Þar þarf að meta árangur núverandi kerfis með hliðsjón af veikasta fólkinu og skoða þá þætti sem eru ekki hluti af því, t.d. ferða- og uppihaldskostnað, tannlækningar og sálfræðiþjónustu.“ Komið hefur í ljós að nýlegt greiðsluþátttökukerfi er dýrara fyrir suma sjúklingahópa en áætlað var og þá vantar mikið upp á að hlutdeild sjúklinga sé á pari við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Í nýja kerfinu greiða lífeyrisþegar 2/3 af kostnaði almennra notenda heilbrigðisþjónustunnar, en hlutfallið var 30–50% í fyrra kerfi. Það er ekki í samræmi við yfirlýst markmið með kerfinu að draga úr kostnaði þeirra sem mest nota heilbrigðisþjónustu. Í fjárlagafrumvarpi 2020 hækka framlög um 300 millj. kr. til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu, en samkvæmt áætlun um 800 millj. kr. næstu fjögur ár á eftir. Það munar um 500 millj. kr. og það er ekki fyllilega trúverðugt þegar skuldadögum er frestað.“

Þarna þurfum við að taka okkur á og þá einnig í tannlækningum. Það er með ólíkindum að við skulum hafa stóran hóp fólks fyrir utan sem getur ekki leitað sér tannlækninga og það að við skulum einhvern veginn hafa aðskilið það frá annarri heilbrigðisþjónustu er stórfurðulegt og okkur til háborinnar skammar.

Síðan er annað sem er komið upp í háaloft og það er sjúkraþjálfun. Það er grafalvarlegt mál að það skuli vera búið að rústa því kerfi sjúkraþjálfara sem var komið á mjög góðan skrið. Ég tel að stóran hluta þess að það dragi úr nýgengi örorku og að hún sé komin í jafnvægi megi einmitt rekja til þess að það var stór hópur sem fór í sjúkraþjálfun sem hafði ekki efni á því áður. Þegar sjúkraþjálfun fer 600 milljónir fram úr á fjárlögum hringja allar viðvörunarbjöllur og allt er sett á annan endann í því kerfi en á sama tíma og við erum að því hringja engar viðvörunarbjöllur þegar kerfið þenst út stjórnlaust. Ég hef nefnt áður, og það má nefna það eins oft og mögulegt er, að fjölmiðlanefnd fær 500 milljónir, fjölmiðlanefnd sem stjórn Blaðamannafélag Íslands tók sinn fulltrúa úr ef ég man rétt. Ég tel þetta eina af óþörfum nefndum og þarna þyrfti að taka til en einhvern veginn virðist sem eftirlitsnefndirnar megi þenjast út algjörlega stjórnlaust. Þær hafa tvöfaldast á tíu árum og stöðugildin farið úr 226 í 691 — og hver er skilvirknin af þessu? Ekkert virðist vera fylgst með hverju þetta eigi að skila en það virðist vera nógir peningar í að þenja kerfið út. Hins vegar virðist lítið fara fyrir peningum í að gera líf öryrkja og ellilífeyrisþega mannsæmandi þannig að þeir þurfi hvorki að búa við sárafátækt né hreinlega við fátækt yfir höfuð.

Við í Flokki fólksins lögðum líka fram frumvarp um að afnema virðisaukaskatt af hjálpartækjum og í umsögn Öryrkjabandalagsins kemur sú krafa skýrt fram. Það er eiginlega óskiljanlegt í því samhengi og sérstaklega ef við horfum til þess að í sjónmáli er frumvarp um starfsgetumat frá félags- og barnamálaráðherra. Þá ber okkur að sjá til þess að hjálpartækin séu ekki skattlögð en það dugir samt ekki til vegna þess að það undarlegasta við þetta fyrirhugaða starfsgetumat er að störf eru ekki í boði fyrir þetta fólk, yfirleitt hvorki hjá ríkinu né bæjarfélögum. Þegar eitthvað herðir á vinnumarkaðnum virðist meira að segja sem þetta sé fyrsta fólkið sem er sagt upp, fólk með fötlun. Við höfum orðið vitni að þessu. Við urðum vitni að því þegar verið var að endurskipuleggja hjá Strætó. Þá var einstaklingum í hjólastólum fyrst sagt upp og meira að segja hafði það þau áhrif að kerfið virkaði ekki mjög vel hjá þeim fyrst á eftir.

Annað sem er undarlegt og þarf að taka á er barnabætur. Við byrjum að skerða barnabætur alveg ótrúlega snemma í ferlinu. Það er eiginlega óskiljanlegt og sérstaklega í því tilfelli að barnabætur og vaxtabætur hafa ekki aukist, heldur hafa þær dregist saman. Vaxtabætur eru mun lægri núna. Það er eins og með margt annað í kerfinu sem við erum með, hækkanir á skerðingarmörkum hafa ekki fylgt launaþróun og það er eitt af því sem er eiginlega ávísun á ákveðinn skatt vegna þess að það byrjar þá að skerðast fyrr hjá fólki og þar af leiðandi eru framfærslutekjurnar minni. Ég hélt að maður myndi reyna að hugsa vel um barnafólkið vegna þess að þjóðin er að eldast og ekki veitir af að sjá til þess að fólk geti átt börn án þess að setja fjárhagslegan grunn sinn í uppnám. Því miður þarf að gera mun betur þar.

Ég ætla enn að grípa niður, með leyfi forseta, orðrétt í umsögn Öryrkjabandalagsins:

„Við þessu verður ríkisvaldið að bregðast með markvissum aðgerðum. Í frumvarpinu er lagt til að útreikningsreglur vaxtabótakerfisins verði óbreyttar, sem er mjög miður. Sama fjárhæð er áætluð fyrir árið 2020 og var ráðgerð fyrir árið 2019, eða 3,4 milljarðar kr. Framlög til vaxtabóta rýrna því enn eitt árið. Þau voru rúmir 6 milljarðar kr. árið 2017 og tæpir 12 milljarðar kr. árið 2010.“

Hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur að það er verið að þrengja að þeim sem síst skyldi. Það er annað í þessu sem kemur líka orðrétt, með leyfi forseta:

„Enn fremur þarf að hækka tekjuviðmið, en vaxtabætur til einstaklings með 4 millj. kr. árstekjur, skerðast um 340.000 kr. vegna tekna. Það er veruleg skerðing af ekki hærri tekjum og ekki er að sjá að nokkra breytingu eigi að gera þar á. Hefur tekjutenging vaxtabóta aukist og er í dag 8,5% af tekjum dregið af vaxtagjöldum við útreikning en var 6% fyrir árið 2009.“

Það er eiginlega með ólíkindum að við skulum vera í þeirri stöðu að hafa fjárlagafrumvarp í þessari gerð vegna þess að það er greinilegt að á Öryrkjabandalag Íslands hefur verið eitthvað hlustað á en mjög lítið. Í svipuðum dúr er t.d. umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020. Þau benda líka á samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra og viðaukann og það þarf auðvitað að fara í að ganga frá þessu öllu, lagareglum og öðru, þannig að eftir því sé farið og séð til þess að réttindi fatlaðs fólks séu virt þannig að það geti lifað mannsæmandi lífi.

Annað sem ég hjó eftir er ný breytingartillaga um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020 á þskj. 446. Þar er talað um að „selja fasteignir í eigu ríkisins á Vífilsstöðum sem nýtast ekki undir starfsemi á vegum ríkisins“. Ég get ekki séð hvernig okkur dettur þetta í hug vegna þess að ég tel að Vífilsstaðir séu kjörinn staður fyrir næsta sjúkrahús. Það þarf að fara að hugsa um staðsetningu á því við fyrsta tækifæri. Það að ríkið ætli að fara að selja þennan stað er mér alveg óskiljanlegt vegna þess að þarna er alveg kjörinn staður fyrir sjúkrahús. Það virðist vera á döfinni að selja töluvert af fasteignum sem er hið undarlegasta mál.

Við í Flokki fólksins viljum í breytingartillögum okkar og nefndaráliti stórefla SÁÁ. Fíkniefnamálin eru mjög alvarlegt mál. Eins og kom fram hjá hv. þm. Ingu Sæland er alveg skelfileg tilhugsun ef við náum bara 10% af innflutningi á fíkniefnum á markaðnum og að vel á þriðja tonn af fíkniefnum flæði inn í landið. Það þarf að stórauka löggæslu og tollgæslu en því miður er hvergi neitt í frumvarpi þessarar ríkisstjórnar um að verið sé að gera það. Það er að mörgu leyti stórfurðulegt en við erum að styrkja einkarekna fjölmiðla um 400 milljónir, alveg stórfurðulegt. Á sama tíma og við segjumst ekki eiga peninga til að sjá til þess að fólk þurfi ekki að sækja um fátæktar- eða sárafátæktarstyrki aukum við fjármuni til fjölmiðla um 400 milljónir.

Ég sé að tími minn er að verða búinn. Ég geri mér ekki háar vonir um miklar breytingar hjá þessari ríkisstjórn en vonandi verður fljótlega hægt að sjá til þess að allir á Íslandi geti lifað með reisn.