150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:54]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020 við 2. umr. Mig langaði rétt að byrja að ræða málið í stærra samhengi efnahagslega, hvernig þær breytingar sem við erum að eiga við í fjárlögunum og breyttri fjármálastefnu o.fl. atvikast, vegna þeirra aðstæðna sem komu upp í byrjun árs þegar WOW air féll. Gjaldþrot WOW air varð okkur ljóst og kom fram í lok marsmánaðar. Á sama tíma komu fram upplýsingar um að það yrði loðnubrestur og engin loðnuveiði. Mér skilst að það sé í fyrsta skipti í rúman aldarfjórðung sem sú staða kemur upp. Þar að auki bættust við vandræði með MAX-vélar Icelandair. Icelandair er væntanlega það flugfélag sem hefur lent verst í þeim málefnum sem snúa að MAX-vélunum og kyrrsetningu þeirra og þar með var Ísland eiginlega það sjálfstæða land sem hefur komið verst út úr kyrrsetningu MAX-vélanna efnahagslega, áhrifin hafa orðið mest.

Breyttar aðstæður endurspegluðust þar með í framhaldi af þessu í uppfærðri þjóðhagsspá Hagstofunnar í maí og vegna þess hversu skammt var liðið frá gjaldþrotinu í maí og áhrif þess enn óljós, hvenær botninum yrði náð og hversu þróttmikil viðspyrnan yrði, var talið skynsamlegt og varfærið að gera ráð fyrir að horfurnar gætu versnað enn frekar. Ég fer betur í það rétt á eftir. Það er samt stóra breytingin sem orðin er á gjaldeyrissköpun Íslendinga og hefur komið fram af fullum krafti á síðustu árum, þá sérstaklega síðasta rúmum áratug, að gjaldeyrisskapandi greinar Íslendinga og atvinnulífsins hafa breyst gríðarlega mikið á mjög skömmum tíma. Fyrir 30–40 árum framleiddi sjávarútvegurinn fyrir okkur um 80–85% af gjaldeyri Íslendinga en nú er svo komið á síðustu árum að sjávarútvegurinn skapar okkur um 17–20% af gjaldeyrinum, stóriðjan um 14–15% og ferðaþjónustan hefur verið í kringum 40%. Þessi gríðarlega breyting hefur umbreytt íslenskum efnahagsmálum sem ég tel koma nokkuð sterklega fram í þessari niðursveiflu eða mjúku lendingu sem á sér stað á þessu ári þar sem reiknað er með að halli ríkissjóðs verði um 0,3%. Þetta hefur aldrei gerst áður þar sem miklar kollsteypur hafa átt sér stað á Íslandi á sirka sjö til átta ára fresti frá stofnun lýðveldisins þannig að þær aðstæður sem eru að skapast núna eru með allt öðrum hætti en við höfum séð áður. Þessar forsendur tel ég að breytist fyrst og fremst vegna breyttrar samsetningar í gjaldeyrisskapandi greinum. Sjávarútvegurinn, stóriðjan, ferðaþjónustan og útflutningur hátæknifyrirtækja á búnaði fyrir sjávarútveg hefur breytt þessari stöðu gríðarlega mikið. Þessi mikla breyting kemur fyrst og fremst fram í öflugum atvinnuvegum sem eru mjög gjaldeyrisskapandi og innflæði gjaldeyris til Íslands hefur gjörbreyst á skömmum tíma og er að skapa allt aðra efnahagslega umgjörð á Íslandi en við höfum þekkt áður. Þess vegna tel ég erfitt að tengja síðustu áratugi við akkúrat þá efnahagssveiflu sem er upp og niður þessi misserin. Aðstæður eru það gjörbreyttar á öllum sviðum. Þegar við erum að tala um 40% af gjaldeyrisskapandi greinum í ferðaþjónustu er flugreksturinn náttúrlega inni í því og hann hefur í sögulegu samhengi alltaf verið í kringum 35% af ferðaþjónustunni, gjaldeyrisöflunin sem hefur skapast í gegnum flugreksturinn. Það er því ótrúlegt, miðað við öll þau áföll sem við urðum fyrir á fyrri hluta ársins, að staðan skuli ekki vera verri en hún er og hallinn á ríkissjóði einungis talinn verða 0,3% á árinu 2020.

Það er verið að spyrna við á mörgum sviðum og reyna að vera sveiflujafnandi í rekstri ríkisins. Framlög til framkvæmda á vegakerfinu verða 27 milljarðar kr. á næsta ári og aukast um 3,9 milljarða frá gildandi fjárlögum. Þessi framlög eru þau hæstu frá árinu 1998, að frátöldum árunum 2008 og 2009 á verðlagi ársins 2020 miðað við vísitölu neysluverðs. Hús íslenskunnar, bygging nýs Landspítala, bygging nýs hafrannsóknaskips, kaup á þremur nýjum þyrlum, heildarframlög til kaupa á nýjum þyrlum eru á næsta ári 2,1 milljarður kr. í frumvarpinu en voru 1,9 milljarðar kr. í gildandi fjárlögum.

Í fjárlögum fyrir árið 2017 nam fjárfesting í efnislegum eignum 36,2 milljörðum kr. en í frumvarpinu er gert ráð fyrir fjárfestingu upp á 72,4 milljarða kr. sem er tvöföldun frá árinu 2017 og hækkunin frá árinu 2019 nemur meira en 10 milljörðum kr. sem er aukning um 17%.

Mig langar að ræða þá breytingu sem óvissusvigrúmið er. Það var tekið upp í endurskoðaðri fjármálastefnu á fyrri hluta ársins þar sem sett voru fram markmið um afkomu hins opinbera sem fela í sér fyrirframákveðið svigrúm sem nemur 0,8% af vergri landsframleiðslu árin 2019–2022 gagnvart þeim markmiðum sem sett verða í árlegum fjármálaáætlunum. Tilgangurinn með þessu nýja fyrirkomulagi, afkomumarkmiðum stefnunnar, er að stjórnvöld hafi meiri sveigjanleika til að aðlaga áætlanir að lakari efnahagsframvindu en reiknað var með við samþykkt fjármálastefnu. Ferlið sem við vinnum með í tengslum við fjárlagavinnuna er að þroskast og óvissusvigrúmið er dæmi um það. Staða ríkissjóðs er allt önnur en hún var fyrir aðeins nokkrum árum og vaxtaumhverfið er einnig gjörbreytt. Það er eðlilegt að markmið ríkisfjármálastefnunnar breytist við gjörbreyttar aðstæður. Bætt skuldastaða ríkissjóðs og sögulega lágir vextir þýða að smávægilegur halli á rekstri ríkissjóðs vegna versnandi efnahagsaðstæðna hefur mun minni neikvæðar afleiðingar en áður. Við þetta bætist að þjóðhagslegur sparnaður hefur að undanförnu verið í eða nálægt sögulegu hámarki. Aukinn sparnaður felur í sér kraftmeira viðnám gagnvart áföllum og sífellt betri erlenda eignastöðu þjóðarbúsins. Nú er svo komið að eignastaða íslensks þjóðarbús erlendis er jákvæð um rúm 20% og erum við komin upp fyrir Svisslendinga í því hlutfalli. Þetta er ótrúleg kúvending sem er orðin á fáum árum.

Hlutverk hins opinbera er að milda áhrif niðursveiflunnar. Niðursveifla áður en hagkerfið nær viðspyrnu getur aukið aðhald ríkissjóðs og dregið úr getu hagkerfisins til að ná vopnum sínum að nýju. Því er gætt að því í þessu fjárlagafrumvarpi að ríkisfjármálin styðji við virkni hagkerfisins. Framlög til opinberra framkvæmda verða stóraukin til að vega upp á móti minnkandi atvinnuvegafjárfestingu og er það liður í aðgerðum til að milda áhrif niðursveiflunnar.

Tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins hefur verið uppfærð með hliðsjón af nýjum upplýsingum síðan áætlun var gerð í júní sl. Um er að ræða gögn um álagningu og innheimtu skatta og gjalda fram undir lok október sl., uppfærða þjóðhagsspá og aðrar fyrirliggjandi upplýsingar sem máli skipta fyrir tekjuhorfur næsta árs. Jafnframt hafa orðið nokkrar breytingar á þeim hluta tekjuáætlunar sem tengist nýjum áformum. Niðurstaða endurmatsins í heild er sú að heildartekjur ársins 2020 verði 10,6 milljörðum kr. minni en í áætlun frumvarpsins. Allar tegundir skatta og tryggingagjöld lækka nokkuð frá fyrri áætlun vegna lakari þjóðhagsspár 2020 þar sem bæði raun- og nafnstærðir hækka minna frá fyrra ári en í fyrri forsendum. Launastofn næsta árs verður 2,5% lægri vegna minni atvinnu og lægra launastigs allt frá síðari hluta 2019 og út næsta ár. Tekjuskattur einstaklinga og tryggingagjöld, sem samanlagt skila þriðjungi af heildartekjum ársins, verða fyrir neikvæðum áhrifum af þessum lakari horfum á vinnumarkaði. Flestir neysluskattar lækka einnig vegna minni kaupmáttar og einkaneyslu. Þó er virðisaukaskattur undantekning þar sem ferðahegðun hefur jákvæðari áhrif en áður, bæði minni neysla Íslendinga erlendis og meiri neysla ferðamanna hérlendis auk grunnáhrifa af jákvæðu endurmati á fyrra ári. Áformaðar kerfisbreytingar, sem skila áttu samtals 4,6 milljörðum kr. í nýjar tekjur, eru ýmist felldar brott eða eru í athugun. Það á við um gjaldtöku af ferðaþjónustu og breytta skattlagningu ökutækja sem ekki er gert ráð fyrir á næsta ári og urðun úrgangs en útfærsla slíkrar skattlagningar er til skoðunar. Þá er reiknað með minni sköttum á fyrirtæki en áður í ljósi fyrirliggjandi álagningar á rekstur síðasta árs og minni umsvifa 2019.

Loks er tekið tillit til þess að sérstakar ívilnanir til að styðja við orkuskipti og vistvænar samgöngur, samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda, leiði til 1,4 milljarða kr. minni tekna á næsta ári. Alls lækka áætlaðir skattar og tryggingagjöld um 15,4 milljarða kr. Veiðigjöld lækka um 2,1 milljarð kr. á grundvelli vísbendinga um væntanlegan útreikning veiðigjalda á næsta fiskveiðiári. Lækkun leiðir af meiri fjárfestingu útgerðarinnar.

Lægra vaxtastig leiðir til 0,5 milljarða kr. minni vaxtatekna, auk þess sem gert er ráð fyrir lægri arðgreiðslum frá ÁTVR. Á móti kemur að áætlaðar tekjur af sölu losunarheimilda í eigu íslenska ríkisins á árinu hækka um 4,8 milljarða kr.

Mig langar aðeins að vinda mér í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í umfjöllun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stöðu íslensks efnahagslífs, sem kynnt var sl. föstudag, kemur fram að slökun í aðhaldi ríkisfjármála og lækkun stýrivaxta í kjölfar efnahagsáfalla fyrr á árinu hafi verið rétt hagstjórnarviðbrögð af hálfu stjórnvalda og hafi mildað höggið á hagkerfið. Stoðir íslensks efnahagslífs eru sterkar og grundvöllur er fyrir því að hagvöxtur taki senn við sér. Meðal þess sem fram kemur í áliti sendinefndar AGS eru nokkrir punktar sem koma fram í kynningu sjóðsins frá því um helgina og ég ætla að tiltaka. Það kemur t.d. fram að hagstjórnarviðbrögð stjórnvalda í kjölfar falls WOW air og fleiri efnahagsáfalla fyrr á árinu voru í senn rétt og hröð. Vísað er til slökunar í aðhaldi ríkisfjármála til skamms og millilangs tíma ásamt lækkun stýrivaxta. Hóflegar launahækkanir í kjarasamningum hafi einnig stuðlað að því að atvinnuleysi sé minna en það hefði ella orðið. Jöfnuður á íslenskum vinnumarkaði sé með því mesta í þróuðum hagkerfum. Einnig tiltekur AGS og getur sérstaklega um að stoðir íslensks efnahagslífs séu styrkar og trúverðugleiki hagstjórnaraðila hafi leitt til þess að niðursveiflan nú sé mildari en ella. Hagkerfið sé í stakk búið til að taka við sér á ný. Útlit sé fyrir að hagvöxtur aukist í um 2% til millilangs tíma. Hagstjórnaraðilar hafi nægt svigrúm til að bregðast við ef hagvöxtur reynist lakari en nú sé búist við. Umgjörð ríkisfjármála sé til þess fallin að auka svigrúm og trúverðugleika ríkisfjármálastefnunnar. Búist sé við því að skuldahlutfall hins opinbera lækki enn frekar til millilangs tíma, trúverðugleiki peningastjórnunar sé einnig mikill og verðbólguvæntingar nálægt markmiði. Þetta er góður vitnisburður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stöðu efnahagsmála á Íslandi. Mér er til efs að hann hafi verið jafn góður í nokkurri skýrslu AGS.

Fyrir nokkrum dögum kom einnig mat frá Moody's sem mig langar líka að vitna í, með leyfi forseta, í ræðu. Í máli Moody's, sem var kynnt fyrir nokkrum dögum, er matið á Íslandi hækkað, á skuldum og efnahagslegri stöðu. Þar tilgreina þeir tvær meginástæður fyrir hækkuninni, annars vegar umtalsverða og viðvarandi skuldalækkun ríkissjóðs og góða stöðu í samanburði við önnur ríki með sama lánshæfismat og hins vegar aukinn viðnámsþrótt efnahagslífs sem eykur þol hagkerfisins gagnvart áföllunum. Stöðugar horfur endurspegli væntingar um að áfram verði byggt á þeim árangri sem náðst hefur.

Í tilkynningu bendir matsfyrirtækið á að skuldir ríkisins hafi lækkað verulega síðan 2011 og frá fjármálahruni mest allra meðal ríkja sem fyrirtækið metur. Bætt umgjörð ríkisfjármála, m.a. með innleiðingu laga um opinber fjármál, hjálpi til við að varðveita þann árangur. Ávinningur af einkavæðingu fyrirtækja í opinberri eigu gæti styrkt efnahagsreikning ríkisins enn frekar að mati Moody's. Það er full ástæða til að staldra hér við og ítreka það sem kemur fram í mati Moody's, að Ísland eigi heimsmetið í lækkun ríkisskulda frá bankahruninu, af öllum þeim löndum sem Moody's hefur metið. Íslensk stjórnvöld brugðust hárrétt við frá 2013 og við höldum áfram á þeirri braut. Við lækkun skatta á fólkið í landinu lækkum við tekjuskattinn sem nemur 21 milljarði kr. á ári. 21 milljarður verður eftir hjá íslenskum heimilum en rann áður til ríkisins Skattarnir lækka mest hjá lág- og millitekjufólki en einnig hjá öðrum tekjuhópum. Við erum líka að lækka tryggingagjaldið og veita fyrirtækjunum í landinu meira svigrúm í rekstrinum sem gæti nýst til þess að ráða fleira fólk til starfa, fara í fjárfestingar eða annað. Við viljum að svigrúmið sé meira til að grípa megi tækifærin, efla atvinnulífið og auka fjölbreytnina í samfélaginu.

Mig langar síðan að ræða sérstaklega tvö málefnasvið hér í dag, annars vegar málefnasvið 11, samgöngu- og fjarskiptamál, og síðan málefnasvið 14, sem er ferðaþjónustan. Ég ætla að byrja á málefnasviði 11 og vitna, með leyfi forseta, í nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar:

„Í samræmi við fjármálaáætlun er aukið verulega við fjárfestingu og viðhald í samgöngumálum. Frá árinu 2017 nemur aukningin 11,6 milljörðum kr. eða 32% að raungildi. Stærstur hluti hækkunarinnar kemur fram á næsta ári þegar sérstök 3,9 milljarða kr. aukning kemur til framkvæmda og viðhalds þar sem sérstök áhersla er lögð á að auka umferðaröryggi. Með þessari fjárveitingu verða heildarframlög til viðhalds vega um 10,5 milljarðar kr. og framlög til stofnframkvæmda um 16,5 milljarðar kr.

Þróun útgjalda málefnasviðsins sýnir glögglega hve mikið hefur verið bætt í fjárfestingu á sl. árum. Ef skoðað er tímabil lengra aftur en frá árinu 2017 kemur í ljós að að raunvirði, miðað við vísitölu neysluverðs, hafa gjöldin aukist stöðugt frá því að þau voru lægst árið 2012. Þessi aukna áhersla á innviðauppbyggingu er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og fellur vel að nauðsyn þess að ríkið dragi ekki úr framkvæmdum þótt spár um hagvöxt lækki. Einnig er þetta í samræmi við niðurstöður úr umsögnum fjölmargra aðila sem komið hafa á fund nefndarinnar.“

Það er ánægjulegt að stigvaxandi fjármagni hefur verið varið til vegamála á undanförnum árum eins og lögð er áhersla á í meirihlutaáliti fjárlaganefndar. Það sem hins vegar vantar upp á er að það fjármagn sem varið hefur verið til viðhalds og nýfjárfestinga í flugvallarkerfi landsins hefur verið ákaflega takmarkað og þá sérstaklega frá árinu 2011 þegar fjármögnun kerfisins hrynur þegar þáverandi varaflugvallagjald var lagt af og þær tekjur sem áður runnu til alþjóðaflugvalla landsins fyrir utan Keflavíkurflugvöll. Við þessa breytingu breyttist varaflugvallagjaldið í þjónustugjöld sem runnu til Keflavíkurflugvallar. Hér varð til millifærsla þar sem tæplega 1 milljarður var fluttur árlega sem tekjur til Keflavíkurflugvallar og inn í reikninga Isavia. Eftir sat vanfjármagnað flugvallakerfi utan Keflavíkurflugvallar.

Skýrsla sem starfshópur skilaði til ráðherra samgöngumála í byrjun desember í fyrra bar yfirskriftina „Uppbygging flugvallakerfisins og efling innanlandsflugsins“. Þar var lagt til að frá og með 1. janúar 2020 yrðu millilandaflugvellirnir Keflavíkurflugvöllur, Reykjavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur skilgreindir sem kerfi flugvalla með sameiginlegan kostnaðargrunn og Isavia falin fjárhagsleg ábyrgð á rekstri, viðhaldi og uppbyggingu þeirra. Samhliða þyrfti að skilgreina þjónustustig Isavia á flugvöllunum í eigendastefnu fyrir félagið. Landfræðileg staða Íslands ýtir mjög undir mikilvægi þess að alþjóðlegu flugvellirnir fjórir þjóni alþjóðafluginu til og frá Íslandi og um íslenska flugstjórnarsvæðið sem samstæð heild í einu flugvallakerfi. Margoft hafa millilandaflugvellir á Íslandi utan Keflavíkur sannað gildi sitt fyrir flugöryggi til og frá landinu og eru þeir mikilvægir út frá öryggissjónarmiðum hver á sinn hátt. Flugumferð yfir Íslandi hefur margfaldast undanfarin ár og þrátt fyrir tímabundið bakslag er ekki útlit fyrir annað en að umferðin til og frá landinu eigi eftir að vaxa verulega í framtíðinni.

Í samþykktum fyrir hlutafélagið Isavia ohf., dagsettum 2. maí 2013, er tilgangur félagsins m.a. að annast rekstur og uppbyggingu flugvalla, rekstur eigna, svo og aðra skylda starfsemi. Segja má að með þessari tillögu starfshópsins til ráðherra sé verið að hvetja til þess að farið verði eftir samþykktum félagsins og upphaflegu markmiði þess sem er að Isavia byggi upp og reki sterkt kerfi flugvalla á Íslandi.

Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að setja skuli fram sérstaka eigendastefnu fyrir Isavia. Markmið ríkisins sem eiganda Isavia eru önnur en hjá fjárfesti á markaði sem horfir fyrst og fremst á hvaða beina arð hann hefur af fjárfestingu sinni. Því þarf eigendastefna Isavia einnig að taka mið af öðrum markmiðum, svo sem í byggðamálum, eflingu ferðaþjónustunnar og atvinnuuppbyggingu um land allt.

Til þessa hefur stjórn Isavia ekki gert tillögur um greiðslu arðs til ríkisins frá því að félagið var stofnað heldur hefur stjórn tekið ákvörðun um að hagnaður hvers árs sé færður yfir á næsta ár. Eigið fé félagsins var í lok júní 2019 tæpir 32,7 milljarðar kr. og var eiginfjárhlutfallið 41,6%. Uppsafnað óráðstafað eigið fé í félaginu var 24,6 milljarðar kr. í lok júní 2019. Ljóst má vera að fjárhagslegur og faglegur styrkur Isavia hefur vaxið gríðarlega frá því að það var stofnað með hlutafé upp á 5,6 milljarða kr. árið 2010. Mikilvægt er fyrir framþróun íslensks flugumhverfis að Isavia sé gert að taka þá ábyrgð sem eigandinn, íslenska ríkið, felur félaginu, bæði á grundvelli samþykkta félagsins sem og með sinni stefnumörkun í lögum um opinber fjármál og eigendastefnu.

Ég vil nota líka tækifærið og nefna það sem kemur fram og stefnt er að í fjárlögum, þ.e. skosku leiðina sem á að taka í notkun á seinni hluta næsta árs. Ég hugsa að það verði með haustinu. Hugmyndin er þá sú að bæta aðgengi fólks með lögheimili á landsbyggðinni fjarri Reykjavík, að jafna aðgengi að miðlægri þjónustu sem er til staðar í Reykjavík og hefur verið byggð upp þar á undanförnum áratugum, menntamálum, heilbrigðismálum o.fl. Miklar vonir eru bundnar við að þetta styrki umhverfi fólks sem býr á landsbyggðinni og aðgengi að mikilvægri þjónustu.

Mig langar einnig að koma inn á málefnasvið 14 sem er ferðaþjónustan. Framlög til sviðsins hækka um 242 millj. kr., þ.e. 14% að raungildi, frá 2017 þrátt fyrir að dregið sé úr framlögum til Flugþróunarsjóðs um 300 millj. kr. á næsta ári. Skýringin á því er einfaldlega sú að ekki hefur reynst þörf á greiðslum úr sjóðnum í þeim mæli sem ætlað var enn sem komið er. Eftir sem áður verður hægt að úthluta úr sjóðnum og nýta uppsafnaðan afgang fyrri ára til þess. Framlögin hafa að öðru leyti verið nýtt til að efla mjög alla stefnumótun og rannsóknir á málefnasviðinu. Hagsmunaaðilar hafa ásamt ráðuneytinu unnið að framtíðarsýn og leiðarljósi ferðaþjónustu til ársins 2030. Á þeim grunni er nú í vinnslu aðgerðabundin stefnumótun með þátttöku hagsmunaaðila úr ferðaþjónustu, ráðuneytum, stofnunum, sveitarfélögum og öðrum aðilum sem tengjast ferðaþjónustu sem áætlað er að verði tilbúin í mars 2020.

Í áliti meiri hluta fjárlaganefndar um fjármálaáætlunina sl. vor var gerð sú tillaga að verja 25 millj. kr. til að efla rannsóknir í ferðaþjónustu. Á undanförnum árum hefur ferðaþjónustan gegnt lykilhlutverki í gjaldeyrisöflun og haft mikil áhrif á efnahag þjóðarinnar.

Eftirfarandi kom fram í áliti meiri hluta fjárlaganefndar við fjármálaáætlun 2020–2024, með leyfi forseta:

„Sérstaklega er mikilvægt að hafa sem besta yfirsýn yfir það hvernig sætaframboð í flugi um Keflavíkurflugvöll skiptist á milli farþega sem eru annars vegar að fljúga til og frá Íslandi og hins vegar þeirra sem nýta sér tengiflug á milli Evrópu og Ameríku. Um þá þróun þarf að fjalla sérstaklega og áhrif hennar á efnahagslífið og ferðaþjónustuna á Íslandi.“

Nú virðist sú staða vera að teiknast upp að samsetning farþega Icelandair hafi breyst töluvert eftir fall WOW air. Áhersla flugfélagsins hefur verið að draga úr hlut þeirra viðskiptavina félagsins sem hafa nýtt sér tengiflugið um Keflavíkurflugvöll og fjölga þeim farþegum sem fljúga til og frá Íslandi. Miðað við tölur sem voru kynntar vegna uppgjörs þriðja ársfjórðungs hjá Icelandair hafa orðið töluvert miklar breytingar á samsetningu farþega félagsins. Þetta hefur dregið verulega úr áfallinu sem ferðaþjónustan lenti í við fall WOW air.

Þarna má segja að sé enn ein sveiflujöfnunin komin inn í íslenskt efnahagslíf sem tengist því hvert farþegum yfir hafið er beint og þá mögulega til Íslands, enda hafa þessi hlutföll gjörbreyst á allra síðustu mánuðum frá sem var kannski fyrir einu, tveim eða þrem árum.

Ég fagna því líka sem kemur fram undir 6. gr. í breytingartillögum frá meiri hluta fjárlaganefndar þar sem eru nokkrar breytingar. Ég fagna sérstaklega heimild 06.25 sem er að leigja eða kaupa húsnæði sem nýtist sem stækkun á flugstöðinni á Akureyrarflugvelli. Þarna er þá verið að gefa möguleika á því að ríkið geti leigt eða keypt af aðilum viðbyggingu við flugstöðina á Akureyri, sem er mjög ferðaþjónustutengt, til að ýta undir og styrkja gáttina inn til landsins fyrir norðan, um Akureyrarflugvöll, og nauðsyn þess að hafa aðstöðu á flugvellinum þannig að fólk sé ekki að bíða í röð langt út á bílastæðin eða koma til landsins og komast ekki inn í flugstöðina eins og dæmi eru um. Þetta er mikið fagnaðarefni og vonandi náum við að þróa þetta áfram á næsta ári. Það er gott að heimildin kemur frá fjárlaganefnd og vonandi verður þetta samþykkt í fjárlögum fyrir 2020.

Ég vil í lok ræðu minnar minnast á og fagna því að í breytingartillögum fjárlaganefndar er eins og í fyrra varið 18 milljónum til Aflsins á Akureyri sem þjónustar Norðurland og hefur hugmyndir um að þjónusta Austurland meira og betur en gert er í dag þannig að sterkari tenging verði milli Norður- og Austurlands í þessum málum. 18 milljónum er varið til Aflsins í breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar við 2. umr.

Síðan fagna ég því sérstaklega að í fyrsta skipti er veitt fjármagn til geðverndarmiðstöðvar Grófarinnar á Akureyri. Grófin starfar samkvæmt hugmyndafræði valdeflingar þar sem áhersla er á að einstaklingurinn taki ábyrgð á eigin bata og öll vinna fari fram á jafningjagrunni. Hugmyndin byggir á farsælu starfi Hugarafls í Reykjavík. Þetta er í fyrsta skipti sem Grófin geðverndarmiðstöð fær fjármagn af fjárlögum, þ.e. ef breytingartillaga meiri hlutans verður samþykkt í þinginu. Það er mjög jákvætt að sjá að hægt sé að efla þetta starf fyrir norðan, á því starfssvæði.

Það er margt áhugavert sem hefur gerst á þessum árum í efnahagslífinu sem kemur inn í þessi fjárlög. Það urðu skakkaföll í byrjun árs eins og ég kom inn á varðandi fall WOW air, loðnubrest og vandræðin með kyrrsetninguna á MAX-vélum Icelandair. Ég hef í máli mínu hér kannski verið að taka það í stóra samhengi hlutanna hve efnahagslíf okkar hefur breyst ótrúlega mikið á undanförnum áratug, hvort sem litið er til sjávarútvegsins eða stóriðjunnar. Kannski hefur almenningur ekki almennt áttað sig á því hvað gerðist 2006–2010 varðandi stóriðjuna þegar álframleiðsla í landinu jókst um helming og til varð mikil undirstaða fyrir gjaldeyrisskapandi greinar inn í landið. Þetta hefur svolítið fallið í skuggann af því sem gerðist með ferðaþjónustuna sem hefur náttúrlega breytt þessu gríðarlega. Þetta er hin stóra mynd og þess vegna finnst mér erfitt að meta efnahagslega framvindu á Íslandi með sama ljósi og þær sveiflur sem voru hér áður fyrr. Þess vegna er mjög spennandi að rannsaka það sem hefur gerst með þessu gríðarlega innstreymi af gjaldeyri og, eins og ég kom víða við í máli mínu hér, hversu mikil áhrif það hefur haft á mörgum sviðum samfélagsins og í efnahagslífi þjóðarinnar, t.d. í lífeyrissjóðakerfinu. Þrátt fyrir að gríðarlega mikill gjaldeyrir fari úr landi í gegnum fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna hefur ótrúlegur stöðugleiki verið í gengi krónunnar og það er lítið talað um það í hinu stóra samhengi. Það er allt annað jafnvægi yfir hlutunum en við upplifðum hér fyrr á árum þegar tiltölulega vægir efnahagslegir skruðningar gátu valdið miklum truflunum á ríkissjóði og í efnahagslífinu. En þetta er gríðarlega jákvætt og svo sannarlega hefur aginn í kringum lög um opinber fjármál haft mikil áhrif, einmitt til að breyta þessari stöðu. Þetta horfir allt ágætlega.