150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við erum hér að fjalla um fjárlagafrumvarpið eftir umfjöllun í fjárlaganefnd á milli umræðna. Ég ætla að drepa aðeins á nokkur atriði í meirihlutaálitinu. Ég er í fyrsta sinn frá því að ég byrjaði á þingi ekki í þeirri nefnd heldur er þar sem varamaður þannig að maður er að reyna að hafa puttana á púlsinum hvað varðar störfin þar inni. Hér hefur aðeins verið rætt um verklag og annað slíkt og fjallað er um það á fyrstu síðu þessa frumvarps og alltaf eitthvað sem við erum að reyna að finna betur út hvernig við getum gert það sem skilvirkast og best. Það hefur skánað ár frá ári eftir að þessi lög tóku gildi og ég verð að hrósa nefndinni fyrir að 2. umr. geti hafist á þeim tíma sem hún var áætluð. Það hefur verið lenska í fjöldamörg ár að þetta hefur dregist en bæði kom frumvarpið mjög tímanlega fram og við fengum tíma til að lesa það og skoða áður en 1. umr. hófst og svo kemur þetta núna á hárréttum tíma. Ég held að það sé mjög gott.

Félagar mínir í meiri hlutanum hafa farið vítt og breitt yfir og ég ætla rétt að stikla á stóru því að fleiri eru á eftir sem ætla að taka fyrir einstaka þætti og mér er ekkert í mun að tala neitt sérstaklega lengi. Það eru samt þessar helstu áherslur sem koma hér fram, sem eru markvissar skattalækkanir og breytingar á tekjuskatti sem mér finnst vert að nefna og á að innleiða á skemmri tíma en gert var ráð fyrir í upphafi og ekki bara það heldur eru breytingarnar þess eðlis að tekjuskattsþrepin eru samræmd og eru þá bæði miðuð við vísitölu neysluverðs og koma þar af leiðandi betur við alla. Bilið gliðnar ekki eins og það gerði áður.

Tryggingagjaldið er að lækka. Það hjálpar atvinnurekendum til að gera betur og standa við kjarasamninga. Fæðingarorlofið lengist á tímabilinu úr níu mánuðum í tíu. Það er eitt af baráttumálum okkar Vinstri grænna sem við höfum talað fyrir mjög lengi sem og að framlag til barnabóta eykst og stofnframlög til íbúðarbygginga hækka líka verulega. Og eins og hér hefur verið rakið verður farið í töluverðar fjárfestingar hins opinbera á komandi árum. Við stöndum frammi fyrir því að frumvarpið er í halla. Maður sér að lögin eru að virka eins og maður hefði viljað sjá þau virka, þ.e. sveigjanleiki er til staðar sem gerir ráð fyrir því að við getum innan þessa ramma farið í mínus ef það er það sem þarf í svona litlu samfélagi þar sem tekjur sveiflast töluvert.

Afkomumarkmiðin sem koma fram í stefnu ríkisstjórnarinnar eru einmitt til þess fallin að leyfa þessum sjálfvirku sveiflujöfnurum að virka á meðan við erum að ná okkur upp úr þeirri lægð sem varð hér eins og við þekkjum, m.a. sökum falls WOW, loðnubrests og annarra utanaðkomandi þátta sem við ráðum lítið um. Ég held að þetta sé af hinu góða en við þurfum samt sem áður að mínu mati enn frekar að horfa til þess að laga lögin. Ég ætla samt ekki að fara út í það.

Forsendurnar byggjast á þjóðhagsspá Hagstofunnar eins og ævinlega þó að við horfum til fleiri spáa. Þær hafa breyst svolítið hratt, eðli máls samkvæmt kannski, í ljósi þess sem hér hefur gengið á. Samt er það ekki meira en svo að þrátt fyrir að lækkun hagvaxtarspár fyrir næsta ár sem átti að vera 2,6% en fari í 1,7% voru margir sem spáðu því að það gerðist ekki svona hratt eins og þó er gert ráð fyrir hér. Þær aðgerðir sem hér eru lagðar til eru samkvæmt þeim hagspám sem ansi margir gefa út, eins og ég sagði áðan, til þess fallnar að auka ráðstöfunartekjurnar hjá heimilunum og örva eftirspurn með lækkun skatta og auknum tilfærslum sem felast í tryggingum, atvinnuleysisbótum og fleiru. Seðlabankinn áætlar að þetta muni skila um 0,5% framlagi til hagvaxtar og 2% í einkaneyslu á árunum fram undan, 2020–2022.

Þær breytingar sem hér eru gerðar á afkomu ríkissjóðs eru fjölmargar en þó ekki. Það er svolítið um hagrænar tilfærslur eins og gjarnan gerist á milli umræðna en þó eru hér líka viðbætur og annað slíkt, m.a. vegna Fæðingarorlofssjóðs, ekki bara vegna lengingarinnar heldur þeirrar jákvæðu fréttar að fleiri foreldrar nýta sér réttindin í sjóðnum. Við hljótum öll að gleðjast yfir því.

Útgjaldaaukningin hjá ríkissjóði frá því að ríkisstjórnin tók við 2017 hefur aukist í kringum 158 milljarða sem eru tæp 19% að raungildi.

Ég ætla aðeins að koma inn á örfá málefnasvið. Ég verð að minnast á sýslumennina sem ég hef ævinlega talað töluvert mikið fyrir. Hér er 150 millj. kr. hækkun sem við lögðum til við fjármálaáætlun sl. vor gerð varanleg til að setja inn í rekstrargrunn embættanna. Talað er um að það geti samt sem áður tekið þrjú til fjögur ár að koma þessum málum í höfn og úthluta á peningunum í samræmi við rekstraráætlanir og árangur sem embættin ná við endurskipulagningu á starfseminni. Við verðum þó að hafa í huga að nú þegar hafa þau mörg skorið ansi mikið niður og við þurfum að gæta að þessum opinberu störfum í héraði.

Það er gríðarleg aukning í samgöngumálin og frá sama tíma nemur aukningin tæplega 12 milljörðum, þ.e. 32% að raungildi. Það var orðin og er gríðarlega mikil uppsöfnuð þörf, ekki bara í samgöngum heldur margs konar innviðum, hvort sem það tekur til hafna eða annarra þátta.

Töluvert var aukið til ferðaþjónustusviðsins. Hagsmunaaðilar hafa unnið ásamt ráðuneytinu að því að sjá fyrir sér og reyna að búa til eitthvert leiðarljós til framtíðar, a.m.k. til næstu tíu ára. Í áliti okkar um fjármálaáætlun sl. vor voru lagðar til 25 millj. kr. til að efla rannsóknir í ferðaþjónustu sem ég tel að þurfi að gera enn meira af vegna þess að það er þetta sem hefur haldið okkur á floti í gjaldeyrisöflun og haft gríðarleg áhrif á okkar efnahag.

Ég ætla ekki að fara djúpt umhverfismálin vegna þess að ég geri ráð fyrir því að Ari Trausti Guðmundsson fari svolítið ofan í þann málaflokk enda heyrir hann undir hans nefndarvinnu í þinginu. Ég verð þó að segja að það er gríðarleg aukning í þessu og hefur aldrei verið meiri, enda komumst við ekki hjá því að setja í þetta mikla peninga. Það hefur í heildina aukist um rúm 24% að raunvirði það sem af er kjörtímabilinu og við stefnum á að bæta enn frekar við enda verðum við að gera það.

Ég ætla aðeins að tala um skólamálin. Framhaldsskólinn fær tæpa 34 milljarða á næsta ári. Það er örlítil raunaukning enda var eins og við þekkjum námið stytt úr fjórum árum í þrjú og færri nemendur eru í skólunum. Ég tel samt ástæðu til að horfa betur til einstakra skóla. Sumir skólar virðast koma ágætlega út á meðan aðrir koma síður út úr þessu. Það er enn við að eiga innri leigu sem virðist vera á einhverju reki í ráðuneytin úr þeim samskiptum sem skólarnir eiga við ráðuneyti. Ég verð að hvetja ráðherra málaflokksins til að huga betur að því og nefni hér sérstaklega verkmenntaskólana í mínu kjördæmi, á Austurlandi og á Akureyri, til að koma til móts við það sem þar er undir ef við ætlum að standa undir því nafni að efla iðn- og starfsmenntun.

Það er líka aukning til háskólanna ef við tökum frá leiðréttingar vegna LÍN. Ég verð spennt að sjá hvernig þingið afgreiðir hið nýja frumvarp um stuðningskerfi fyrir námsmenn. Ég held að það sé kærkomin breyting fyrir alla þá sem stunda nám að geta afgreitt það frumvarp og til mikilla bóta að fara í samtímagreiðslur og fá niðurfelldan hluta af lánunum.

Það er sama með heilbrigðismálin og kannski í umhverfismálunum, miklir fjármunir hafa verið settir í heilbrigðismálin og áfram ætlum við að bæta í heilsugæsluna vegna þess að við viljum sjá til þess að það verði fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu. Hér eru settar 200 milljónir í viðbót við það sem áður hefur verið bætt við sem eru sérmerktar því verkefni. Það þarf að horfa á þetta til lengri tíma af því að um leið og heilsugæslan verður öflug erum við líka að létta álagi af sjúkrahúsunum. Það hlýtur að vera það sem við stefnum að, að geta afgreitt á fyrsta stigi sem allra flest en að ekki fari allir á bráðamóttöku með veikindi sem hægt er að leysa á heilsugæslunni.

Áfram er lögð áhersla á uppbyggingu geðheilsuteymanna um allt land. Á þessu ári voru settar 650 milljónir til rekstursins og nú verða settar 100 milljónir til viðbótar, m.a. til að mæta enn frekar þeirri þörf sem við þekkjum að er gríðarlega mikil þar. Það er sama þar, um leið og þetta fer allt að ná einhverjum styrk léttir það á öðrum kerfum. Það á að styrkja heilsugæsluna hvað varðar aldraða sérstaklega til að innleiða þá heilsueflandi heimsóknir. Það held ég að sé líka mjög brýnt. Þar er margt undir sem getur orðið til þess að létta eldri borgurum lífið og auðvitað líka bara til að styðja við heilsufarslega séð, andlega og líkamlega.

Heilbrigðisþjónusta fanga, þar er sérstaklega geðheilbrigðisþjónustan. Þar er viðbótarframlag upp á 90 milljónir og áhersla lögð á að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga. 300 milljónir eru settar í það því að það er auðvitað afgerandi þáttur til að jafna aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu. Það á að reyna að fjölga dagdvalarrýmum fyrir fólk með heilabilun og sveigjanlegri dagdvöl, sambærilegri þeirri sem var opnuð á Akureyri á þessu ári. Áfram verður haldið með uppbyggingu hjúkrunarrýma en við þekkjum það líka að það tekur allt saman tíma og þegar málin verða komin í þann farveg sem þeim er ætlað held ég að þetta standi hvert með öðru.

Það kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að nefndin hafi skoðað Landspítalann sérstaklega og frá því í vor hefur verið farið vel yfir stöðu spítalans. Framlög til sjúkrahúsþjónustunnar hafa frá 2017 aukist um 13 milljarða, þ.e. 14%. Við þekkjum að það er aldrei einhver einhlít skýring á því hvað veldur því að staðan er eins og hún er. Það er hjúkrunarþyngdin, mönnun o.s.frv. en það er verið að reyna að ræða þetta og fara yfir og við verðum að vona að við náum einhvern veginn utan um þetta.

Við höfum rætt hjúkrunarheimilin gríðarlega mikið í fjárlaganefnd og ég heyri að svo hafi einnig verið nú, ég sé í nefndarálitinu að það er áframhaldandi umræða um þau, ekki síst rekstur þeirra. Hann er afskaplega misjafn og við höfum í gegnum tíðina fengið afar ólíkar myndir í fjárlaganefnd af rekstrinum og byggingunni og því hvernig þetta allt saman lítur út. Það er augljóslega hægt að gera betur þarna. Hér er t.d. lögð fram hugmynd um að það þurfi að skoða nýjar lausnir, bæði um nýtingu og hagkvæmni húsnæðis, þegar verið er að byggja slík heimili. Undir það get ég tekið. Það er skrýtið að hlusta á aðila koma fyrir nefnd sem eru með sambærileg heimili en það er gerólíkur rekstur.

Því miður gerðist það aftur, eins og síðast, varðandi nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar, að Rannsóknasjóðurinn var skorinn niður. Hér eru lagðar til 50 milljónir til rannsókna. Ef við ætlum að standa okkur í stykkinu til framtíðar, standast samkeppni, held ég að þetta sé eitt af því sem er alveg nauðsynlegt að hlúa vel að.

Það er margt annað sem ég gæti farið ofan í en ég ætla bara að stikla á mjög stóru. Hér eru sveitarfélögin, jöfnunarsjóður, löggæslan og annað slíkt undir. Svo er hér fjallað um samstarfsverkefni sem við skuldbundum okkur til að vinna, þ.e. milli landbúnaðarráðuneytisins annars vegar og heilbrigðisráðuneytisins hins vegar, þar sem verið er að veita fjármuni til að hægt sé að ráðast í þriggja ára átaksverkefni þar sem markmiðið er að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería en það mál komu upp þegar úrskurðað var samkvæmt dómi að við þyrftum að gangast undir innflutning á ófrosnu kjöti.

Talandi um umhverfismál verðum við að taka svo margt saman. Það er ekki bara landgræðsla, skógrækt og votlendi, það er svo ótrúlega margt annað sem er þar undir. Í lið 15, í orkumálunum, er gert ráð fyrir 50 milljóna tímabundnu framlagi vegna orkuskipta á Kili. Það er til viðbótar við það sem er á bls. 25 og er nú þegar í frumvarpinu.

Mig langar aðeins að nefna áður en ég hætti örfá atriði sem fjárlaganefnd hefur tekið upp á sína arma og gerð hefur verið grein fyrir í nefndaráliti oft og mörgum sinnum, að einhvern veginn gengur illa að fá ráðuneytin mörg hver til að taka þetta til sín og gera einhvers konar samninga. Rannsóknastöðin á Rifi fær 10 milljóna tímabundið framlag sem er á Raufarhöfn og hefur verið í gríðarlega miklu rannsóknastarfi og er eitt af því sem maður getur talað um sem opinbert starf í hinum dreifðu byggðum. Þetta er líka brothætt byggð þannig að það er mikilvægt að halda úti þessum störfum. Ég hef haft þá skoðun að starf þessarar stofnunar hafi tengingu í ansi mörg ráðuneyti. Ég er svona einföld kona, mér hefur ekki þótt það flókið mál þó að fjögur ráðuneyti settust niður og gerðu með sér samstarfssamning upp á örfáar krónur í svona starf en stjórnkerfið virðist augljóslega mjög ferkantað og getur átt afar erfitt með að horfa út fyrir kassann til að búa svona til. Það er nokkuð sem mér finnst að þurfi að breytast.

Ég ætla aðeins að fara inn liðinn menningu, listir, íþrótta- og æskulýðsmál. 6 milljónir eru settar til Flugsafns Íslands. Þar er nýtekinn við forstöðumaður og ég held að þetta sé eitt af því sem skipti miklu máli, að viðhalda sögunni okkar. Það er líka 20 millj. kr. framlag til Vínlandsseturs í Búðardal, 8 millj. kr. framlag til endurbóta og uppsetningar Ólafsfjarðarstofu á efri hæð Pálshúss í Ólafsfirði.

Síðan er hér það sem kannski tilheyrir skólamálunum og mér finnst ástæða til að nefna, að 30 milljónir eru settar til MR og til MA vegna þess að þeir eru að ljúka styttingarferlinu og það hefur tekið gríðarlega á hjá þessum skólum sem hafa verið frekar fastir í sínu formi. En allt er þetta að hafast.

Hér eru settar um 20 millj. kr. til Framhaldsskólans á Laugum. Eins og ég nefndi áðan varðandi húsnæðisliðinn eru fleiri skólar sem þarf að skoða með tilliti til þessa.

Hér eru lagðar til 30 millj. kr. til Austurbrúar. Þar vil ég líka segja að ráðuneytið á að taka þetta til sín og á að gera langtímasamning. Við erum með slíka samninga úti um allar koppagrundir og það er mjög sérstakt að eitthvert eitt apparat sem þjónustar, eins og í þessu tilfelli, yfir stórt landsvæði, hefur sýnt framúrskarandi rekstur síðustu ár, hefur tekið vel utan um stóran fjórðung, og sameinar mjög margt undir og er ákveðið fordæmi sem kannski margir aðrir mættu taka til sín en einhverra hluta vegna hefur ráðuneytið ekki tekið þetta til sín með þeim hætti sem þarf að gera.

Bæði LungA á Seyðisfirði og Lýðskólinn á Flateyri fá hér hvor um sig 15 millj. kr. framlag og það er vegna þess að ekki hefur tekist að klára þetta. Við samþykktum frumvarp á vordögum um lýðskóla og það tekur ákveðinn tíma að forma það og koma því í gegn en ég vona að á næsta ári þurfum við ekki að sjá þetta hér í nefndaráliti meiri hluta eða minni hluta fjárlaganefndar heldur verði þetta komið í það form sem það frumvarp ætlaði.

Með sjúkrahúsþjónustuna er í ljósi breytinga sem gerðar voru verið að færa af lið sjúkratrygginga til Sjúkrahússins á Akureyri vegna heimahlynningar. Það eru 54 milljónir til að styrkja rekstrargrunninn og jafnframt er gerð tillaga um viðbótarheimild vegna sjúkraflutninga og flugsins enda ekki vanþörf á.

Virðulegi forseti. Nú ætla ég að fara að hætta. Ég ætla samt að segja hérna allra síðast að eitt af því sem ég vil líka að félagsmálaráðherra taki til sín er Aflið á Akureyri sem gerð er tillaga um að fái 18 milljónir. Þetta er sambærilegt úrræði og Stígamót eru hér sem þurfa ekki að sækja inn til okkar til fjárlaganefndar heldur eru fjármögnuð. Við erum með sambærilega þjónustu í fjórðungum og þá á ein stofnun ekki alltaf að þurfa að sækja til fjárlaganefndar á meðan önnur fær afgreiðslu innan ráðuneytis.

Ég verð líka að segja að það gleður mig mjög að fjárlaganefnd hafi tekið ákvörðun um að veita Samtökunum '78 20 milljónir. Mér fannst það afskaplega vel gert. Ég held að það sé starf sem við eigum að styðja mjög við, enda erum við líka nýbúin að samþykkja frumvarp um kynrænt sjálfræði sem væntanlega getur líka haft áhrif til þess að það verður enn meira að gera hjá þessum samtökum.

Að lokum er það Grófin á Akureyri, geðverndarmiðstöð, sem fær 12 millj. kr. framlag. Þau hafa ekki sótt til fjárlaganefndar áður vegna þess að þau hafa átt eigið fé og hafa gengið á það. Nú er það uppurið. Það er alveg ljóst að þessi framlög eru öll bara til eins árs og það er að mörgu að hyggja til að tryggja rekstur þessarar starfsemi sem léttir á dýra heilbrigðiskerfinu og dýra félagslega úrræðinu. Það er ár fram undan til að sjá til þess að þau úrræði sem við erum búin að leggja fjármuni í fái fastan sess í ráðuneytum.