150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:50]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir yfirferð hennar og sýn — og þá sýn Vinstri grænna í fjárlaganefnd. Mig langaði aðeins að koma hingað upp til að spyrja hv. þingmann út í afstöðu hennar til breytingartillögu sem fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd hefur lagt fram er snýr að þeim tíðindum sem bárust á síðustu klukkutímum er varða framkomu Samherja í Namibíu. Breytingartillaga við fjárlögin lýtur að því að styrkja þær stofnanir sem þurfa nú að henda nánast öllum sínum verkefnum til hliðar til að hefja rannsókn á þeim málum, auk þess að sinna öllum þeim verkefnum sem þeim eru falin, þ.e. skattrannsóknarstjóra annars vegar og héraðssaksóknara hins vegar. Það liggur fyrir að starfsmönnum héraðssaksóknara hefur fækkað jafnt og þétt og hefur fjárveitingavaldið ekki hlýtt á bænaköll þaðan þar sem þau hafa óskað eftir að fá frekara fjármagn til starfsins. Starfsmönnum hefur fækkað mjög mikið og þeir lögreglumenn sem nú annast efnahagsbrotamálin hjá héraðssaksóknara eru einungis 30, en starfsmenn sérstaks saksóknara voru um tíma 110 og hefðu þurft að vera 150.

Ég vil bara heyra afstöðu hv. þingmanns, hvort hún hyggist styðja þær tillögur sem komu fram um aukafjárveitingar til embættis héraðssaksóknara annars vegar og skattrannsóknarstjóra hins vegar.