150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:52]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég verð samt að byrja á að segja að ég er ekki fulltrúi Vinstri grænna í fjárlaganefnd. Það er Steinunn Þóra Árnadóttir. Ég hef hins vegar verið þar fram til þessa hausts. Varðandi þetta afskaplega dapurlega mál sem við heyrðum flest af í gærkvöldi og höfum haft tækifæri til að sjá og heyra af í dag birtist afstaða mín í sjálfu sér í atkvæðagreiðslu. Hún kemur bara í ljós þegar við greiðum atkvæði. Ég ætla svo sem ekkert að gefa hana upp fyrir fram.

Það er alveg ljóst að þetta veldur auknu álagi, ég tek undir það með hv. þingmanni. Þetta veldur auknu álagi á þessi embætti og það getur vel farið svo að það þurfi að huga að því, hvort sem það er gert núna eða síðar. Ég verð að játa að ég þekki ekki nákvæmlega hvernig fjárhagsstaða embættanna er. Ég veit ekki til þess að þau hafi leitað á náðir fjárlaganefndar eða hafi fengið synjun í ráðuneytinu eða neitt slíkt, eins og hv. þingmaður gefur til kynna, ef ég skil hana rétt. Þau hafa ekki borið það á borð fyrir fjárlaganefnd, ég held að það sé alveg rétt hjá mér. Ég hef nú lesið umsagnirnar nokkuð vel.

Þegar svona risamál koma upp lenda þau óhjákvæmilega á kerfinu okkar með einhverjum hætti og við þurfum bara að taka það til skoðunar. Það getur vel verið að það verði gert á milli umræðna eða eitthvað slíkt, að fólk þurfi að átta sig betur á stöðunni hjá embættunum, hvort þurfi að bæta eitthvað í. Ég er ekki viss um að það takist fyrir morgundaginn en þá er alltaf hægt að skoða það í framhaldinu.