150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:56]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar og reyni að gera mitt besta. Í meirihlutaálitinu kemur ágætlega fram að nefndin hefur lengi haft til umfjöllunar málefni Landspítalans og búið er að setja gríðarlega aukna fjármuni þar inn. Það er alveg rétt, eins og ég nefndi áðan, að það tekur töluverðan tíma fyrir kerfið að fara að fúnkera almennilega. Við erum að setja mikla peninga í heilsugæsluna til að gera hana að fyrsta viðkomustað, við erum að gera það úti um allt land, þannig að við erum að reyna að draga þjónustuna þangað inn, eins og ég sagði í ræðu minni, sem á ekki heima á bráðamóttöku eða einhvers staðar en allt tekur þetta tíma. Samt hafa 13 milljarðar farið til viðbótar frá árinu 2017. Það eru gríðarlega miklir fjármunir sem hafa farið í sjúkrahúsþjónustuna og nefndin er búin að kanna t.d. starfsmannakostnað Landspítalans 2014–2018. Laun og annar starfsmannakostnaður hefur hækkað um rúma 19 milljarða á því tímabili og það er 55% hækkun á fjórum árum. Launavísitalan hækkaði á sama tíma um 36%. Ársverkunum fjölgaði úr 3.700 í 4.300, um 15%, og ef þeim hefði ekki fjölgað væri hlutfallsleg hækkun starfsmannakostnaðar í samræmi við þróun launavísitölunnar, eins og segir í nefndarálitinu. Hér er verið að leggja áherslu á að það þurfi að greina þetta. Þetta er ekki bara það að við erum með aukna öldrun sem kemst ekki í hjúkrunarrými o.s.frv. Þarna undir eru margir þættir sem þarf að fara yfir. Svo er ágreiningurinn eins og við þekkjum um kostnaðarmat kjarasamninga sem liggur fyrir. Við höfum sett mikla fjármuni og bætt við í heilbrigðisþjónustu. Við í fjárlaganefnd settum 400 milljónir í heilbrigðisstofnanir á síðasta ári sem var svo gert varanlegt þannig að við erum búin að bæta heilmikið í (Forseti hringir.) en eins og ég segi tekur þetta tíma áður en þetta fer að virka eins og við viljum að það virki.