150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:29]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég býst við að ég flytji hér styttri gerð af ræðu, hef reyndar tengt það svolítið við breytt fyrirkomulag sem ég myndi vilja sjá af þessari umræðu yfir höfuð. Ég hjó eftir því að hv. þm. Helga Vala Helgadóttir ræddi um umræður, að við værum hér að ræða, og að þær væru svo sem ekki leiðinlegar. Ég tek alveg undir að þær eru það ekki en umræður þyrftu að hafa fleiri þingmenn í salnum en verið hefur undanfarnar klukkustundir. Hér er einn og tveir og þrír þingmenn í sal. Þessar umræður eru allar skráðar og eru líka sendar út en það væri hægt með öðru fyrirkomulagi, ég ætla ekkert að fara út í hvernig það gæti verið. Það væri þannig að hér væru líflegri umræður með fleiri þátttakendum og meiri skoðanaskiptum en verða með klukkutíma eða 40 mínútna ræðum, svo það sé sagt.

En við erum öll inni á því að þessar umræður séu mikilvægar og þær verða þá að fara þannig fram að það sé um raunverulegar umræður að ræða. Andsvörin eru fín en ég er að biðja um styttri og fleiri ræður. En gott og vel.

Það hefur verið stöðug hækkun ríkisútgjalda, um rúmlega 150 milljarða á allnokkrum undanförnum árum. Það er mjög auðvelt að útskýra hluta af því með auknum mannfjölda og ýmissi annarri þróun sem hefur farið fram. Það eru aukin verkefni sem að okkur snúa, ég nefni bara umhverfismálin og almannatryggingar. Það er annað sem kemur við sögu líka, vaxandi áhugi og vaxandi þungi á samfélagsrekstri, meiri samneyslu, og það er atriði sem ég sem sósíalisti styð. Ég er mjög ánægður með að núverandi ríkisstjórn hagi sér nákvæmlega þannig.

Samdráttarskeiðinu sem við göngum núna í gegnum er mætt með hallarekstri upp á 0,3% af vergri þjóðarframleiðslu sem er vart gagnrýnivert vegna þess að þetta er svo lág tala og hún skýrist af auknum framlögum, eins og ég nefndi, til sameiginlegra verkefna landsmanna og til kjarabóta af ýmsu tagi, enda þótt auglýst sé eftir meiri kjarabótum, sem ég styð einnig en tel að þurfi að koma fram á lengri tíma en oft er talað um. Á svona tímum er rétt að auka opinberar fjárfestingar. Það eru til ólíkar hagfræðikenningar um það en mjög margir líta svo á að þetta séu rétt viðbrögð við samdráttartímum. Þær fjárfestingar eru að fara í mjög brýn samgöngumál á öllum sviðum samgangna, fara líka til aukinna framlaga til félagslegra umbóta og ýmissa innviða. Þarna koma mjög sterkt inn þær rúmu 2 milljónir ferðamanna sem koma hingað og eru íbúar landsins í svo og svo langan tíma. Það liggur í augum uppi að ríkisútgjöld aukast af þeirra völdum.

Það er afar jákvætt að á því tímabili sem þessi fjárlög ná yfir verður áfram haldið niðurgreiðslu skulda, í kringum 70 milljarða. Ég hef hins vegar stundum hugsað sem svo að hægt væri að nýta hluta af þessu í uppbyggingu gagnlegra fjárfestinga, jafnvel eingreiðslna, t.d. í loftslagsmálum, því að þær eru þegar allt kemur til alls, þó að þær séu eingreiðslur, fjárfesting í mjög mörgum tilvikum. Það mætti líka hugsa sér að klípa af hagnaði ríkisfyrirtækja til þess arna. Ég minni á upphæðir í öllu þessu samhengi. Við erum að tala um í fyrsta skipti að ríkisfjármálin, tekjur og útgjöld, hafi náð upp yfir 1.000 milljarða markið. Um það bil fjórðungur af þessari upphæð, langstærsti liður fjárlaga, gengur til heilbrigðismálanna. Þar er margt vel gert í frumvarpinu en bæta þarf enn frekar í. Búið er að rekja í mörgum ræðum hvort það eru hjúkrunarrými, spítalar á landsbyggðinni, heilsugæslur, geðhjálp o.s.frv. og við þurfum vissulega að horfa til þess á næstu fjárlögum hvernig það verður kleift.

Önnur grunnþjónusta, svo sem menntamál, almannatryggingar og samgöngur, tosa útgjöldin vel yfir helming þess sem til reiðu er, langt yfir 500 milljarða, þannig að þegar upp er staðið höfum við sem sagt fáein hundruð milljarða króna til að sinna öllum opinberum framlögum utan þessara grunninnviða og grunnþjónustu sem ég hef nefnt og um það snúast hundruð bundinna framlaga, samningsframlaga og óska um ný framlög eða hækkuð framlög. Þá kemur að því vandaverki að forgangsraða, að því vandaverki sé haldið til haga, vegna þess að það er alveg augljóst að þegar svona er komið verða út undan mjög mörg misbrýn verkefni samt sem áður. Í þessum fjárlögum sýnist mér hafa tekist þokkalega til en er þó með þann fyrirvara að afla þarf meiri tekna. Það þarf að auka tekjur ríkisins enn með þeim fyrirvara að vissulega má hagræða víða og loks með þeim fyrirvara að nauðsyn krefst hærri framlaga í brýna málaflokka á borð við umhverfismálin og skólamál, menningarsetur svo ég nefni eitthvað, og jafnvel til kynningar á íslenska hestinum erlendis eins og ég sá nýtt erindi um.

Ég ætla að víkja lauslega að fimm málasviðum sem ég annaðhvort vinn við eða tel mér sérlega skylda og byrja á nýsköpun, rannsóknum og þekkingargreinum. Þar hefur verið bætt við á tveimur síðustu árum tæpum 2 milljörðum kr., þ.e. þessi liður hefur verið aukinn um 15%. Það finnst mér ágætlega að verki staðið en auglýsi vissulega eftir enn hærri upphæðum vegna þess að sérstaklega nýsköpun og grunnrannsóknir í öðru lagi eru lykilatriði og minni um leið á að þessi upphæð er í raun hærri en hér segir vegna framlaga fyrirtækja og erlendra sjóða. Við þurfum að horfa fram á veginn og auka í þegar lag er, sérstaklega ef ríkisfjármálin taka nú kipp vegna aukinnar hagsældar. Inn í þetta spilar svo ný matvælastefna og ný nýsköpunarstefna, hvort tveggja sóknarfæri sem bera þess merki að samfélagið er að breytast og iðnaður á Íslandi er að breytast því að í matvælastefnunni felast tækifæri til orkufreks iðnaðar á sviði matvælaframleiðslu og í nýsköpunarstefnunni felast tækin til þess að geta gert það. Ég er hér að tala t.d. um bæði ylrækt og fiskeldi.

Mig langar að víkja aðeins að samgöngum. Þar hafa framlögin síðustu tvö árin aukist um nærri 12 milljarða sem eru 32%, þ.e. þriðjungur, og aðeins á næsta ári er aukningin 4 milljarðar. Árið 2020 fara 10,5 milljarðar í viðhald og í stofnvegaframkvæmdir 16,5 milljarðar. Þetta eru yfir 30 milljarðar allt í allt og það er vel í lagt. Það hefur verið stöðug aukning í samgöngur frá 2010 en aldrei sem nú eftir að núverandi ríkisstjórn tók við. Lykilatriðin í þessum efnum eru þessi nýja samgönguáætlun, sem hefur þurft að leggja gríðarlega vinnu í vegna eðlilegrar endurskoðunar frá síðustu samþykkt þings. Þar kemur inn í höfuðborgarsáttmálinn svokallaði sem er tímamótasamþykkt. Þar inn í koma almenningssamgöngur sem er síaukin áhersla á. Þar inn í kemur flugið sem flestar athugasemdir eða flestar umsagnir snerust um. Þar þarf að endurskoða stefnuna frá grunni og verið er að móta flugstefnu eins og allir vita og styrkja innanlandsflugið sem slíkt, þ.e. það sem snýr að farþegunum, gjaldahliðina, og eins alla flugvelli í landinu sem skipta máli. Þar komum við að Isavia, þessu ríkisfyrirtæki sem hefur sett fram sínar hugmyndir um flugþjónustu á Keflavíkurflugvelli sem snýst um allt að 20 milljónir farþega árið 2040 og 10 milljónir farþega til landsins á þeim sama tíma. Þar hef ég lagt mikla áherslu á að við þurfum að marka okkur þolmörk ferðaþjónustunnar yfir höfuð á Íslandi. Það gildir hið sama um hana og fiskveiðar eða hvað annað að þolmörk eru til, íslenskt samfélag með sínar 300.000–400.000 sálir á næstu árum eða áratugum getur ekki tekið við óendanlega mörgum farþegum, hvorki sem skiptifarþegum né farþegum innan lands, þannig að við þurfum virkilega að huga að því hvað ferðaþjónustan á að vera stór hluti af íslensku samfélagi, félagslega, náttúrufarslega og efnahagslega. Við ætlum ekki að verða iðnaðarsamfélag eins og var í gamla daga.

Inn í þetta spila svo innlend flugvallamál, m.a. varaflugvellirnir sjálfir og svo aðrir flugvellir sem þurfa að vera í góðu lagi, bæði þeir sem eru notaðir mest í innanlandsfluginu og aðrir sem eru notaðar m.a. í sjúkraflugi. Þar hefur komist til tals svokallað varaflugvallagjald sem menn hafa talað um að sé jafnvel á bilinu 100–200 kr. sem myndi þá leggjast sem innheimtugjald á flugmiða sem kosta, eins og flestir vita, þúsundir ef ekki tugþúsundir króna. Ég lít svo á að enginn fótur sé fyrir þeirri gagnrýni að þetta yrðu íþyngjandi álögur fyrir ferðaþjónustu vegna þess að þó að bætist á farmiða, sem kostar þúsundir eða tugþúsundir, 100–200 kr., við skulum bara segja einn dollari, er það ekki til þess að íþyngja ferðaþjónustunni eða flutningsfyrirtækjum eða gera það að verkum að við værum að gera ferðaþjónustunni á Íslandi stóran grikk.

Þetta varðar líka hafnir. Þar er kallað á nýframkvæmdir, í Þorlákshöfn, Sauðárkrókshöfn og Sandgerðishöfn, svo ég nefni einhver dæmi. Á öllum þessum sviðum, hvort það eru vegirnir úti á landi, vegir og götur í höfuðborginni, almenningssamgöngurnar almennt séð, flugið eða hafnirnar, þarf að standa vel að verki og sjá til þess að samgönguáætlunin verði sú metnaðarfyllsta sem nokkurn tímann hefur sést.

Ég ætla að víkja aðeins að ferðaþjónustu. Það tengist því sem ég nefndi áðan. Við höfum ákveðið að fresta um stund einhvers konar innkomugjaldi í landið sem var metið upp á 2–3 milljarða á ári. Það þýðir þá jafnframt að varaflugvallagjaldinu sem ég nefndi á ekki að fresta eða falla frá því líka. Það verður að afla fjár til að flýta fyrir sjálfbærni ferðaþjónustu á Íslandi. Hún er ekki sjálfbær. Það verður að afla fjár til að flýta uppbyggingunni sem gerir okkur kleift að taka við 2,5–3,5 milljónum, jafnvel hærri tölu, farþega eða gesta til landsins á næstu árum. Núna er staðan þannig að syndir forfeðranna, þ.e. allt sem fór aflaga meðan ekki var brugðist við fjölgun ferðamanna nógu hratt, og það sem er í vændum er þess eðlis að þær fjárveitingar sem nú ganga til ferðaþjónustu eða uppbyggingar vegna ferðaþjónustu eru hreint ekki nægar. Þetta tengist svo aftur því sem ég nefndi áðan, þ.e. þolmörkum ferðaþjónustunnar á Íslandi. Við erum komin núna með sjálfbærnivísa sem hæstv. ráðherra ferðamála gekkst fyrir að yrðu búnir til þannig að við getum farið smám saman að marka okkur þolmörk sem eru auðvitað ekki algild heldur þróast eftir því sem innviðirnir þróast. Þessi þolmarkaákvörðun verður að fara fram og nú er verið að endurbæta stefnu í ferðaþjónustu og hún á að liggja fyrir í mars 2020.

Þá að umhverfismálum. Þar er verið að bæta við 1,4 milljörðum, þ.e. ef tekið er tillit bæði til verðlags- og launabóta, þannig að á árunum 2019–2020 bætast 1.400 milljónir við þær upphæðir sem fyrir eru. Frekari aukning er einnig í þessum fjárlögum því að verið er að auka framlög til innviðarannsókna og vöktunar á svæðum sem tengjast íslenskri náttúru. Þó að ég geti fullyrt að ég vilji gera betur er þetta ásættanlegt ef við getum lofað okkur því sjálfum að stöðug hækkun þessara framlaga sé eitt af brýnustu málum samtímans. Upphæðirnar verða að hækka þegar á þarnæsta fjárhagsári og svo áfram fram til 2030 svo við getum staðið við Parísarsamkomulagið og til 2040 svo við getum staðið við það metnaðarfulla markmið að Ísland verði kolefnishlutlaust. Þetta kostar átak ríkis, fyrirtækja, sveitarfélaga og almennings. Við getum flestöll á einhvern máta hjálpað til, getum lagt af mörkum sjálfboðavinnu, launaða vinnu, breytta hegðun í samgöngum og ný viðmið, auk fjármagns. Þegar ég segi ný viðmið er ég að leggja áherslu á t.d. hringrásarhagkerfi, sem sumir kalla velsældarhagkerfi, á endurnýtingu efna, alls sem við látum frá okkur eftir notkun. Auðlindir jarðar eru takmarkaðar og löngu er búið að sýna fram á að 50–90% endurvinnsla eða endurnýting allra hráefna eða notaðra efna er grundvöllur undir það að mannkynið geti verið hér næstu aldirnar. Þetta tengist líka minni neyslu. Þess vegna var ég að tala um að fólk gæti sýnt af sér breytta hegðun. Ég nefni sérstaklega hringrásarhagkerfið vegna þess að það er fleira til hagsbóta en krónan ein, við getum bara nefnt félagslegar framfarir, lýðheilsu, betra umhverfi og styttingu vinnuviku því að sífelldur hagvöxtur er í mótsögn við takmarkaðar auðlindir jarðar. Einnig minnum við á að þessi sífelldi hagvöxtur er í raun innrammaður af mannkyni sem líka hefur sín takmörk hvað fjölda varðar því að jörðin hefur sín þolmörk, hvort sem þau eru félagsleg eða náttúrufarsleg.

Allt er þetta í ljósi lífsgæða sem við viljum deila sem jafnast út í heiminum og ég lít svo á að fjárlögin sýni ágætan lit í þessum umhverfismálum í niðursveiflunni. Það eru viðbætur í skógrækt, þær eru lágar, þyrftu að vera hærri. Það eru 70 millj. kr. viðbætur í rannsóknir, vöktun og náttúrustofur. Þarna legg ég mikla áherslu á ákveðna vöktun, bæði á eldfjalli og hrunfjalli eins og Öræfajökli. Þar hefur vantað fé, því er bjargað núna í fjárlögunum en það þarf að standa að aukningu þegar fram líða stundir, sem er stöðug.

Ég nefni líka græna skatta, svo sem kolefnisgjald og urðunarskatta. Menn hafa gagnrýnt græna skatta og þennan urðunarskatt sem verður ekki settur á í bili. Þá segi ég á móti að aðlögun og umsnúningur í loftslagsbreytingum kostar fé. Hvernig sem við veltum fyrir okkur þeim málum kostar þetta stórfé og ég spyr þá alltaf: Hvaðan á það fé að koma? Ég ætla að skilja þá spurningu eftir hér opna.

Ég ætla að minnast aðeins á utanríkismál. Ég lít svo á að öflug utanríkisþjónusta sé brýn nauðsyn smáríki eins og Íslandi. Ég vil ganga lengra því að ég vil líta svo á að fingraför Íslands í alþjóðasamstarfi séu af hinu góða og þá er ég að meina eins og framlag okkar til UNESCO, okkar framlag til Norðurskautsráðsins sem ég legg mikla áherslu á. Við erum í formennskunni akkúrat þessi árin vegna þess að það er hárrétt sem sagt er, að breytingarnar á norðurskautssvæðinu varða framtíð loftslagsmála og framtíð mannkyns ákaflega miklu þó að þarna búi aðeins 4 milljónir manna og þar af 400 þúsund frumbyggjar. Ég lít enn fremur á fyrirhugaða formennsku í Evrópuráðinu 2022–2023 mjög jákvæðum augum, eins þótt kostnaðurinn hlaupi á endanum á yfir 300 millj. kr. Nátengt þessu er þróunarsamvinna. Það kom fram hörð gagnrýni á flutning á 300 millj. kr. fjárhæð frá þróunarsamvinnunni yfir í framkvæmdir á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, framkvæmdir sem þar áttu að fara fram eða eru að fara fram og eiga að fara fram í samræmi við samkomulag frá 2016, fyrir tíð núverandi ríkisstjórnar. Núna er ljóst að búið er að núlla þessa tilfærslu með því að bæta í fjárlögin 300 millj. kr., sem er þá veitt í þróunarsamvinnuna og áfram stefnt að því að framlag okkar nái 0,35% af vergum þjóðartekjum og væntanlega í framhaldinu á einhverju árabili upp í 0,7% í samræmi við alþjóðamarkmið. Auðvitað veitir ekki af þessu vegna þess að þróunarsamvinna Íslands hefur verið með lægra móti þrátt fyrir að velsæld ríki hér. Á því eru margar skýringar sem ég ætla ekki að fjölyrða um en það skiptir öllu máli nú orðið að það er pólitískur vilji, vonandi sama hvaða ríkisstjórn situr, til að ná þeim alþjóðamarkmiðum OECD sem sett eru á oddinn.

Herra forseti. Ég vil svo nota tækifærið undir lokin, ekki alveg í blálokin þó, til að víkja fáeinum orðum að almannavörnum því að þar vantar grundvallarendurskoðun alls almannavarnakerfisins. Þar vantar aukið fjármagn. Endurskoðunin varðar í fyrra tilvikinu stjórnun þessa kerfis, t.d. hvar yfirstjórnin er vistuð, ekki stjórnun á vettvangi sem er hjá lögreglu í héraði, heldur hvar yfirstjórnin er vistuð, bæði hjá hvaða aðila og undir hvaða ráðuneyti. Þetta varðar fyrirkomulag aðgerðastöðvar og sjálfstæði hennar. Þetta varðar aukna áherslu á ákveðna kjarna, bæði starfsmanna almannavarna og björgunarsveitanna sjálfra í launuðu starfi til að létta álaginu á sjálfboðaliðastarf björgunarsveitanna sem er vegna margs, m.a. fjölgunar ferðamanna, orðið um of oft og tíðum. Þetta varðar líka bætt vöktunarkerfi á landsvísu sem og auknar rannsóknir á náttúruvá. Þá á ég bæði við það sem er jarðtengt, eldgos, jarðskjálfta og annað slíkt, og náttúruvá vegna loftslagsbreytinga. Hvað endurskoðun fjármála í þessu sambandi varðar mun einfaldlega blasa við aukinn kostnaður við almannavarnir á flestum sviðum hennar þegar fram líða stundir. Ég hvet til þess að þessi endurskoðun fari fram sem allra fyrst og að næstu fjárlög, þ.e. þarnæsta árs, virki saman við þá endurskoðun.

Að lokum, herra forseti. Fjárlögin fyrir komandi ár eru að mínu mati í ágætu samræmi við stjórnarsamkomulagið, sem skiptir auðvitað máli, og í ágætu samræmi við það að vera viðspyrna við samdrætti í hagkerfinu. Engu að síður eru allmörg verkefni á sveimi sem þurfa opinberan stuðning en fá ekki og það er miður því að íslenskt samfélag er þeirrar gerðar, við sjáum það í gegnum söguna, að ríkis- eða samfélagsstuðningur við samfélagslega þörf verkefni er nauðsynlegur. Það er ólíku saman að jafna í samfélögum þar sem búa milljónir manna, þótt ég fari ekki lengra en það, ef spá um hægan bata vors kapítalíska hagkerfis á næsta ári rætist eru æðimörg verkefni í ríkisfjármálunum sem þarf að sinna. Þá get ég haldið aðra og enn bjartsýnni ræðu.