150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:55]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér fjárlög ársins 2020 við 2. umr. Ég vil taka undir það sem hefur komið fram í máli allmargra þingmanna að þessi umræða er mikilvæg. Hún er langt í frá leiðinleg en hún gæti verið líflegri. Það fer að verða skynsamlegt að taka snúning á því hvort við gætum reynt að hafa umræðuna þannig að ræður væru eitthvað styttri og andsvör tíðari o.s.frv., þannig að það væru aðeins meiri samræða í gangi. Það er alltaf svolítið hætt við því þegar menn setja á afar langar ræður að samræðan í þessu verði meira í formi margra einræðna og þá missir umræðan svolítið marks.

Ég ætla að reyna að halda mig frá því að fara yfir í smáatriðum um þau mál sem aðrir þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hafa farið yfir og rétt taka það fram að ég tek undir með þeim í þeim efnum sem þeir hafa komið að. Það eru um margt mikilvæg mál en mín ræða mun snúa annars vegar að forsendum fjárlaga og hvernig við búumst við að allt þetta muni ganga eftir á næsta ári og síðan í lok ræðunnar mun ég fara í örstuttu máli yfir nokkur minni mál, skulum við segja, sem þó eru ekki lítil, sem mér finnst ýmist að mætti tala meira um eða er full ástæða til að nefna sérstaklega.

Það dylst engum, herra forseti, sem skoðar hvernig íslensk efnahagsmál standa þessi misserin að heilt yfir litið er staðan nokkuð góð og ef menn eiga bágt með að trúa því sem sagt er í þingsal um það efni geta menn litið ýmist út í samfélagið eða út fyrir landsteinana til að átta sig á því að margt hefur verið býsna vel gert. Það þýðir ekki að við lifum í einhverju fullkomnu samfélagi og það þýðir ekki að það sé ekki fullt af verkefnum eftir þar sem við getum gert betur. Nýleg hækkun á lánshæfismati íslenska ríkisins staðfesti þetta og nýleg skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem þó er kannski ekki besti vinur allra á Íslandi. Það eru engu að síður gests augu sem líta glöggum augum á hvernig staðan er þó að fókusinn hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hafi oftar verið meira á grjótharðar hagstærðir eins og þjóðarframleiðslu og þess háttar og á þeim bæ minna farið fyrir þáttum eins og þeim sem nú er talað um og kallað velsældarhagkerfið. Mönnum er kannski huggun í því að nú er farin af stað vinna í þá veru að reyna að nota þá mælikvarða líka á það hvernig við skoðum árangur í rekstri samfélagsins og hvernig við metum hann, hvaða þættir hafa áhrif og hvar við getum gert betur.

Eins og kemur fram í áliti meiri hluta fjárlaganefndar voru verðlagsforsendurnar sem lagðar eru til grundvallar í fjárlagafrumvarpinu um 2,5% hækkun á næsta ári, þ.e. 2,6% verðbólga sem er lægra en var í upprunalegu forsendunum og því breytast allar tölur lítið eitt og hreyfast aðeins til. Þetta er í rauninni afar merkilegt ef við hugsum til þess að það er niðursveifla í samfélaginu og þó að talað hafi verið um að lendingin sé mjúk þá skulum við átta okkur á því, herra forseti, að við erum að tala um niðursveiflu upp á í kringum 5% milli ára sem er umtalsvert. Það er í rauninni ein af hverjum 20 kr. sem voru á síðasta ári. Það er veruleg breyting. Þessi 5% sveifla er ekki þannig að það hverfi 5% út úr hagkerfinu heldur er vöxturinn sem var í hagkerfinu áður ekki til staðar núna og stefnir í að við lendum einhvers staðar á bilinu mínus 0,2% í hagvexti þetta árið. Auðvitað er það snöggtum skárra en menn voru að spá hér um mitt ár þegar svartsýnustu spár voru alveg upp undir 2% samdátt í hagkerfinu á þessu ári og auðvitað má segja að það kunni enn þá að vera nokkur óvissa um það hvar árið raunverulega lendir. En ég held að við getum a.m.k. ekki gert okkur miklar væntingar um að breyting til batnaðar á þeim eina og hálfa mánuði sem eftir er af árinu verði slík að við verðum í blússandi plús á þessu ári. Þannig er ekki.

Sú nálgun sem er tekin í fjárlagafrumvarpinu er að sætta sig hreinlega við það að við erum í tímabundinni niðursveiflu og ákveða þess vegna að ganga lítið eitt á óvissusvigrúmið sem formaður hv. fjárlaganefndar talaði um í ræðu þegar hann fylgdi meirihlutaálitinu úr hlaði. Ég tel að það sé afar mikilvægt. Við erum að tala um tæpa 10 milljarða sem við göngum á svigrúmið eða 0,3% af landsframleiðslu. Engu að síður er engan veginn verið að fullnýta svigrúmið. Það er áfram, skulum við segja, borð fyrir báru, jafnvel þó að við förum ekki alla leið. Ég er þó ekki að mæla með því að menn missi sig og fari að eyða langt um efni fram eða auka stórkostlega á útgjöld umfram það sem nú er. En þessi nálgun er að mínu mati hárrétt. Við erum að milda það högg sem samfélagið tekur á sig og við getum það vegna þess að samfélagið er þannig statt um þessar mundir að það hefur efni á því. Það eru fleiri jákvæðir þættir í umhverfinu sem eru okkur til hagsbóta. Gengið hefur verið tiltölulega stöðugt þetta árið. Vextir eru með því allægsta sem hafa verið og stýrivextir lækkað um 1,5% á árinu. Allt þetta skiptir miklu máli. Gjaldeyrisvarasjóðurinn er óvenjusterkur, stendur í um 800 milljörðum, og skuldir ríkissjóðs eru, ég veit ekki hvort á að kalla það í sögulegu lágmarki en eru með því lægsta sem hefur verið og sannarlega því lægsta sem hefur verið frá hruni. Við stöndum nú þannig að heildarskuldir ríkissjóðs verða 26,7% af vergri landsframleiðslu samkvæmt frumvarpinu og lækka um 70 eða 72 milljarða líklegast á árinu og skuldir ríkissjóðs miðað við skuldaregluna verða einhvers staðar á bilinu 22%. Það má hreinlega velta því fyrir sér, sérstaklega með tilliti til þess að við viljum halda uppi einhvers konar skuldabréfamarkaði á Íslandi, hvort það sé einhver skynsemi í því að fara mikið lægra en þetta. Og talandi um hvernig við eigum að snúa hlutunum þá kann að vera skynsamlegt, í þessu ljósi, að skoða af fullri alvöru það sem við erum með í vinnslu til að mynda í efnahags- og viðskiptanefnd, frumvarpið um þjóðarsjóð. Það er kannski annað verkefni sem getur verið skynsamlegt að ráðast í einmitt í þeirri stöðu sem er núna.

Auðvitað eru óvissuþættir í þessu frumvarpi og óvissuþættir þegar við horfum inn í næsta ár. Það eru þættir sem við ráðum í rauninni, stórt séð, afskaplega lítið yfir, við sem samfélag, óvissuþættir eins og flugrekstur og ferðaþjónusta sem við vitum ekki nákvæmlega hvernig mun snúast á næsta ári. Eins og hv. þingmenn hafa vafalítið heyrt um þá stendur til að nýtt flugfélag fari í loftið, ætli sé ekki rétt að segja það, á næstu vikum og vonandi gengur það vel. Það mun hafa jákvæð áhrif ef vel gengur. Enn er spáð loðnubresti á næsta ári. Gangi það eftir eru það slæmar fréttir fyrir hagkerfið en aftur eru það þættir sem við ráðum ekkert við. Eina sem við getum gert í því er að reyna að bregðast við. Þá eru horfur voveiflegar á alþjóðavísu. Við vitum til að mynda ekkert í dag hvernig spilast úr málum Breta sem er stór viðskiptaþjóð okkar, í sambandi við Brexit. Við vitum ekkert hvaða kúrs þeir velja sér í framhaldi og þetta veldur ákveðinni óvissu á Íslandi enda stór viðskiptaþjóð okkar. Við vitum í rauninni ekkert hvernig spilast úr viðskiptastríði Bandaríkjanna og Kína á næsta ári. Það er annar óvissuþáttur sem við getum sáralítil áhrif haft á.

Það eru ótal fleiri atriði, en ég ætla ekki í smáatriðum að fara ofan í skatta og gjöld nema að því leyti að ég tel rétt að nefna að sú vegferð sem er hafin, að setja upp þrjú þrep í skattkerfinu með nýju þrepi fyrir lægstu launin, lægra þrepi fyrir lægstu launin, sé afar skynsamleg. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt um er sú aðgerð hluti af lífskjarasamningunum og gott dæmi um það hvað menn geta náð góðum lendingum þegar þeir bara leggja sig niður við að tala saman og finna lendingar.

Það er eitt sem veldur ákveðnum vonbrigðum í sambandi við skatta og gjöld á næsta ári og það er urðunarkatturinn, eigum við ekki í bili að kalla það óvissu um útfærslu á skattinum. Ég tel að þarna sé á ferðinni afar mikilvæg græn aðgerð til að tryggja það að við sem samfélag beitum þeim þrýstingi sem við getum til að fá fólk til að flokka meira, nýta verðmætin betur og til að komast upp úr þeim hjólförum urðunar sem við erum í og ég vona að við náum að keyra það í gang strax á næsta ári.

Þá að þeim málum sem ég vildi nefna sérstaklega. Það eru mál sem að mínu viti standa svolítið út af þótt ég viti að það er ekki vegna fálætis hv. fjárlaganefndar heldur vegna annarra þátta. Eins og getið er um í stjórnarsáttmálanum á að gera gangskör að því á þessu kjörtímabili að endurskoða rekstrargrunn hjúkrunarheimila. Sú vinna er komin af stað. Það var ákveðið í fjárlögum þessa árs að bæta um 276 milljónum við, ég man ekki nákvæmlega tölurnar, herra forseti, eitthvað á þessu bili, í rekstrargrunninn. Sú upphæð hefur hins vegar ekki verið notuð það sem af er ári, m.a. vegna þess að samningar hafa ekki náðst. Það er mikilvægt að þessi upphæð verði áfram á fjárlögum og hún muni áfram nýtast til þessara heimila. En þarna er ekki allt verkið unnið. Það þarf að halda áfram á þessari vegferð jafnhliða því að leggja áfram, eins og raunar er talað um í breytingartillögum meiri hlutans, meiri áherslu á dagdvalir og dagdvalarrými sem er afar mikilvægt. Það leiðir af því í rauninni að halda áfram að auka við þjónustu við eldra fólk í heimahúsum, styrkja þann grunn. Dagdvalir og dagþjálfun eru einmitt stór þáttur í því að gera fólki þetta mögulegt. Þannig munum við líka til lengri tíma litið væntanlega minnka þörfina á hjúkrunarrýmum sem eru þá síðasta úrræðið þegar þjónustuúrræði í heimahúsum duga ekki lengur til.

Það veldur mér ákveðnum vonbrigðum að við erum ekki enn þá búin að efna það í stjórnarsáttmálanum að flytja gistináttagjald yfir til sveitarfélaganna. Ég hefði viljað að við værum komin þangað. Hins vegar skil ég það mætavel, eins og raunar margir hv. þingmenn hafa komið inn á, að þetta er kannski hluti af einhverri heildarsýn. En það skiptir miklu máli, tel ég, að við horfumst í augu við það að sveitarfélögin bera kostnað af ferðaþjónustunni að einhverju leyti og þess vegna er ekki óeðlilegt að þau fái tekjur á móti. Auðvitað er umsýsla og þjónusta og þess háttar í sveitarfélögunum tekjuaukandi fyrir þau og íbúa þeirra en engu að síður þá finnst mér að við þurfum að halda áfram á þeirri braut að fullnusta þetta loforð.

Ég er ánægður með það sem kemur fram í breytingartillögum meiri hlutans um aukin fjárframlög til Tryggingastofnunar ríkisins, sem er skilgreint vegna endurreikninga á búsetuskerðingum. Þetta er mjög mikilvægt því að þarna felst í rauninni endanlegt samþykki stjórnvalda á því að okkur sé full alvara með því að við ætlum að endurreikna þessar búsetuskerðingar og við ætlum að reikna þær rétt og við ætlum þeim stofnunum sem eiga að sjá um þessa vinnu fyrir okkur nægt fjármagn til að bregðast við því. Í því felast mjög skýr og mikilvæg skilaboð frá stjórnvöldum.

Ég er mjög feginn því og finnst ástæða til að nefna það, þrátt fyrir að hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson hafi nefnt það hér áður, að 300 millj. kr. til þróunarsamvinnu sé skilað eins og má kannski orða það. Hv. þingmenn muna við umræðu um fjármálaáætlun að þar var þessari upphæð skákað til. Það er afar mikilvægt að við höldum okkur á þeirri línu að framlög til þróunarsamvinnu lækki ekki og þessar 300 milljónir eru mikilvægur þáttur í þeirri vegferð. Auðvitað, eins og ég heyri á hv. þingmönnum í salnum, gætum við gert betur og ættum að gera betur og það er stefnan (LE: … lækka um …milljónir.) og ég fagna þessum skilum, skulum við segja.

Það er óheppilegt að það skuli hægjast á uppbyggingu Landspítalans en það er ekki sjálfstæð ákvörðun stjórnvalda í raun að framkvæmdir gangi ekki eins hratt og við hefðum kannski óskað. Það er mikilvægt að það komi fram að þar er um afar mikilvægt verkefni að ræða og þrátt fyrir allt eru ætlaðir 10–12 milljarðar í það verkefni á næsta ári, ef ég man rétt. En aftur er það sagt eftir minni og kann að vera að skeiki einhverjum upphæðum.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Ég ítreka hins vegar það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar að mér hefur þótt þessi umræða skemmtileg, hún er mikilvæg, en auðvitað mætti hún vera líflegri.