150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:16]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Fátt ef nokkuð gefur skýrari vitnisburð um stefnu ríkisstjórna en fjárlög hvers árs. Þar birtist í raun handritið að samfélaginu. Við getum öll verið sammála um þær góðu breytingar sem hafa átt sér stað í samfélagi okkar á síðustu áratugum, hagstæða stöðu ríkissjóðs, þrátt fyrir allt, og að Ísland sé meðal fremstu þjóða á ýmsum sviðum.

Ég ætla hins vegar ekki að þreyta neinn með ræðunni um frá örbirgð til auðlegðar á 100 árum. Það er búið að flytja þá ræðu fulloft hér í þingsal og hún segir heldur ekki nema hálfa söguna. Eitt er nefnilega meðaltal allrar þjóðarinnar en allt önnur mynd blasir við þegar horft er á einstaka þjóðfélagshópa, ákveðna tekjuhópa, svo að ekki sé talað um stöðu hvers einstaklings. Þegar sú mynd er skoðuð fer okkur fyrst að greina á. Meðan hægri menn vilja nota skatta til að afla tekna fyrir allra nauðsynlegustu þjónustu hins opinbera, sem þeir vilja reyndar líka draga úr, vilja vinstri menn afla tekna til að efla þjónustu og auka velferð almennings en líka nota skattkerfið til að auka jöfnuð í samfélaginu. Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn vill hygla stóriðju og stórútgerð og vill sækja sem minnstar tekjur fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum okkar vilja stjórnmálaflokkar frá miðju til vinstri að þjóðin fái sanngjarnan arð fyrir slík afnot og raunverulegir vinstri flokkar vilja nota skattkerfið til að jafna kjörin.

Nú kann að vera svo að hver og einn ríkisstjórnarflokkanna hafi í grunninn ólíka skoðun á þessum atriðum í stefnuskrám sínum. Hæstv. forsætisráðherra hefur einmitt margoft dregið það fram að flokkar í ríkisstjórn þurfi að gera málamiðlanir en það þarf verulegan þurs til þess að átta sig ekki á því að eftir því sem skilur lengra á milli ýtrustu sjónarmiða flokka í upphafi því stærri þurfi málamiðlanirnar að vera. En allir flokkarnir saman bera á endanum ábyrgð á lokaniðurstöðunni, í þessu tilfelli kyrrstöðunni, vanmættinum og ráðaleysinu til að takast á við brýn samfélagsmál. Þess vegna eru öll fögru orðin, allar greinarnar, allar heimasíður einstakra flokka sem hníga í aðra átt en það sem samþykkt verður í fjárlögum ekki pappírsins virði. Ræða hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar hér áðan, fulltrúa Vinstri grænna, snerist um lítils háttar breytingar, blæbrigði, en ekki þær grundvallarkerfisbreytingar sem við þurfum á að halda til þess að jafna kjörin.

Samfylkingin mun þess vegna, eins og áður, leggja fram breytingartillögur og benda á leiðir til tekjuöflunar í leiðinni. Þessar tillögur eru mjög langt frá því að vera sú heildarmynd sem við helst vildum sjá í samfélaginu. Þótt við leggjum til breytingartillögur upp á 20 milljarða leggjum við líka til leiðir til að afla tekna fyrir þeim án þess að þær verði íþyngjandi fyrir allt venjulegt fólk í landinu. Þar ber helst að nefna veiðigjöld sem ríkisstjórnin hefur leyft sér að lækka svo að þau dekka varla lengur þjónustu við atvinnugreinina sjálfa, umsjón, rannsóknir og eftirlit. Síðan viljum við leggja auðlegðarskatt á allra ríkasta fólkið en verja heimili fólks. Og við viljum ekki að 90% þjóðarinnar borgi ekki neinn fjármagnstekjuskatt og við viljum að þau 10% sem hafa nóg milli handanna og sýsla með fjármagnið frá degi til dags greiði hærri skatt af því. Við teljum hins vegar líka nauðsynlegt, ekki síst í ljósi umfjöllunar Kveiks og Stundarinnar, að leggja fram breytingartillögu um að auka fjárheimildir til að styrkja héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra til að hægt verði að taka á málinu og öðrum spillingarmálum og leiða niðurstöðurnar í ljós. Ég sé að hv. þm. Hjálmar Bogi Hafliðason hristir hausinn en hann kemur kannski upp og útskýrir af hverju við ættum ekki að rannsaka málið. (Gripið fram í.) Ég tel að samstarfsfólk okkar í öllum flokkum, með nokkrum undantekningum, hljóti að samþykkja þetta.

Herra forseti. Við Íslendingar stöndum frammi fyrir einstaklega flóknum áskorunum. Við þurfum annars vegar að verja og bæta við velferðina en við þurfum líka að þora að takast á við framtíðina og fjárfesta í henni. Í fyrsta lagi er gæðunum einfaldlega of ólíkt skipt og við getum ekki horft aðgerðalaus á það. Það búa allt of margir við aðstæður sem eru engum bjóðandi hjá jafn ríkri þjóð. Fjölmennir þjóðfélagshópar eiga erfitt með að ná endum saman, búa við mikið húsnæðisóöryggi og neita sér jafnvel um læknisþjónustu. Það segir sig nánast sjálft að þetta fólk hefur ekki tækifæri til að njóta lista, menningar, íþrótta, fara út að borða, sem er sjálfsagður hlutur í lífinu í dag og á ekkert að vera munaður. Á endanum er það ömurlegast af öllu að þúsundir barna skuli búa við óboðlegar aðstæður og missa jafnvel af tækifærunum til að eflast af styrkleikum sínum og búa í haginn fyrir fullorðinsárin. Fyrir utan það hversu mikill óþarfi og grimmd felst í þessu er þetta líka dapurleg skammsýni. Sparnaður í velferð er nefnilega fljótur að snúast upp í mjög mikinn kostnað fyrir ríkið þegar afleiðingar skorts birtast síðar á ævinni. Þess vegna er baráttan gegn ójöfnuði lykilþáttur til að tryggja kraftmikið, gott og friðsamlegt samfélag og það veldur mér vonbrigðum að sumir af þeim flokkum sem sitja í ríkisstjórn skuli hafa horfið frá því markmiði sínu.

En skammsýnin birtist víðar. Við þurfum í öðru lagi að breyta hegðun okkar vegna gegndarlausrar slæmrar umgengni um jörðina og jafnvel ofbeitar. En það er því miður ekki heldur hægt að merkja að ríkisstjórnin taki það mál sérstaklega alvarlega. Það verður að viðurkennast að loftslagsmálin skipa stærri sess en oft áður en það verður hins vegar að gera mun betur. Góður vilji og fögur fyrirheit hæstv. forsætisráðherra duga ekki til að vega upp aðgerðaleysi. Við þurfum m.a. að setja okkur háleit markmið en við þurfum að lögfesta þau eins og þekkist t.d. í Bretlandi, Svíþjóð og Nýja-Sjálandi og fjárlögin þurfa á öllum sviðum og í öllum nefndum að endurspegla málaflokkinn. Það ríkir, herra forseti, neyðarástand í loftslagsmálum. Við leggjum því til breytingartillögu um 4 milljarða aukalega í aðgerðir gegn hamfarahlýnun.

Í þriðja lagi birtist fullkomin skammsýni í viðbrögðum við þeim gríðarlegu samfélagsbreytingum sem eru að verða samfara hinni stafrænu tæknibyltingu. Störfum mun fækka, önnur breytast. Einhver verða til. En vera okkar á atvinnumarkaði mun taka stakkaskiptum. Við þurfum að venjast meiri hreyfanleika, temja okkur símenntun og rækta með okkur eiginleika eins og góða samskiptahæfni, góð gildi, sköpunarkraft og frumkvæði. Það er ekki eingöngu nauðsynlegt til að halda samkeppnishæfi okkar í flókinni alþjóðlegri samkeppni heldur líka til að bregðast við þeim lýðfræðilegu breytingum sem eru að verða á samfélagi okkar þar sem fleiri og fleiri ná sem betur fer háum aldri en færri vinnandi hendur þurfa að standa undir verðmætasköpuninni. Þetta er ein augljósasta ástæðan fyrir því að við verðum að ráðast í stórsókn í menntakerfinu. En sjáum við þessa stórsókn endurspeglast í fjárlögum? Nei, ekki aldeilis. Í fjárlögum standa framlög til háskólanna í stað og beinlínis er um að ræða raunlækkun til ýmissa mikilvægra menntastofnana og rannsóknasjóða. Það nægir að nefna Menntaskólann í Breiðholti, Menntaskólann á Akureyri, á Egilsstöðum, við Laugarvatn, Verkmenntaskólann á Austurlandi og á Akureyri. Það er raunlækkun til Tækniþróunarsjóðs, Rannsóknasjóðs og það væri hægt að halda áfram.

Ríkisstjórninni er auðvitað svolítill vandi á höndum því að á fordæmalausu hagvaxtarskeiði hirti hún hvorki um að jafna leikinn í samfélaginu né að afla tekna til að geyma til magrari ára. Það er vissulega flóknara verkefni í kólnandi hagkerfi en Samfylkingin hefur hins vegar bent á leiðir til að afla þessara tekna, leiðir sem Vinstri græn hafa hingað til tekið undir með okkur og það væri fróðlegt að fá skýringu á því af hverju þær eru ekki lagðar fram. Við erum þrátt fyrir allt ellefta ríkasta land í heimi og við getum ekki látið veikustu þjóðfélagshópana bera uppi kólnandi hagkerfi. Ríkasta 1% landsmanna á meiri hreinar eignir en 80% landsmanna og þénaði meira en þriðjung allra fjármagnstekna sem urðu til í fyrra. Þess vegna eru skattbreytingar í þessa veru ekki bara skynsamlegar heldur nauðsynlegar. Þótt venjulegt fólk eigi ekki að þurfa að greiða háan fjármagnstekjuskatt og helst engan skatt af eðlilegum sparnaði eða stóreignaskatt af húsnæði sínu þá er það mér algerlega hulin ráðgáta hvers vegna í ósköpunum ríkisstjórninni, a.m.k. hluta ríkisstjórnarinnar, finnst ekki eðlilegt að þeir allra ríkustu leggi meira til samfélagsins. Þetta er fólk sem lifir sumt nánast eingöngu á fjármagnstekjum, á peningum sem búa til meiri peninga, á auði sem skapar möguleika til að ferðast milli landa og hagnast eftir því hvernig gengið sveiflast, og borgar síðan lægri skatt en vinnandi fólk af launum sínum. Þetta fólk borgar ekki einu sinni útsvar til sveitarfélagsins en heimtar samt mokstur á götunum sínum og pláss fyrir börnin sín á leikskólunum.

Það er umhugsunarefni á hvaða leið Vinstri græn eru. Það vekur líka furðu mína að stór útgerðarfyrirtæki sem hafa greitt sér 100 milljarða í arð á síðustu tíu árum, sem er helmingi meira en þau hafa greitt fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind, geti ekki lagt meira af mörkum til samfélagsins. Svona til upplýsingar eru þetta sömu fyrirtækin og hafa hagnast um 400 milljarða á þessum sama árafjölda. Það er tæplega helmingurinn af fjárlögunum sem við erum að ræða hér. Þessi fyrirtæki, og þeir örfáu einstaklingar sem þau eiga, eiga að greiða um 5 milljarða í veiðigjöld fyrir afnot af verðmætustu auðlind Íslendinga og það er u.þ.b. það sama og það kostar ríkið að hafa eftirlit með greininni. Einn útgerðarmaður var meira að segja með sama hagnað í fyrra og öll þjóðin fær í veiðigjöld á næsta ári.

Herra forseti. Nú þegar samdráttur er í hagkerfinu er miklu brýnna en nokkurn tímann áður að vel sé gætt að félagslegum innviðum samfélagsins og hugað sé að jöfnuði. Því miður tryggir þetta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar hvorki efnahagslegan né félagslegan stöðugleika. Við í Samfylkingunni höfum ítrekað bent á að með því að afla ekki tekna við mjög hagfelldar forsendur, eins og hafa verið síðustu sjö til átta ár, jafnvel gefa eftir tekjustofna eins og raunin hefur verið, skapist hætta á að þegar við lendum í niðursveiflu verði þrengt að viðkvæmri starfsemi í heilbrigðismálum, velferðarþjónustu, menntakerfinu, löggæslunni, rannsóknum, nýsköpun o.s.frv. Þetta er að gerast og við sjáum þetta mjög glöggt, það eru til tölur um þetta og þýðir ekki að þræta fyrir það. Ýmsar stofnanir eru að fá raunlækkanir. Opinberir starfsmenn eiga samkvæmt fjárlagafrumvarpinu líka að taka á sig þessa sveiflu því að þeim er reiknuð minni kjarabót en launafólk fékk á almennum markaði. Ef það á að breyta því kemur væntanlega fram enn meiri halli á þessum fjárlögum en nú erum við, ef þetta verður samþykkt svona, í fyrsta skipti að skila hallafjárlögum frá 2013. Hjúkrunarfræðingar, kennarar, félagsráðgjafar og aðrir eiga sem sagt ekki að fá þær sanngjörnu launabætur sem aðrir hafa fengið. Stjórnvöld virðast heldur engan áhuga hafa á að stytta vinnuviku fólks þrátt fyrir að hér komi hæstv. forsætisráðherra og fleiri þingmenn og tali frekar títt um velsældarhagkerfið og sýna frekar einbeitt samstarfsleysi í kjarasamningum.

Í niðursveiflu er mikilvægara en nokkurn tímann að hlaupa undir bagga með þeim sem eru að sligast undan álagi og eiga varla til hnífs og skeiðar og bregðast við þannig að þetta fólk geti líka lifað mannsæmandi lífi. Við í Samfylkingunni höfum alltaf talað fyrir því að við viljum lækka álögur, lækka skatta á hópa með lágar tekjur og meðaltekjur í gegnum skattkerfið. Það getum við gert með þrepaskiptu kerfi en við getum líka gert þetta í gegnum barnabætur og húsnæðisstuðning. Þess vegna leggjum við fram tillögur í þá átt. Við viljum hins vegar gjarnan hækka skatta á þá sem allra best hafa það og tryggja að þjóðin fái sanngjarnan arð af auðlindinni, svo að ég segi það nú einu sinni enn. Við höfum líka lagt fram frumvarp sem lýtur að því að auðvelda smærri fyrirtækjum róðurinn og búa til hagkvæmt umhverfi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem byggja á hugviti og nýsköpun. Þessi fyrirtæki standa undir stórum hluta af vergri landsframleiðslu en yfirleitt er þeim ekkert sinnt í þessu húsi. Hér hafa menn meiri áhuga á því að standa vörð um og moka undir stórfyrirtækin sem skapa okkur svo risakerfisáhættu þegar þau annaðhvort falla eða hegða sér með ósæmilegum hætti.

Herra forseti. Þetta eru þriðju fjárlög ríkisstjórnarinnar og ef ekki þau síðustu þá þau næstsíðustu. Hún er því búin að setja kúrsinn og sýna á spilin og staðan er einfaldlega þessi: Það er kyrrstaða. Það er áframhaldandi efnahagsstjórn á forsendum Sjálfstæðisflokksins. Hann má auðvitað vel við una og vinnur þennan slag innan ríkisstjórnarinnar en Vinstri græn þurfa að útskýra af hverju þau hafa fallið frá frekari tillögum um skattkerfið til jöfnunar milli einstaklinga. Í stað þess að við horfum upp á kerfi, fjárlög, sem styrkja félagslega innviði, styðja við harðduglegt venjulegt fólk, lítil fyrirtæki, í stað þess að búa okkur undir framtíðina og styrkja menntun, nýsköpun og vísindi, horfum við fram á stöðnun og gamaldags stjórnmál og kannski enn harðari leið niður í efnahagslægð.

Herra forseti. Að lokum: Þetta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks opinberar vanmátt þeirra eða viljaleysi til að takast á við ójöfnuð og það skortir algjörlega sýn á sjálfa framtíðina.