150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:43]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum fjárlög fyrir 2020 og ég kem hér lafmóður í pontu, þó hef ég gott úthald. Ég ætla í þessari ræðu ekki að fara mikið út í smáatriði í sambandi við fjárlagafrumvarpið en mig langar fyrst að koma að heilbrigðismálum. Heilbrigðismál hafa verið vanfjármögnuð til langs tíma og á því er engin breyting í því fjárlagafrumvarpi sem nú er til umræðu fyrir árið 2020. Í því sambandi langar mig að nefna þær gríðarlegu framfarir í tækni og vísindum sem orðið hafa síðustu áratugi í að fást við sjúkdóma, bæði líkamlega og andlega. Því fylgir að sjálfsögðu ákall um meira fjármagn. Auk þess er þjóðin að eldast, sem er að sjálfsögðu mjög gleðilegt, en það kallar á frekari heilbrigðisþjónustu fyrir þann aldurshóp einnig. Þegar við stöndum frammi fyrir þessu hljóta stjórnvöld, eða að mínu mati verða stjórnvöld, að móta stefnu til að mæta þeim veruleika. Auðvitað er auðveldara um að tala en í að komast en staðreyndir kalla eftir því. Segjast verður eins og er að það er ísköld staðreynd í mínum huga að þegar tæknin og vísindin hafa náð þeim árangri í að fást við svo margt í heilbrigðiskerfinu, í heilbrigðismálum, í lækningum, að það stoppar á fjármagni, og þá er úr vöndu að ráða. Það eru ekki til endalausir peningar og því þarf að leita lausna, móta stefnu sem hægt er að fara eftir.

Í dag eru flestir ef ekki allir sammála um að forvarnir og efling þeirra spari fyrir heilbrigðiskerfið, spari pening, þ.e. ef fólk lifir heilnæmu lífi, er meðvitað um eigin líkama og sál og getur sjálft tekið ábyrgð á því að koma í veg fyrir að ýmis lífsstílsveikindi og aðrir krankleikar geri vart við sig. En eins og segir á einhverjum stað: Það kostar peninga að búa til peninga. Því segi ég þetta? Jú, auknar forvarnir kosta líka pening og setja þarf meiri pening í forvarnir til að spara í heilbrigðiskerfinu. Það er mín bjargfasta trú og skoðun. Forvarnir eru flokkaðar í nokkra flokka; fyrsta stigs, annars stigs og þriðja stigs forvörn og þar fram eftir götunum. Fyrsta stigs forvarnir eru langtímamarkmið, svo sem snemmbær íhlutun, og forvarnir eru þar af leiðandi í fyrsta stigs merkingunni forvarnir frá vöggu til grafar. Framfarir hafa orðið í þeim málum og mikið hefur verið unnið í skólum og á sviði heilbrigðismála eins víðfeðm og heilbrigðismál eru, en ég tel að miklu betur mætti gera í þeim efnum til að spara fyrir heilbrigðiskerfið. Annars stigs forvarnir eru t.d. sjúkraþjálfun og annað í þeim dúr sem kennir fólki að hjálpa sér sjálft og læra að takast á við sín mein og bera ábyrgð á því sem því fylgir, svo sem eins og baksjúklingar eða hvað það er annað sem fólk glímir við sem í sumum tilfellum er hægt að lækna en í öðrum ekki. En eftir aðgerðir, sjúkraþjálfun, liðskiptaaðgerðir og annað slíkt þá lærir fólk að lifa með þeim veruleika sem það er í og getur þá hjálpað sér meira sjálft.

Stytting biðlista eða jafnvel engir biðlistar er líka forvörn á margan hátt, bæði líkamlega og efnahagslega, fyrir kerfið og fyrir einstaklinga. Það er forvörn fyrir fjölskyldur og aðstandendur alkóhólista að verða vitni að því að drykkjumaðurinn eða fíkillinn kemst í meðferð og breytir um lífsstíl. Þá sjá þau sem hafa horft upp á viðkomandi vera að eyðileggja líf sitt að fíkillinn er að gjörbreyta lífi sínu, að lífið er að taka á sig aðra mynd og hann verður þátttakandi í lífinu með því að komast í meðferð. En sumir þurfa meira en eina meðferð og sumir meira en tvær og meira en þrjár til að ná tökum á þessum fíknisjúkdómi sem ég hef svo oft talað um hér í pontu og skrifað greinar og barist gegn. Þess vegna er ég líka að tala um biðlista af því að meðferðir í áfengis- og vímuefnageiranum eru alltaf að lengjast. Við höfum oftast talað um biðlistana inn á Vog af því að þar er öflugasta eða umfangsmesta meðferðin hvað varðar sjúklingafjölda. Þar hafa þeir forgang sem eru að koma í fyrsta skipti og þeir sem eru lífshættulega veikir en þeir sem eru að koma í annað, þriðja eða fjórða skipti þurfa að bíða lengur og lifa það þá oft og tíðum ekki af að bíða og er það mjög sorglegt. Ég hef þess vegna sagt að það myndi spara mikinn pening að setja meiri pening í meðferðir og í styttingu biðlista til að koma fólki til hjálpar svo að það verði ekki bara, eins og stundum er sagt, stofnanamatur af heilsuleysi eða týni jafnvel lífinu.

Heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni býr við frekar skarðan hlut í fjárlagafrumvarpinu og það er alls ekki gott. Þó hefur ágætlega verið staðið að heilsugæslunni en sjúkrahúsin á landsbyggðinni eru vanfjármögnuð. Á sjúkrahúsunum víðast hvar er pláss sem hægt væri að nýta til sjúkraþjálfunar eða annarrar þjónustu sem hægt er að veita úti á landsbyggðinni og oft finnst fólki sem þarf að fá slíka þjónustu bara mjög gott að komast út á land til að fá slíka þjónustu. Ég þekki það sjálfur úr minni heimabyggð. En nóg um heilbrigðismál í bili.

Ég ætla aðeins að koma inn á sjávarútvegsmálin, þau hafa fengið töluverða umfjöllun í umræðunni um fjárlagafrumvarpið. Ég verð að segja að þó að ég sé í stjórnarandstöðu finnst mér umræðan um auðlindagjöldin ekki alveg sanngjörn. Það er staðreynd að sá útgerðarflokkur sem við köllum stórútgerð getur borið þessi auðlindagjöld og kannski hærri, þótt ég geti ekki fullyrt neitt um það vegna þess að ég er ekki alveg inni í bókhaldinu þar, en minni útgerðir, litlar og meðalstórar útgerðir, eiga margar hverjar mjög erfitt með að reka sín fyrirtæki út af auðlindagjöldum og eins út af kolefnisgjaldi og auknum launakostnaði. Það kemur ekki oft fram í umræðunni um auðlindagjöldin, en það er í mínum huga alveg kýrskýrt að kvótakerfið er þó þannig úr garði gert að það getur borgað auðlindagjöld. Það er ekki andstyggilegra kerfi en það. Ég man þá tíð þegar sjávarútvegurinn var meira og minna í fanginu á ríkinu. Þá voru gengisfellingar oft og tíðum til að halda útgerðinni uppi. Hver þurfti að borga þær gengisfellingar? Það var fólkið í landinu. Ekki viljum við fá slíkt kerfi aftur sem var eiginlega ekkert kerfi heldur — ég veit eiginlega ekki hvað á að segja. Það er ekki í mörgum löndum sem sjávarútvegur er ekki ríkisstyrktur. Hann er ríkisstyrktur í Noregi og í fleiri löndum. Hér er hann ekki ríkisrekinn, heldur er þetta kerfi sem er það sjálfbært að það getur borgað auðlindagjöld. Mér finnst að þessu þurfi að halda til haga þegar hækka á auðlindagjöld, eins og sumir segja, til að borga hitt og þetta í innviðum landsins, að nú séu þau svo lág að þau standi varla undir rannsóknum og öðru slíku sem nauðsynlegt er í sjávarútveginum.

Lögum um auðlindagjöld var breytt í fyrra og eru þau afkomutengd. Að mínu áliti eru þau eins sæmileg og kostur er í dag. Svo er það líka þessi fjölbreytilegi hópur útgerða, frá útgerð sem er kannski með 10 tonn upp í útgerð sem er með 10.000 tonn eða þaðan af meira. Það er mjög misjafnt hvernig þær útgerðir geta borið þessi gjöld og er það partur af því að samþjöppun í greininni hefur orðið þetta gríðarlega mikil, að mjög erfitt er fyrir smærri útgerðir og útgerðir sem eru ekki með fiskvinnslu að standa undir þeim gjöldum. Þar koma fleiri gjöld inn í, eins og ég talaði um áðan. Eins hef ég oft sagt geta auðlindagjöldin, af því að útgerðarflokkarnir eru svo margbreytilegir, orðið til þess að auka við samþjöppun. Og það sem hefur aukið samþjöppunina síðustu árin er umræðan hér á þingi hjá okkur stjórnmálamönnunum, mörgum hverjum, að tala þetta kerfi niður, að það þurfi að gera eitthvað annað, það þurfi að nálgast þetta einhvern veginn öðruvísi. Þá hugsa þeir með sér sem eru skuldugir að best sé að losa sig við þetta strax vegna þess að stokka eigi þetta upp. Það er partur af þessari samþjöppun.

Hér á vorþingi, eða sumarþingi, var samþykkt þingsályktun sem sá sem hér stendur mælti fyrir og heitir skilgreining auðlinda og var henni beint til umhverfisráðherra sem er að vinna að því, eða ráðuneyti hans, að skilgreina auðlindir. Hún fjallar um að skilgreina hvað er auðlind og hvað er ekki auðlind og hvaða auðlindir geti borgað auðlindagjald til þjóðarinnar og hverjar ekki. Þetta var mjög vönduð tillaga sem oft hafði verið mælt fyrir áður, í fjögur, fimm skipti áður á jafnmörgum þingum og hafði ekki fengið brautargengi fyrr en nú í sumar. Ég er mjög ánægður með það og mælti fyrir annarri tillögu sem í raun fylgir þessari tillögu eftir sem er um auðlindagjald, hvernig það verður útfært. Þeirri tillögu var beint til fjármálaráðherra og er hún í nefnd og vonandi fær hún líka brautargengi. Það eru náttúrlega, eins og oft hefur verið talað um, fleiri auðlindir en sjávarútvegsauðlindin sem heyra undir íslenska ríkið og ekkert nema sanngjarnt að þær auðlindir sem geta borið auðlindagjöld greiði það til þjóðarinnar.

Aðeins að skattamálum. Mönnum í stjórnarliðinu hefur orðið tíðrætt um skattalækkun sem reyndar var gerð með því að bæta við einu skattþrepi. Eru það svolítið merkileg tíðindi í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn er í ríkisstjórn og hefur talað fyrir því að einfalda skattkerfið. Þeir hafa hér í ræðustól gert grein fyrir því af hverju þeir samþykktu að fara þá leið í þessari skattalækkun, að bæta þrepi við, að það sé líka partur af lífskjarasáttmálanum og öðru slíku, og þeirri staðreynd hvernig þessi ríkisstjórn er samansett, pólitískt. Gott og vel. Þetta er skattalækkun sem kemur þeim vel sem hafa lægstu launin og ekki er annað hægt en að gleðjast yfir því. Við í mínum flokki tölum fyrir einfaldara skattkerfi og við tölum fyrir vinnuhvetjandi skattkerfi sem eflir þá sem sannarlega vilja vinna fyrir laununum sínum og standa í húsakaupum eins og ungt fólk gerir, að koma sér þaki yfir höfuðið og koma sér upp fjölskyldu eða hvernig sem það er. Það hvetur viðkomandi til að vinna og fá meira í budduna en um leið að vera nýtur þjóðfélagsþegn.

Frá því að ég var ungur maður og byrjaði að vinna hef ég oft talað um þetta, hve miklu myndi muna ef launin manns skiluðu sér meira í launaumslagið í stað þess að fara í skatta og önnur gjöld sem í dag er alveg gríðarlega mikið og fer alltaf vaxandi. Þetta er eitthvað sem við verðum að vinda ofan af og þetta er líka spurning um sjálfstæði einstaklingsins í að bjarga sér og annað í þeim efnum. Það vilja allir, eða allir sem ég þekki, borga skatta en þeir þurfa líka að vera sanngjarnir og vinnuhvetjandi, eins og ég sagði áðan.

Húshitun á köldum svæðum og jöfnun húshitunarkostnaðar er eitthvað sem mikið hefur borið á góma og oft verið rætt hér á þinginu. Eitthvað hefur verið gert í því en það hefur ekki skilað sér einhverra hluta vegna. Einhvern veginn hefur önnur hönd komið í vasann og tekið peninginn til baka ef afsláttur hefur verið gefinn. Þetta er eitt af þeim málum sem búið er að ræða svo mikið og kvarta svo mikið yfir að þetta verður eins og þytur í eyrunum á mörgum, en er mjög alvarlegt mál upp á það að jafna búsetuskilyrði fólks á landinu. Það eru einhvers staðar á milli 9% og 10% landsmanna sem búa við þau kjör að þurfa að borga gríðarlega háan húshitunarkostnað. Ég las í dag, mér til upplýsingar, svar frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til þingmannsins — ég spurði hér í haust ýmissa spurninga um þessi mál. Þar kom m.a. fram að hið opinbera ætti erfitt með að gefa afslátt eða gæti það jafnvel ekki. Orkustofnun er t.d. á samkeppnismarkaði og hið opinbera getur ekki gripið inn í það. Það breyttist fyrir nokkrum árum þegar orkupakki tvö var samþykktur. Það væri of langt mál að fara að rifja það allt saman upp, ég væri þá örugglega farinn að tala um orkupakka þrjú líka ef ég færi út í þá sálma. Það er víst búið að ræða hann töluvert hér, en ég sé að þingheimur er mjög spenntur að ég taki það upp aftur. En ég ætla að geyma það. Þetta er eitthvað sem við verðum að taka á. Ég hef verið að kalla í dag eftir upplýsingum um það hvernig að því hefur verið staðið hér í þinginu og hvað hefði verið gert og í framhaldinu hvað sé hægt að gera. Mun ég reyna að leggja fram tillögu eða jafnvel frumvarp til að vinna áfram í þessu máli. Ekki megum við mismuna fólki. Allt eru þetta mannanna verk, þessi kostnaður, og því þarf að laga þetta.

Af því að ég var að tala um heilbrigðismálin áðan koma hjúkrunar- og dvalarheimili og þjónusta fyrir aldraða að sjálfsögðu þar inn, eins og ég kom inn á. Við í Miðflokknum erum með tillögu sem kemur fram í nefndaráliti því sem hv. þm. Birgir Þórarinsson fór yfir í gær. Tillagan kemur að fráflæðisvanda á spítölunum, myndi losa um þann tappa ef svo má segja, og gengur út á að auka við þjónustu og bæta við hjúkrunarrýmum. Ég var ásamt fleirum á Hótel Loftleiðum, eins og það hét áður, ég man ekki hvað það heitir í dag, á ráðstefnu um félög sem reka heilbrigðisþjónustu o.fl., sem ríkið kaupir þjónustu af. Það var mjög fróðlegt að sitja þann fund eða það þing vegna þess að vandamálið er stórt og í raun og veru þarf að stokka þetta alveg upp. Það er ófært að „sjálfstæðar“ stofnanir sem veita þessa heilbrigðisþjónustu geti ekki veitt þá þjónustu sem þarf vegna, ég leyfi mér að segja, samskiptaörðugleika við Sjúkratryggingar Íslands og jafnvel heilbrigðisráðuneytið í leiðinni. Þessi fundur opinberaði það svolítið fyrir mér. Það er ófært og á því verður að taka. Stjórnvöld þurfa í því eins og í öðru að mynda sér skýra stefnu og leysa úr þessum vanda. Það er bara ekkert flóknara en það í mínu höfði.

Aðeins að menntamálunum. Í fyrra ræddum við mikið um lesskilning barna og unglinga og hvernig hægt væri að betrumbæta hann, koma því á betri stað. Ég tók þátt í þeirri umræðu og leitaði mér upplýsinga um hvernig önnur lönd stæðu að þessum málum, hvaða löndum gengi betur en okkur og hver væru á svipuðum stað og hverjum gengi kannski enn verr. Það var mjög einföld niðurstaða. Þau lönd þar sem námsárangur er betri, t.d. lesskilningur og annað slíkt, eru þau lönd sem undirbyggja kennarastéttina betur en við gerum hér, sem setja meiri stuðning í kennslu. Hæstv. menntamálaráðherra hefur stigið skref í þá átt en betur má ef duga skal. Við sem viljum börnunum okkar allt það besta, það gerum við náttúrlega öll, þurfum að láta kné fylgja kviði í þessu verkefni, það er enginn betri tími en strax að gera það.

Þörfin hefur aukist fyrir iðn- og verkmenntun. Okkur verður tíðrætt um hana og ríkisstjórnin og menntamálaráðherra hafa talað um að verið sé að gera stórátak í þeim málum. En svo heyrir maður það frá skólum eins og verkmenntaskólum, og jafnvel úr Tækniskólanum, að iðn- og verknám fái ekki jafnháan sess þar innan dyra og þurfi til að efla þetta nám, og er það miður. Það vantar iðnaðarmenn. Það er mikil uppbygging víðs vegar um land sem kallar á iðnaðarmenn og þá þurfum við að efla þetta nám. Enda er vinna við iðn ágætlega launuð, svo að jafna má við aðra menntun af ýmsu öðru tagi, og því engin ástæða til að verða ekki iðnaðarmaður út af því að launin séu léleg, alls ekki. Og svo er iðnnámið oft leið til frekara náms, ef fólk kýs svo. Oft er talað um að foreldrar og forráðamenn geti staðið miklu betur að því eða eigi kannski að hvetja börn sín til iðn- og verknáms og er ég alveg sammála því. Þetta hefur einhvern veginn alltaf þróast þannig að börn og unglingar fara frekar í bóknámið. Við vorum með mjög skýra stefnu í þessu fyrir síðustu kosningar í mínum flokki og töluðum um að fjárveiting frá hinu opinbera til menntamála þyrfti að vera sérmerkt til iðnnáms. Við stöndum algerlega við það áfram til að efla þessa grein menntunar því að í framtíðinni mun áfram þurfa fleiri hendur til að vinna þessi verk því að landsmönnum er alltaf að fjölga.

Hæstv. forseti. Ég hef aðeins tiplað á því sem ég var að hugsa um að ræða í þessari ræðu, kom hingað í púltið svolítið fyrirvaralaust. Ég hélt ég væri aftar á mælendaskránni en hljóp til þegar vantaði að fylla upp í skarð þar og var þar af leiðandi ekki algjörlega búinn að undirbúa ræðu mína. En gott og vel, ekki kvarta ég yfir því. Mig langar aðeins að nefna, af því að ég var að minnast á nefndarálit 2. minni hluta fjárlaganefndar, sem hv. þm. Birgir Þórarinsson mælti fyrir í gær sem er að mínu áliti mjög vandað nefndarálit. Þar koma fram breytingartillögur Miðflokksins við fjárlagafrumvarpið og þær eru fullfjármagnaðar. Þar er fjallað um geðheilbrigðismál, hagræðingu ráðuneyta og ýmislegt fleira sem ég ætla ekki að telja upp núna. Hv. þingmaður sem ég nefndi áðan gerði góða grein fyrir því í gær og ég hef ekki trú á öðru en að þingmenn annarra flokka verði mjög áhugasamir um að fræðast um þessar tillögur og vonandi samþykkja þær þegar þær verða bornar upp.

Það kom mér frekar gleðilega á óvart að sjá að búið er að taka urðunarskattinn út, eða alla vega búið að fresta honum að sinni. Það var skattur sem er, eins og fleiri gjöld sem sett hafa verið á undanfarin ár, algerlega óskiljanlegur í mínum huga. Við eigum að leita annarra ráða. Það er kannski önnur umræða en við eigum að leita annarra ráða en að urða sorp. Ég sagði í ræðu í haust að það að urða sorp væri eins og að sópa ruslinu undir teppið. Það er komin mikil tækni í brennslu á sorpi og við eigum að huga að því, enda hefur þingmaður míns flokks, hv. þm. Karl Gauti Hjaltason, mælt fyrir þingsályktunartillögu um byggingu sorpbrennslu að fyrirmynd nágrannalandanna, Skandinavíu, Svíþjóðar. Þá þarf líka á sama tíma að flokka. Við þurfum að standa okkur miklu betur í flokkun sorps. Það er alls ekki í nógu góðum málum. Við erum að flytja sorp út með skipum. Það er svipað og að fara með ruslið í ruslatunnuna hjá nágrönnunum. Það er ekkert öðruvísi í mínum huga og er enginn sómi að því. Það er algjörlega glötuð aðgerð. Við þurfum að bera ábyrgð á sorpmálum okkar sjálf og koma því þannig fyrir að það sé öllum til sóma. Við þurfum að sýna náttúrunni meiri virðingu hvað það varðar. Við erum að tala mikið um hlýnun jarðar og við erum að tala um plast í sjónum og við erum að tala um rusl og mengun út um allt, sem er staðreynd. Við getum gert miklu betur í þeim málum. Þá eigum við að byrja í garðinum heima hjá okkur sjálfum. Sorpmál okkar Íslendinga eru í miklum ólestri og við þurfum að taka á því af ábyrgð og festu en ekki með því að sópa ruslinu undir teppið, eins og urðun sorps felur í sér, eða sigla með það til annarra landa sem er eins og að henda ruslinu í garðinn hjá nágrönnunum. Við eigum að gera þetta sjálf sómasamlega með hag náttúrunnar og okkar allra í forgrunni.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra núna. Þessi umræða hefur verið mjög góð. Ég kvarta ekkert yfir því að menn hafi talað hér í klukkutíma eins og nefndarmönnum úr fjárlaganefnd hefur verið boðið upp á. Það er bara eins og einn góður þáttur í sjónvarpinu, framhaldsþáttur, þeir eru oft í klukkutíma. Þeir hafa verið misjafnlega skemmtilegir, þessir þættir hér í pontunni, en samt fróðlegt að hlusta. Ég ætla að láta þetta gott heita að sinni.