150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:26]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla mér að nota tíma minn til að ræða heilbrigðismál fyrst og fremst. Það er nú að kvöldi komið á degi tvö í umræðu um þessi mál og það er fátt sem ekki hefur verið nefnt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar þannig að mér finnst tíma mínum og annarra hér ekkert sérlega vel varið í að fara yfir fjárlagafrumvarpið lið fyrir lið og koma með gagnrýni eða hrós ef svo ber undir sem þegar hefur komið fram. Heilbrigðismálin eru mér hugleikin, mér og fleirum, og mig langar svolítið til þess að skoða þau í því samhengi.

Staðreyndin er sú að það er töluverð aukning til heilbrigðismála og það hefur verið raunin í þeim þrennu fjárlögum sem ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefur lagt fram. Það er um 34 milljarða aukning frá fjárlögum þessarar ríkisstjórnar árið 2017, ef ég fer rétt með, og þar erum við að tala um 15% plús/mínus, þetta eru 245 milljarðar núna og síðan er viðbótin sem meiri hlutinn er að leggja til tæplega 30 milljarðar, 29 milljarðar. Þetta eru heilmiklir peningar og þetta er heilmikil aukning. Samt er það svo að eldar brenna nær alls staðar í kerfinu. Menn geta farið léttu leiðina og sagt: Svona er þetta bara. Það er aldrei hægt að gera nægilega vel. Að einhverju leyti er það kannski rétt, það er aldrei nægilega vel gert. En það er hægt að gera betur. Það er einfaldlega hægt að nýta þá fjármuni sem fara í heilbrigðiskerfi okkar betur en gert hefur verið í tíð þessarar ríkisstjórnar og betur en gefin eru fyrirheit um í þessum fjárlögum. Gæði og öryggi þjónustunnar og hagsmunir fólksins verða að vera í forgrunni og þar verða einfaldlega að fara saman orð ríkisstjórnar og ákvarðanir, þar á meðal ákvarðanir um það hvernig fjármunir eru nýttir. Það er forgangsröð sem þarf að rýna vel og gagnrýna og þá meina ég rýna til gagns. Við þurfum að veita fjármagni þangað sem þörfin er raunverulega mest og hætta m.a. að færa verkefni yfir til ríkisins frá sjálfstætt starfandi sérfræðingum víða um kerfið, hætta að færa verkefni yfir án þess að fyrir liggi greining á þeim kostum, þ.e. hvort um er að ræða breytingu til batnaðar varðandi þjónustu, öryggi og nýtingu fjármagns. Það að færa verkefni yfir til ríkisins eða ríkisrekinna stofnana án þess að það liggi fyrir gerir ekki bara ekkert gagn fyrir notendur þjónustunnar heldur gerir ríkisreknum stofnunum einfaldlega ógagn eins og ég held að dæmin hafi sýnt, t.d. ástandið sem nú er uppi á Landspítalanum. Það er ekki eina ástæða þess að þar brenna eldar en hún er klárlega ein af þeim og hjálpar sannarlega ekki til.

Mig langar til þess að fara aftur um nokkra mánuði til þess tíma þegar samþykkt var í sölum Alþingis heilbrigðisstefna til ársins 2030. Yfirlýst markmið með mótun þeirrar stefnu var að leggja línur sem þola tímans tönn. Innan þess ramma sem stefnan býr til getur ráðherra komið sinni pólitísku sýn á framfæri. Þetta hljómar hreint ekki illa en frumskilyrði þess að leggja línur um stefnu sem á að lifa lengi og vera sátt um hlýtur að vera víðtækt samráð. Í vinnu við þessa stefnu fengu margir áheyrn en mörgum var haldið úti í kuldanum. Ég ætla að rifja aðeins upp í aðdraganda að umræðu um frumvarpið hvernig nokkrir hagsmunaaðilar voru hunsaðir í því ferli, m.a. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu. Það eru samtök fyrirtækja sem eru ekki ríkisfyrirtæki, starfa á heilbrigðissviði samkvæmt þjónustusamningi eða öðrum tengdum greiðslum við ríkið. Þetta eru nokkrir tugir fyrirtækja, félagasamtaka og sjálfseignarstofnana. Í umsögn sinni við heilbrigðisstefnuna lýstu þessi samtök því samráðsleysis sem réð ríkjum við vinnslu stefnunnar. Stefnan og umræður um hana miðuðust við stofnanir og þá hluta heilbrigðiskerfisins sem komu að gerð hennar á upphafsstigum. Þar var dregin skýr lína þar sem vantaði mjög mikið umræðu um tiltekna efnisflokka og síðan önnur atriði eins og rekstrarform sem er bein afleiðing þess að ekki var haft samráð við þá aðila sem best þekkja til þessarar tegundar þjónustu eða rekstrarforma. Þetta var í vor. Undir þá gagnrýni Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu tóku Samtök heilbrigðisfyrirtækja, Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur o.s.frv. Það sem þessi fjölmörgu félög, stofnanir og fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu, sem ekki hlutu náð fyrir pólitískum augum heilbrigðisráðherra, eiga sameiginlegt er að vera ekki ríkisrekin heldur starfa samkvæmt þjónustusamningi við ríkið. Þetta eru aðilar sem hafa um áratugaskeið verið mikilvægur hlekkur í íslenskri heilbrigðisþjónustu en það eru blikur á lofti eins og reynslan hefur líka sýnt á þeim stutta tíma sem liðinn er.

Við í Viðreisn höfum talað fyrir mikilvægi þess að skynsamleg nýting fjármuna og skilvirkni ráði för við stýringu ríkisútgjalda til þessa mikilvæga málaflokks og að gæði og öryggi þjónustu við sjúklinga skipti öllu máli en ekki hver veitir þjónustuna. Kerfið er rekið fyrir almannafé og það er aðalhlutverk hins opinbera að tryggja almenningi sem best og öruggast kerfi.

Ég sat í gær áhugavert málþing á vegum Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, Læknafélags Reykjavíkur, Félags sjúkraþjálfara, samtaka heilbrigðisfyrirtækja og Tannlæknafélags Íslands. Þetta er hryggjarstykkið í íslenskri heilbrigðisþjónustu en þau blésu til þessa málþings undir heitinu Annmarkar við kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu og það var umræðuefnið. Þjónusta utan sjúkrahúsa, þjónusta sem þessir aðilar veita, nemur um 31% af framlögum til heilbrigðismála. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 er heildarframlagið 245 milljarðar og síðan er verið að tala um tæpa 30 til viðbótar, en af þessum 245, sem ég miða við af því að ég veit ekki hvernig hitt skiptist niður, fara 76 milljarðar, 31%, til þeirra félaga sem stóðu að þessu málþingi. Þar af taka hjúkrunar- og dvalarrými langstærstan kostnaðinn, 48 milljarða. Svo kemur læknakostnaður 12 milljarðar, endurhæfing 6 milljarðar, sjúkraþjálfun 5 milljarðar, tannlækningar 5 milljarðar. Þess utan erum við síðan að tala um kostnað upp á 32 milljarða. Það eru lyf 22 milljarðar, hjálpartæki 5 milljarðar og svo annað, samsafnaður flokkur einhvers sem er ósundurgreint, upp á 5 milljarða. Þetta er fyrir utan. Ég ætla ekki að gera lítið úr ríkisrekna hlutanum, þeim eldum sem þar brenna eða þeirri þörf sem þar ríkir og þeim flóknu viðfangsefnum sem Landspítalinn glímir við. Það hefur verið ítrekað í ræðustól undanfarna tvo daga en af því að þetta hefur kannski minna verið rætt ætla ég að eyða tíma mínum í þann hluta vegna þess að ég trúi því að þetta tengist verulega.

Á málþinginu í gær var fyrirtækið KPMG með kynningu á skýrslu sem það hefur unnið, ég hef reyndar ekki séð þessa skýrslu, ég held að hún sé ekki komin fram, en þar var kynning á helstu atriðum eða punktum sem fram koma í skýrslunni. Það er einnar messu virði að fara aðeins yfir þá punkta. Samkvæmt þeim eru helstu annmarkar á kaupum ríkisins á heilbrigðisþjónustu, nota bene, í fyrsta lagi þeir að vinnubrögð og fyrirkomulag innkaupa er óskýrt. Þar er talið upp að samninga- og útboðsferlið sé óskýrt. Það er óljóst hvernig Sjúkratryggingar hyggjast beita sér innan reglna um opinber innkaup, nokkuð sem er mjög brýnt að þingheimur taki á. Það er misræmi í undirbúningi, gerð og framkvæmd samninga við þá aðila sem um ræðir og lítil formfesta í samningaferli og síðan einkennist ferlið af vantrausti milli samningsaðila. Í annan stað var talað um að starfsumhverfi þessara aðila væri óskýrt. Gildistími samninga væri yfirleitt of stuttur og það hefði neikvæð áhrif á framþróun, fjárfestingar og uppbyggingu og óvissa í starfsumhverfi drægi úr nýliðun og úthaldi reynds starfsfólks. Í þriðja lagi var talað um óskýrt hlutverk aðila og ábyrgð þar sem heilbrigðisráðuneytið fer með stefnumörkun, fjármála- og efnahagsráðuneytið með fjárframlög, embætti landlæknis með fagkröfur og Sjúkratryggingar Íslands annast innkaup. Samspil þessara aðila væri mjög óskilvirkt. Maður heyrði það í máli margra aðila á málþinginu í gær að þeir söknuðu aðkomu fjármálaráðuneytis að samningaborðinu sem er annað sem ég tel brýnt að verði rætt. Það var talað um misræmi milli verðlagningar og kröfulýsinga, samningsumboð Sjúkratrygginga væri óskýrt og það væri skortur á samtali, upplýsingum og samvinnu milli Sjúkratrygginga og þjónustuveitenda, aftur kom sá punktur fram. Það var líka talað um takmarkaða fagþekkingu Sjúkratrygginga til að annast greiningar, undirbúning samninga, gerð þeirra og eftirlit með þeim, nokkuð sem er mikilvægt að gerð verði bragarbót á. Talað var um aðstöðumun milli samningsaðila þar sem einungis væri um að ræða einn kaupanda. Ferli fyrir úrlausn ágreiningsmála væri ekki til staðar. Reglugerð væri einfaldlega sett í heilbrigðisráðuneytinu ef samningar næðust ekki og oft væri afleiðingin miklar og skyndilegar breytingar sem kæmu niður á þjónustuþegum. Að síðustu var talað um skort á greiningum og kostnaðarmati. Það væri yfirleitt ekki gert kostnaðarmat á þeirri þjónustu sem um væri samið. Þjónusta og gæði var oft illa skilgreint, ekki sýn á samspil þjónustuveitenda og flæði sjúklinga í kerfinu og dæmi um að sameiginlegan skilning skorti á hvað fellur undir þjónustu og hvernig hún er verðlögð.

Þetta, herra forseti, hljómar ekkert sérstaklega gæfulega og því miður eru engar vísbendingar um að staðan sé nokkuð betri þegar kemur að kostnaðarvitund okkar um hinn ríkisrekna hluta okkar annars ágæta heilbrigðiskerfis, þess hluta sem tekur til sín ríflega tvo þriðju af heildarútgjöldum ríkissjóðs til heilbrigðismála, enda sýna dæmin það og það hefur verið margrætt hér í þessari umræðu. Ríkisreknum aðilum er ekki frekar en sjálfstætt starfandi gerður neinn greiði með þessu svartholi sem við erum að kljást við og þetta getur ekki gengið svona mikið lengur.

Mig langar til að taka áfram nokkur dæmi og enn er ég með hugann við þetta ágæta málþing sem ég sat. Þetta lýtur svolítið af því hversu, ég veit ekki hvort ég á að segja illa hefur tekist til af hálfu heilbrigðisyfirvalda að halda frið eða þeim tekist að skapa ófrið vegna þess að mér finnst stundum sú leið farin þó að önnur leið gæti verið betri. Ég veit ekki hvort við getum notað orðalagið ráðherra fer í stríð, en þannig var svolítið tónninn í gær og ég saknaði þess reyndar, svo ég segi það hreint út, að sjá ekki fleiri þingmenn, stjórnarþingmenn t.d., á þessu ágæta málþingi því að þar voru sagðar sögur sem eiga erindi við okkur.

Mig langar til að byrja á sjúkraþjálfun og við þekkjum þá sögu. Samningur við sjúkraþjálfara var einhliða framlengdur af hálfu Sjúkratrygginga um níu mánuði án verðlagsuppbóta. Síðan var boðað útboð með sex vikna útboðsfresti. Það var ekki vilji til að semja við Félag sjúkraþjálfara fyrir hönd sjúkraþjálfara og eingöngu fyrirtækjum með starfsleyfi var heimiluð þátttaka. Það er vissulega búið að framlengja þennan frest en eingöngu af hálfu Sjúkratrygginga til að gefa sjúkraþjálfurum lengri tíma til að undirbúa sig en ekki til að eiga samtal um öðruvísi nálgun á málið. Vissulega hefur kostnaður Sjúkratrygginga og þar með kerfisins aukist við sjúkraþjálfun frá því að greiðsluþátttökukerfinu var breytt vorið 2017. En það hefur líka komið fram að hægst hefur á þeirri aukningu og það má leiða rök að því að það hafi verið ákveðinn kúfur sem þurfti að mæta og svo hljóta menn að hafa gert ráð fyrir einhverri aukningu, það hlýtur að hafa verið tilgangurinn, að fleiri nýttu sér þessa þjónustu. Það vantar líka svolítið að bera þessa aukningu saman við einhvern sparnað annars staðar í kerfinu. Einhverjir hafa nefnt minni nýliðun öryrkja en ég þekki það svo sem ekki, það þarf lengri sögu til að skoða það. En það er klárt að þarna er um að ræða mikilvægan þátt í endurhæfingu sem hlýtur að skila sér, ekki bara í vellíðan þess fólks sem nú hefur efni á því að nýta sér þá þjónustu heldur líka annars staðar í kerfinu. Þannig var sú saga.

Krabbameinsfélagið er annað félag sem hefur fengið svolítið sérstaka meðhöndlun. Það fékk beiðni frá ráðuneytinu um að sinna þjónustu áfram þrátt fyrir að ekki tækist að gera nýjan samning og það átti að útbúa ný samningsdrög og síðan var af hálfu ráðuneytisins Sjúkratryggingum falið að ganga frá framlengingu. Svo voru breytingar kynntar og nú á að færa frumskoðunina, krabbameinsskoðunina, líka yfir til Landspítalans í lok næsta árs án þess að ávinningurinn sé skýr. Það hefur ekkert komið fram hvort þjónustan verði betri, hvort hún verði ódýrari, hvort Landspítalanum sé betur borgið svona, hvort kröftum hans sé betur borgið með því að taka forvarnaverkefni á borð við þetta jafnhliða þeim annasömu og mikilvægu verkefnum sem hann sinnir og enginn annar getur sinnt. Klínískar rannsóknir fóru frá Krabbameinsfélaginu fyrir þremur árum. Það hefur skilað sér í lengri biðlistum, því miður. Nú eru rökin þau að það sé svo gott að hafa þetta á sama stað eins og það var fyrir. Fínt. Þetta heitir hundalógík eða hringavitleysa en skoðum það, það skiptir í sjálfu sér ekki öllu máli hér frekar en í öðru hver sinnir þessu, þ.e. undir hvaða hatti þetta er, en það skiptir máli að menn viti af hverju verið er að breyta og geti fært rök fyrir því að það skipti máli hvað varðar gæði, öryggi eða kostnað. Það er líka staðreynd að Krabbameinsfélagið hefur borgað með þessari þjónustu 50 milljónir á síðustu árum. Nú hefur hæstv. heilbrigðisráðherra komið fram og sagt: Við munum tryggja þann kostnað. Það eru a.m.k. 50 milljónir sem fara þaðan af fjárlögum. Allt er þetta gert án þess að maður skilji nákvæmlega hvernig þetta þjónar hagsmunum þeirra sem nota kerfið.

Síðan er annað sem er mjög athyglisvert og á eiginlega skilið sérstaka umræðu líka vegna þeirrar tilhneigingar ríkisstjórnarinnar að færa verkefni yfir til ríkisins frá aðilum sem eru starfandi samkvæmt samningi. Á bak við þá samninga liggur yfirleitt ítarleg kröfulýsing. Það er þó kröfulýsing þótt hún sé gjarnan ekki í neinu samræmi við greiðslur eða ekki nægilega miklu. En það er kröfulýsing. En þegar þjónustan fer yfir, eins og í þessu tilfelli til Landspítalans, fylgir ekki kröfulýsingin. Landspítalinn leysir þetta bara. Ég hef fulla trú á því að hann geri það vel, það er fagfólk þar, en það breytir því ekki að eftirlitið verður erfiðara.

Sjálfstætt starfandi læknar er önnur saga sem margir þekkja. Þar eru samningar lausir frá upphafi árs og það er í gildi reglugerð með dagskrá og viðræður Sjúkratrygginga og Læknafélagsins hafa ekki skilað niðurstöðu. Við þekkjum öll söguna um biðlistana. Ég trúi því alveg að það sé fullur vilji heilbrigðisyfirvalda og ríkisstjórnarinnar og stjórnvalda allra að vinna bug á þessum biðlistum eins og hægt er. Það er einhver bestun þarna að sjálfsögðu en sú leið sem farin er er einfaldlega ekkert sérstaklega trúverðug. Ég held að við getum öll verið sammála um það. Það væri hægt að vinna þetta betur. Á þeirri vegferð sem þarna er verið að fara er ekki horft á enda regnbogans, að við losum okkur við þessa biðlista eins og við getum, hámörkum nýtingu á starfsfólki sem við eigum og þeirri aðstöðu sem við eigum á móti þörfunum sem við höfum. Það er einhver annar þáttur sem skiptir þarna máli og það er pólitíska sýnin. Á henni bera stjórnvöld, ríkisstjórnin, ábyrgð. Skilaboðin eru einhvern veginn svona: Við höldum frekar biðlistunum en að leita eftir samstarfi við sjálfstætt starfandi aðila. Þar stendur hnífurinn í kúnni.

Heilsugæslurnar eru annar aðili sem geta sagt farir sínar ekki sléttar, sumar heilsugæslur. Það kom nefnilega fram í umsögn sjálfstæðra heilsugæslustöðva við fjárlagafrumvarpið núna að það sé áhyggjuefni hversu lítil áhersla er lögð á kjarnastarfsemi heilsugæslustöðvanna, þ.e. læknis- og hjúkrunarþjónustu. Það er rétt að töluvert meira fjármagn hefur verið fært til heilsugæslunnar með það fyrir augum að festa hana í sessi sem fyrsta viðkomustað en þegar grannt er skoðað hefur fjármagnið fylgt nýrri tegund þjónustu; geðheilbrigðisteymum og sálfræðiþjónustu. Það er vissulega af hinu góða en það er mjög óvarlegt, svo ekki sé kveðið sterkar að orði, að telja fjármagnið tvisvar. Meðan það fer í þessa nýju þjónustu sem heilsugæslan er að sinna fer það ekki í kjarnastarfsemina sem hefur verið læknis- og hjúkrunarþjónusta. Þar hefur verið þörf líka. Það er líka þörf á að styrkja heilsugæsluna til að mæta þeirri þjónustuþörf ef við ætlum að ná markmiðinu um að efla þær sem fyrsta viðkomustað, þannig að þarna má gera betur.

Ég verð að viðurkenna að ég gat ekki farið nægilega vel ofan í rekstur ríkisrekinna heilsugæslustöðva til að átta mig á því hvort það sama væri uppi á teningnum þar. En svona er alla vega staðan hjá sjálfstætt starfandi stöðvum sem eru stór hluti heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, svo því sé til haga haldið.

Að lokum í þessari dæmisögusúpu langar mig að tala um hjúkrunarheimilin. Þar hefur komið fram að heimild til framlengingar samninga við hjúkrunarheimili hefur ekki verið nýtt. Þess í stað er sett reglugerð með gjaldskrá sem tekur ekki mið af uppfærðum svokölluðum RUG-stuðlum. Hækkun sem Alþingi samþykkti fyrir ári síðan upp á 276 millj. kr. vegna aukinnar hjúkrunarþyngdar, í tengslum við fjárlagaumræðuna þá, skilar sér ekki. Þrátt fyrir að í þessum sal hafi verið samþykkt við afgreiðslu fjárlaga tillaga meiri hluta fjárlaganefndar um viðbótarframlög til reksturs hjúkrunarrýma upp á 276 milljónir til að mæta ýtrustu neyð skilar það sér ekki vegna þess, að sögn Sjúkratrygginga Íslands, að það voru ekki samningar. Og af hverju eru ekki samningar? Sjúkratryggingar Íslands hafa samningsumboðið, segir heilbrigðisráðuneytið. Fleiri eru svörin ekki.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar stendur m.a. að hugað verði að því að styðja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa úr umsögn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu:

„Frumvarp til fjárlaga ársins 2020 var lagt fram á Alþingi þann 10. september sl. Fjárlög ársins 2018, 2019 og þau fjárlög sem nú hafa verið lögð fram fyrir árið 2020 fela í sér niðurskurð á núverandi rekstri nánast allra hjúkrunarheimila landsins. Frumvarpið felur einnig í sér niðurskurð hjá rekstraraðilum dagdvalarþjónustu í landinu, hvort sem um er að ræða almennar dagdvalir eða sérhæfðar dagdvalir fyrir sérstakra sjúklingahópa eins og einstaklinga með alzheimer eða MS-sjúklinga. Samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi og fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024 á að halda niðurskurðinum áfram á árunum 2020 og 2021.“

Það hefur ítrekað komið fram að með gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands fyrir 2019, sem var afleiðing þess að samningar náðust ekki, að sögn, var greiðslukerfi hjúkrunarheimila umbylt. Greiðslur til heimila voru ekki uppfærðar með hliðsjón af breyttri hjúkrunarþyngd, eins og ég sagði áðan, og það þrátt fyrir útkomna skýrslu um mikilvægi þessa greiðslukerfis og þrátt fyrir þá sérstöku fjárveitingu sem ég nefndi áðan. Þetta var gert einhliða án tilkynningar, án samráðs og án nokkurs fyrirvara og þetta þekki ég vegna þess að ég fylgdist mjög vel með þessari atburðarás allri.

Á málþinginu í gær kom fram aðstöðumunur Sjúkratrygginga Íslands og viðsemjenda. Hann kristallast í því að rammasamningurinn rann út og heimilin starfa samkvæmt gjaldskránni sem var einhliða sett. Það hafa verið haldnir fjórir samningsfundir á árinu og það virðist vanta hvata til að ganga frá samningi, a.m.k. virðist sem Sjúkratryggingar geti ekki lagt á borðið nægilegar upplýsingar um hvert eigi að fara frá þeirri stöðu sem aðilar eru í núna til að halda samningunum áfram. Afleiðingin er sú að hjúkrunarheimili sem munu skila rekstri réttum megin við strikið á þessu ári eru að verða teljandi á fingrum annarrar handar. Afkomutölur frá 30 hjúkrunarheimilum, sem voru aðilar að rammasamningi Sjúkratrygginga fyrir þjónustu hjúkrunarheimila árið 2018 og féllu síðan undir nýja gjaldskrá 2019, sýna að árið 2018 var afkoma 15 af þessum 30 neikvæð. Við skulum hafa það í huga að þegar hjúkrunarheimili eða aðrir aðilar í heilbrigðisþjónustu sem starfa samkvæmt þjónustusamningi ná ekki að reka sig réttum megin við strikið sækja þau þennan pening ekkert annað en inn á næsta ár með tilheyrandi þjónustuskerðingu og verri rekstri. Það er enginn fjárauki, það er ekkert annað að sækja í. Helmingur af hjúkrunarheimilum var rekinn í mínus á síðasta ári og árið 2019 áætla 26 af 30 hjúkrunarheimilum að afkoman verði neikvæð. 87% af hjúkrunarheimilum verða rekin með halla á þessu ári. Hvað stóð aftur í stjórnarsáttmálanum? Markmiðið er að styrkja rekstrargrunn hjúkrunarheimila? Það var einhvern veginn svoleiðis. Þetta þýðir í upphæðum talið að samantekin afkoma ársins 2018 var neikvæð um 350 milljónir. Áætluð samantekin afkoma sömu heimila 2019 er neikvæð um 850 millj. kr. Þetta eru sömu aðilar, fyrir utan að vera að sinna okkar besta fólki, öldruðum sem umfram alla aðra eiga skilið sómasamlega þjónustu, sem Landspítalinn, flaggskipið okkar, þarf á að halda að geti sinnt sínu hlutverki svo að Landspítalinn geti sinnt sínu hlutverki. Hér erum við að tala um forgangsröðun.

Herra forseti. Við þurfum að hafa áhyggjur af þessari stöðu. Ég trúi a.m.k. ekki öðru en að stjórnvöld og þingheimur deili þeim áhyggjum með mér. Munurinn á mér og stjórnvöldum er að þau hafa völdin til að breyta þessu og ég vænti þess að sjá tilhneigingu í þá átt á næstunni.