150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:16]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Loftslagsbreytingum verður ekki mætt með lofti heldur peningum og Miðflokkurinn virðist vera á þeim nótum, einhvers konar loftkastalanótum undir yfirskini sem hann kallar mælanleika þess sem lagt er í af peningum til ákveðinna verkefna. Kostnaður við loftslagsbreytingar er staðreynd og þetta eru háar fjárhæðir. Það þarf peninga í aðlögun, það þarf peninga í minni losun og það þarf peninga í aukna bindingu. Þetta eru milljarðar á milljarða ofan. Í hvað fara þá tekjur af því kolefnisgjaldi sem við látum innheimta? Það er ekki eyrnamerkt, þetta eru ekki markaðar tekjur. Það fer í ívilnanir vegna bíla, alls konar bíla, upp á a.m.k. 3 milljarða á ári. Þetta fer í raftengingar, að styrkja og styðja raftengingar fyrir bíla um allt land, orkuskiptin sem sagt. Það er alveg klárt mál að það er krafa um auknar ívilnanir frá öllum bílaleigum, eigendum almenningsfarartækja o.s.frv. þannig að það þarf að hækka þetta kolefnisgjald. Síðan má nefna styrkingu kolefnisbindingar með skógrækt, landgræðslu, votlendi o.s.frv. og við gætum jafnvel talað um styttingar ökuleiða sem eru jákvæðar í loftslagstilliti.

Vissulega er það þannig að ekki er hægt að rekja hverja einustu krónu til kolefnisgjaldsins. Þá spyr ég: Hvernig mælir maður þetta? Hver er formúlan? Ég vil gjarnan fá að heyra það hjá hv. þm. Bergþóri Ólasyni hvernig menn mæla árangurinn af þessu kolefnisgjaldi. Og annað sem ég vil fá að vita, það sem ég hef nú talið upp: Hvernig hyggst Miðflokkurinn fjármagna það sem ég var telja upp, milljarðana?