150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:18]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi það hvernig á að mæla árangurinn af kolefnisgjaldi. Ég viðurkenni fúslega að ég hef ekki minnsta grun um það frekar en umhverfisráðherra, (Gripið fram í.) ég stend algjörlega á gati og það gæti nú helst bjargað umhverfisráðherra í þessu máli að ég fylli upp í það. Ég hef bara ekki hugmynd um hvernig á að mæla þetta (Gripið fram í.) og það er það sama og umhverfisráðherra hefur svarað. En staðreyndin er auðvitað sú að ef þeir þættir sem hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson taldi upp, sem eru aðeins brotabrot af þeim aðgerðum, viðbrögðum sem verið er að velta fyrir sér hér heima og erlendis, ef allar þær aðgerðir verða keyrðar í gegn með hraði erum við sennilega að sigla inn í einhverjar mestu efnahagslegu ógöngur sem við höfum séð í síðari tíma sögu. Það er þannig, og á þeim nótum höfum við í Miðflokknum talað, að við verðum að nálgast málið út frá vísindunum, einmitt mælanlegum markmiðum. Ef á að grípa til allra þessara aðgerða í loftslagsmálum út frá einhverju sem er ekki mælanlegt — við þekkjum umræðuna um 1,5°C og 2°C en auðvitað þarf þetta allt með einum eða öðrum hætti að vera mælanlegt. Ef það á að grípa til allra þeirra aðgerða sem þeir sem mestar áhyggjurnar hafa vilja, ég ætla ekki að leyfa mér að segja það sem sumir segja um þá, held ég að áhrifin á efnahagslíf íslenskrar þjóðar og hins vestræna heims verði þannig að staða heimila, (Forseti hringir.) fyrirtækja, samfélaga verði miklum mun verri heldur en ef (Forseti hringir.) menn nálgast málin með hófsemd, með áherslu á hluti (Forseti hringir.) sem skila árangri þar sem þarf að skila árangri en ekki með einhverri sýndarmennsku.