150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:23]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það kom svo sem ekki á óvart að þingmaður Miðflokksins hallaðist svolítið á sveif með þeim sem hafa verið kallaðir á enskri tungu „climate sceptics“ en á íslensku efasemdarmenn í fræðunum um hlýnun jarðar, a.m.k. gera þingmenn flokksins ítrekað afar lítið úr þeim vísindum sem þar búa að baki og halda því blákalt fram hér í ræðustól að það séu engar mælingar og engin vísindi. Ég á afar bágt með að sitja undir þeirri umræðu.

Ég ætlaði hins vegar að spyrja hv. þingmann, af því að hann hnýtti í urðunarskattinn líkt og aðrir þingmenn Miðflokksins hafa gert, umorðað svokallaða vonda hugmynd, held ég, læt duga að umorða það þannig. En nú liggur það fyrir, hv. þingmaður, að fyrirtækin í landinu eru ekki nógu dugleg að flokka. Fyrirtækin í landinu eru þau sem standa fyrir stærstum hluta urðunarinnar hlutfallslega miðað við það sem þau kaupa inn af vörum. Leiðin til að fá þá aðila til að flokka betur og urða minna hefur verið urðunarskatturinn, sem er það tæki sem hefur reynst vel í samfélögunum í kringum okkar.

Hvaða aðferð aðra sjá hv. þingmenn Miðflokksins til að breyta þessari hegðun fyrirtækja?