150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:25]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum m.a. talað á þeim nótum að í sorpinu geti, ef rétt er á haldið, falist ákveðin auðlind, ekki bara kostnaður. Fyrir liggur þingsályktunartillaga sem allir þingmenn Miðflokksins er á um að skoðaður verði fýsileiki þess að koma hér á því sem kallað er sem vinnuheiti hátæknisorpbrennslum. Það er auðvitað ekki boðlegt að við séum að — ja, það er svo sem það sem er verið að gera. En ég spyr á móti, þó að ég sé ekki í stöðu til þess hér í svari við andsvari: Þykir þingmönnum Vinstri grænna það boðlegt að við séum að flytja sorp landa á milli með tilheyrandi kolefnisspori og því að flytja okkar eigin vandamál til útlanda hvað þetta varðar? Ég held að við þurfum að koma málum þannig fyrir að fyrirtækin sjái sér hag í því að fara vel með sorpið.

Í mínum gamla rekstri sem ég stundaði hér um árabil var passað mjög vel upp á allar afklippur af steypustyrktarjárni, timbri og öðru slíku. Þó að þetta sé mjög afmarkaður þáttur af heildarvandamálinu þá er það engu að síður þannig að plast getur haft sitt notagildi, viður annað og almennt sorp síðan enn annað. Við þurfum að nálgast þessa hluti og skoða með opin augu en ég held að það verði ekki gert með þvingandi skattaaðgerðum, þar sem menn í ofanálag virtust ekki verið búnir að hugsa það til enda hvernig þeir ætluðu að nálgast þetta. Við sjáum t.d. svæði eins og Ísafjörð sem þarf að flytja sitt sorp um langan veg, í Fíflholt á Vesturlandi að langmestu leyti. Þar hefur náðst verulegur árangur í flokkun án þess að opinber skattaþvingun komið þar til. Ég ímynda mér að sá árangur náist af því að þar vita íbúarnir og fyrirtækin að þetta kemur (Forseti hringir.) bæjarsjóði til góða án þess að ég hafi neinar rannsóknir til að undirbyggja það.