150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:27]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er gleðilegt að heyra að hv. þingmaður er í rauninni sammála því markmiði sem býr að baki urðunarskattinum, þ.e. að fá fólk og fyrirtæki til að flokka betur, til að henda ekki verðmætum. Svo vill til að þetta er það tæki sem löndin í kringum okkur hafa getað notað og það hefur dregið úr urðun.

Ég er algjörlega sammála þingmanninum að það er óboðlegt að við séum með umtalsverðum kostnaði að flytja sorp til útlanda og það kann vel að vera að þörf sé á því að hafa eina stóra sorpbrennslu einhvers staðar á landinu. En það er ekki lausn á umhverfisvandanum í stóra samhenginu, engan veginn. Það gæti kannski verið ein leiðin til þess að fyrirbyggja það að við flytjum sorpið úr landi. Hins vegar hafa þeir útreikningar sem hingað til hafa verið gerðir á því ekki sýnt, því miður, að það sé endilega hagkvæmasta leiðin, kannski mest vegna þess að við erum svo lítið land, þ.e. svo fáir búa hérna að við þurfum í rauninni meiri mannfjölda og, eins fáránlegt og það hljómar, meira rusl til að brenna til að það geti borgað sig.