150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:32]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir andsvarið. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni, auðvitað væri eina vitið að færa skattinn aftur til fyrra horfs. Þegar hann leggur til að skattprósentan fari í 20% gæti ég reyndar tekið upp á því að koma með breytingartillögu um að setja hana niður í 18–19% en ég myndi alveg sætta mig við að setja hana í 20% aftur. Ég held að þetta hafi hreinlega verið mistök og sennilega er það þannig að þegar menn tóku ákvörðun um að útfæra skattinn svona hefur blasað við mönnum hversu mikið flækjustig fylgir því að greina raunávöxtun hverju sinni. Ég er þeirrar gerðar að ég vil hafa kerfið eins einfalt og gagnsætt og nokkur kostur er með hóflegri skattheimtu. Ég minni á það árlega, þó að menn séu bara búnir að framkvæma skattahækkunarlegginn af þessari aðgerð, að ég held að það væri til mikilla bóta að láta skattahækkunina úr 20% í 22% ganga til baka í stað þess að vinna að raunávöxtunarmarkmiðinu. En annaðhvort þarf að gerast og ef ég fæ einhverju ráðið mun atkvæði mitt falla með því að lækka skattprósentuna frekar en að auka flækjustigið.