150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[20:59]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er rétt að búið er að gera mjög fínar hækkanir á framlögum til ýmissa málaflokka og eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar eru þetta ekki beint vond fjárlög þótt þau séu ekki stórkostlegustu fjárlög sem hægt væri að hugsa sér. Eitt af því sem gerir manni erfitt fyrir í stjórnarandstöðu er að það sést að það er raunverulegur vilji hjá ríkisstjórninni til þess að reyna að bæta ákveðna hluti og maður fagnar því.

Til að svara spurningu hv. þingmanns var ég að vísa í greiningu á ýmsum þáttum sem kom sl. mánudag frá OECD þar sem m.a. var fjallað um að hagkerfið væri almennt í góðu ástandi — eða hvort það var Alþjóðabankinn. Það hefur margt gerst í vikunni og minnið stendur sig kannski ekki alveg. Í öllu falli sýndu niðurstöður það að hagkerfi Íslands stendur sig vel, flest allt gengur mjög vel en það eru ákveðnir veikleikar. Einn veikleiki sem var nefndur í því samhengi var að miðað við fjárframlög til menntamála er Ísland með lægra hlutfall útskrifaðra nemenda á mismunandi stigum o.s.frv. en fólk ætti að eiga von á í samanburði við önnur lönd. Ég get því miður ekki vísað í þetta af meiri nákvæmni vegna þess að ég er ekki með tilvísunina við höndina.