150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[21:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni svarið. Ég held að kjarni máls sé það sjónarmið sem hv. þingmaður kom inn á í ræðunni, að það skiptir máli hvernig við metum það fjármagn, alveg sama í hvaða það fer, skólakerfið eða annað. Við metum mikils að geta verið með skilvirkt skólakerfi þar sem við getum veitt nemendum okkar bestu þjónustu og kennslu, hvort sem það er á grunnskólastigi, framhaldsskólastigi eða háskólastigi. Við erum vissulega að leita eftir því að bera okkur saman við OECD, við Norðurlöndin, eins og við þekkjum, og það er mikilvægt.

Hv. þingmaður kom með athyglisverðum hætti inn á virkni ríkisfjármálanna og gafst kannski ekki tími til að fara af meiri dýpt í það. Ég ræddi mikið í framsöguræðu minni um efnahagsmyndina. Ég held að það hafi ekki breyst þegar við horfum til hagfræðinnar hvað ríkisfjármálastefnan skiptir miklu máli fyrir efnahagsmyndina, hver stefnan er og hvernig við stýrum þeim fjármunum sem við erum með, hver afkomumarkmiðin eru, af því að áhrifin á alla undirliði verðmætasköpunar koma fram í gegnum það umfang sem við sjáum í ríkisfjármálunum. Þetta eru jú einu sinni 1.000 milljarðar. Við sjáum að hagspár taka mið af því hvað sést í áætlunum ríkissjóðs til framtíðar og það er verulega til bóta. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur t.d. hrósað stjórnvöldum fyrir það, sem er öðruvísi en áður var.