150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[21:04]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir því núna, þegar hv. þingmaður segir það, að ég fór kannski ekki nægilega vel í hvað ég var nákvæmlega að vísa í varðandi þessar kenningar. Ég er að vísa í að það er tilhneiging til þess í ríkisfjármálum á Íslandi, og víðar í heiminum, að láta eins og ríkissjóður sé heimilisbókhald, sem það er ekki vegna þess að ekkert heimili getur gefið út sinn eigin gjaldmiðil. Það að hugsa á þann hátt er gömul tugga í nýklassískri hagfræði sem er búið að afsanna að verulegu leyti. Að auki eru komnar hugmyndir í síð-keynesískri hagfræði og það sem kallað er nútímapeningakenningar, með leyfi forseta, „modern monetary theory“ sem hreinlega skáka þessum eldri kenningum. Þegar við horfum á ríkisútgjöldin eru þau vissulega 1.000 milljarðar og vissulega fáum við hrós fyrir það hvað þetta gengur vel, en það breytir því ekki að kennarar eru enn illa launaðir. Hjúkrunarfræðingar eru enn illa launaðir. Það er erfitt að fá fólk í þessar stéttir. Það er að auki hreinlega erfitt að reka sumar stofnanir ríkisins. Það verður alltaf en kannski ef við værum að vinna eftir betri hagfræðikenningum gætum við gert betur.

Það sem ég er í rauninni að benda á er að það er hugsanlega einhver hugsunarvilla í gangi einhvers staðar vegna þess að einhverjir halda að ríkissjóður sé eins og heimilisbókhald, sem það er ekki, og ef við hættum því þá gætum við beitt réttari líkönum og fengið niðurstöðu sem kannski skapar svigrúm til þess að vera með vel launaða kennarar sem standa sig fyrir vikið betur, hafa minni áhyggjur af því hvernig þeir eiga að borga leigu.